Tuesday, May 26, 2015

Sumarleyfum leikmanna Houston frestað um sinn


Þetta gátuð þið, sveppirnir ykkar!

Houston var ekki tilbúið að fara í sumarfrí í kvöld, einhverra hluta vegna. Kannski hefur verið uppselt í flugið á Benidorm, hver veit. Það sem við vitum hinsvegar, er að Houston náði að klóra út einn leik í viðbót við Golden State með 128-115 sigri í fjórða leik liðanna í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar. Staðan er sumsé 3-1 fyrir Golden State og næsti leikur er í Oakland á miðvikudagskvöldið klukkan eitt.

Við erum kannski harðbrjósta hérna á ritstjórninni, en við erum engin fífl. Við erum alveg tilbúin að henda út hrósi þegar það á við og Houston á hrós skilið fyrir þennan leik, þó það hefði að sjálfssögðu átt að drullast til að spila með sömu örvæntingu í leik þrjú í fyrrakvöld í stað þess að bíða með það þangað til í kvöld.

En svona er þetta Houston-lið bara. Það er nú 4-0 í úrslitakeppninni í leikjum þar sem það á á hættu að falla úr keppni, sem er ágætt út af fyrir sig.

Og áfram með hrósið á Houston. Venjulega verðum við bara pirruð þegar lið sem lenda undir 3-0 aulast til að vinna leik fjögur og kjósa því að fá svokallað heiðursmanna-sóp (4-1) í stað hefðbundins sóps (4-0). Aðeins eitt atriði getur forðað okkur frá þessum pirringi og það er ef umræddur leikur er skemmtilegur.

Og þó Houston hafi líklega bara verið að seinka hengingunni sinni í kvöld, má það eiga að það gerði það a.m.k. skemmtilega. Sjáið þið bara hvað við erum jákvæð í nótt! Svona verðum við jákvæð þegar við sjáum skemmtilegan körfubolta og þetta var dúndrandi skemmtilegur körfubolti. Miklar sveiflur, nokkrir olnbogar og drama. Svona á það að vera.

Ætli sé ekki best að afgreiða þetta olnboga mál strax. Dwight Howard átti alltaf, undir öllum kringumstæðum að fjúka út af í nótt fyrir olnbogann/handlegginn sem hann barði í andlitið á Andrew Bogut. Hvernig Joey Crawford af öllum mönnum henti honum ekki útaf er með því furðulegra sem við höfum orðið vitni að í NBA deildinni nokkru sinni.

Það er hinsvegar ekkert ólíklegt að NBA deildin helli sér yfir atvikið aftur og athugi hvort þessi óíþróttamannslega villa hans Howard sem Crawford dæmdi 1. stigs villu, hafi í raun og veru verið 2. stigs villa. Ef svo er, fer Howard yfir ákveðinn þröskuld af "skamm-skamm" stigum og þarf þá að taka út bann í næsta leik.

Það yrði auðvitað ákveðið áfall fyrir Houston, sérstaklega í ljósi þess að Donatas Motiejūnas er meiddur og því yrði fátt um fína drætti í framlínu Houston.

Liðið er mjög vant að spila án hans og getur það alveg, en það þarf á öllum sínum varnartrompum að halda í leiknum í Oakland á miðvikudagskvöldið.

Svona ef þið viljið úttekt á möguleikum Houston í þeim leik, þarf liðið að spila talsvert betur á báðum endum vallarins til að vinna þann leik. Þetta er heilagur sannleikur. Sannið bara til.

Það þýðir ekkert fyrir Houston-menn að verða litlir í Oakland og enn síður að missa sig í einhverja vitleysu eins og Dwight Howard bauð upp á í nótt. 599 af 600 dómurum hefðu hent honum út af í nótt. Allir nema Joey Crawford, sem nota bene á að fara að hætta þessu. Hann er búinn að dæma í NBA deildinni í 37 ár og er farinn að detta á hausinn upp úr þurru þegar hann kiðar upp völlinn.

