Wednesday, May 27, 2015

Atlanta náði að koma á óvart


Fólk er alltaf með einhverjar lélegar afsakanir og þorir ekki að segja "við sögðum ykkur þetta!" varðandi nokkurn skapaðan hlut - alveg sama hvað það hefur rétt fyrir sér. Svona er að lifa í sífellt meðvirkara vestrænu samfélagi þar sem pólitískur rétttrúnaður er að keyra allt um koll og enginn má segja neitt.

Gott og vel, en við ætlum sko ekki að vera með eitthvað hallærislegt lítillæti þá sjáldan við höfum rétt fyrir okkur með einhvern skapaðan hlut. Það er ekki eins og það komi oft fyrir. Það þarf samt örugglega ekki að minna ykkur á það að við erum búin að segja ykkur það reglulega allar götur síðan í haust að Atlanta sé ekki aðeins Atlanta alla leið í gegn - heldur hafi það alltaf verið Atlanta og muni þess vegna mjög líklega verða Atlanta um ókomna tíð.

Nei, við þorðum ekkert að hengja okkur upp á að Atlanta ætti ekki eftir að geta neitt í úrslitakeppninni, en við sögðum eins og var, að við værum ekki að sjá að þetta lið væri að fara að gera einhverja hluti í úrslitakeppninni.

Atlanta átti ljómandi góða deildarkeppni eins og þið öll vitið væntanlega. Liðið vann 60 leiki í fyrsta sinn í sögu félagsins og átti fjóra menn í Stjörnuleik og þjálfara ársins. Það verður ekkert mikið betra. 

En svo er það þetta vesen með úrslitakeppnina. Eftir á að hyggja, kom það í ljós strax í apríl að Atlanta væri ekki að fara að gera neitt í úrslitakeppninni, því það afrekaði að tapa tveimur leikjum fyrir Brooklyn í fyrstu umferðinni. 

Brooklyn er álíka sterkt og Fram í körfubolta, svo það hefði ef til vill átt að hringja einhverjum bjöllum. Við þurftum svo sem engar bjöllur til - þið munið að Atlanta er Atlanta. 

Það er ekki hægt að segja að Atlanta hafi komið sér á neitt sérstaklega gott ról þegar það sló Brooklyn úr leik og það var heldur enginn glæsibragur á því á móti Washington. 

Þú færð auðvitað engin stig fyrir að líta vel út í úrslitakeppninni, við vitum það, en lið verða að koma sér í takt ef þau ætla langt í úrslitakeppninni, jafnvel í þessari hræðilegu Austurdeild.

Heilladísirnar héldu með Haukunum þegar John Wall gat ekki beitt sér að fullu í einvíginu við Washington. Sumir vilja meina að Wiz hefði unnið Atlanta ef Wall hefði verið heill. Við gefum ekkert út á það - og er reyndar skítsama, því hvorugt þessara liða hefði átt séns í Cleveland.

Fátt er erfiðara að kyngja en að láta sópa sér út úr úrslitakepppninni eins og Atlanta þurfti að upplifa í nótt. 

Við töluðum um það eftir leik tvö að við hefðum fundið nýja veikleika á liðinu og leikir þrjú og fjögur gerðu ekkert annað en að leiða hann betur í ljós. Atlanta er bara glatað lið í úrslitakeppni. Handónýtt.

Eins og alltaf er hægt að horfa á glasið hálffullt eða hálftómt. Bjartsýnir geta horft á allar viðurkenningarnar, sigrana sextíu, bent á þá staðreynd að liðið hafi verið að vinna átta leiki í úrslitakeppni í einhver sextíu ár og að það sé með plan - með sýstem sem amk virkar vel í deildarkeppninni.

Þeir sem er svartsýnir - eða reyndar raunsæir, í tilviki Atlanta núna - sjá hinsvegar að það er engin ástæða til að vera með eitthvað Pollýönnukjaftæði hérna. 

Atlanta dalaði áberandi mikið á síðustu vikum deildarkeppninnar og var ekki bara í vandræðum í úrslitakeppninni - það gjörsamlega drullaði á sig í úrslitakeppninni.

Eins og við sögðum um daginn: Hvurslags lið þykist þú vera ef þú vinnur sextíu leiki í deildarkeppninni en getur svo ekki einu sinni unnið EINN leik á móti vængbrotnu Cleveland-liði sem bauð upp á að vera slegið út. 

Við erum ekki að segja að Cleveland sé lélegt lið, en fjarvera Kevin Love og sú staðreynd að Kyrie Irving var á annari löppinni í einvíginu ef hann spilaði á annað borð, segir bara allt sem segja þarf um Atlanta. 

Þetta er bara arfaslakt lið og það má eiginlega segja að það sé fánaberi ömurlega lélegrar Austurdeildar.

Nú hefur nefnilega komið á daginn að kenningar okkar um Austurdeildina reyndust rangar. Við sáum fyrir okkur að þar yrðu tvö áþekk og sæmilega sterk lið í vetur (Cleveland og Chicago) sem ættu eftir að bítast um efsta sætið og að eina liðið sem fræðilega gæti sett strik í þann reikning væri Atlanta - úr því það vann alla þessa bölvaða leiki í deildarkeppninni.

Þetta var hinsvegar allt einn stór misskilningur. Staðreyndin er sú að það er bara eitt sæmilega gott lið í Austurdeildinni og það er Cleveland. Og LeBron og félagar eru meira að segja með svo mikla yfirburði í austrinu að þeir þurftu ekki einu sinni að nota Kevin Love og aðra löppina á Kyrie Irving til að henda hinu ruslinu í sumarfrí. 

Það voru nú öll átökin.

Það er hægt að benda á fullt af hlutum sem fóru úrskeiðis hjá Atlanta í þessari úrslitakeppni en ef til vill fljótlegra að telja upp það sem ekki fokkaðist upp hjá þeim. 

Tölfræðin lítur hræðilega út hjá þeim. Til dæmis skaut liðið aðeins 23% úr þriggja stiga skotum þar sem voru meira en fjögur fet í næsta varnarmann og alls 31% úr 3ja stiga skotum sem tölfræðin skilgreinir sem opin. 

Atlanta skaut 40% úr "grípa-og-skjóta" þriggja stiga skotum í deildarkeppninni í vetur, en var með helmingi lélegri nýtingu í úrslitakeppninni.

Það var samt ekki þessi múrsteinahleðsla sem fór mest í taugarnar á okkur við leik Atlanta í úrslitakeppninni, heldur algjört bjargarleysi þess í teignum. 

Þeir Tristan Thompson og Timofey Mozgov gjörsamlega áttu teiginn eins og Té-Rexar í barnaafmæli og það var hlutur sem við vorum búin að spá. Þú verður næstum því alltaf að vera með kjöt og sentimetra í miðjunni þegar kemur fram í úrslitakeppni og fagurfræðistuðlar taka að lækka.

Við höfum ekki nógu mikinn áhuga á Atlanta til að fara að kortleggja framtíðina hjá því og hvað það þarf að gera til að forðast að gerar sig að fífli í úrslitakeppninni næst. 

Við eigum svo sem ekki von á því að gerðar verði stórar breytingar hjá þeim, enda er þetta svo sem bara annað árið hans Budenholzer og hann hlýtur að fá meiri tíma með þetta lið.

Haukarnir þurfa að semja við menn eins og Paul Millsap og DeMarre Carroll fyrir næstu leiktíð og það á eftir að verða rándýrt, því þeir koma til með að fá myndarlega launahækkun eins og bróðurparturinn af leikmönnunum í NBA deildinni í nánustu framtíð. 

Þó að þetta prójekt sem Atlanta er að búa til sé frekar nýtt á nálinni, þýðir það hinsvegar ekki að við séum að tala um einhverja unglinga. Megnið af leikmönnum liðsins eru orðnir vel þroskaðir og því verður stjórnin að gera það upp við sig í sumar hvort hún ætlar að halda áfram að róa á þessi mið eða gera róttækar breytingar. Við setjum fimmhundruðkallinn á fyrri kostinn.

Þó Atlanta hafi sannað kenningar okkar um að það væri Atlanta á frekar fyrirsjáanlegan hátt, verðum við samt að gefa því það að það náði samt að koma okkur hressilega á óvart hvað varðar eitt atriði.

Okkur hefði aldrei órað fyrir því að það væri svona lélegt.