Houston þarf að spila betur í leik fimm en það gerði í leikjum 1 og 2 í Oakland, þar sem það stóð sig heilt yfir nokkuð vel. Svona verður erfitt fyrir þá að vinna þennan leik.

Okkur er til efs að Warriors láti hanka sig á sama ruglinu og Clippers-liðið. Golden State kemur tilbúið að spila í næsta leik, sérstaklega í vörninni og verður að teljast ansi sigurstranglegt, sérstaklega ef Stephen Curry fer nú ekki í fleiri flugferðir.

Og áfram með hrósið. Við verðum að hrósa Skegginu fyrir þetta rugl sem það bauð upp á í nótt. Það getur vel verið að James Harden hafi kúkadáldiðíbussansín í síðasta leik, en hann er búinn að skila über-leikjum í hinum þremur, sérstaklega í nótt, þar sem hann henti í 45/9/5//2/2 og skaut 7 af 11 í þristum. Þetta er náttúrulega rugl, alveg sama hvernig á það er litið.

Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, fannst okkur Skeggið bíða allt of lengi með að stilla í árásargírinn, en það verður ekki af honum tekið að hann hélt Golden State í skefjum allan fjórða leikhlutann þegar það reyndi að koma til baka hvað eftir annað. Magnaður leikur hjá dýrinu.

Maðurinn sem byrjaði þetta allt saman hjá Houston var samt Josh Smith. Okkur langar alveg rosalega mikið að vita hvað hefði gerst - hvernig þessi leikur hefði þróast - ef Josh Smith hefði ekki dottið í ranghugmyndirnar og byrjað leikinn á að skjóta eins og hann héldi að hann væri Chuck Person.

Það er nákvæmlega ekkert eðlilegt við það að Josh Smith hafi mögulega verið að bjarga beikoninu á liði í annað skipti í úrslitakeppninni með því að skjóta þriggja stiga skotum.

Dwight Howard tók enda undir þetta á blaðamannafundinum þegar hann sagði að fyrsta hugsun þeirra félaga hans hefði verið "ó, nei" þegar Smith byrjaði að taka þessi þriggja stiga skot. Auðvitað hugsuðu þeir fokkíngs ónei! Maðurinn er með TUTTUGU OG ÁTTA PRÓSENT þriggja stiga nýtingu á ferlinum!

Sko, það er ekkert óeðlilegt við að reyndur kappi gefi liði eins og Houston smá spark í rassinn með leik sínum, en ef þú pælir aðeins í því; hvað segir það um þetta Houston-lið ef neistinn sem kemur liðinu í gangi í byrjun er langskotasýning frá Josh Smith!?!

Látum vera ef hann dúkkaði t.d. upp í fjórða leikhluta og setti einn þrist, svona til að prófa að vera hetjan eða geitin - en þetta var ekkert svoleiðis. Það var Josh Smith sem lagði gjörsamlega línurnar fyrir Houston í byrjun leiksins og það var byrjunin - fyrsti leikhlutinn - sem skóp þennan sigur hjá Rockets og ekkert annað.

Það er nánast ómögulegt að vinna leik á útivelli þar sem þú lendir undir 45-22 eftir fyrsta leikhluta.

Golden State komst að því í nótt og ekki einu sinni stórskotalið eins og það gat komið til baka eftir það, þó það næði vissulega að minnka muninn í sex stig þarna á kafla.

Nei, það var ekki Harden og það var sannarlega ekki Dwight Howard.

Það var Josh bleepin´ Smith. Aftur. Fáránlegt.

Hjá Golden State reyndu þeir bræður í bakvarðastöðunum að skjóta Dubs inn í leikinn og voru svo sem ekki langt frá því. Klay var að spila betur en í leikjunum á undan og það var gaman að sjá hann svara kallinu þegar Steph fór út af eftir fimleikasýninguna á hausnum á Ariza.

Það var samt Draymond Green sem var allt í öllu hjá Golden State og ást okkar og hrifning á þeim leikmanni er að komast á suðupunkt.

Gaurinn er svo dásamlega all-in í hverjum einasta leik og berst til síðasta manns á báðum endum vallarins - alltaf.

Svo skemmir ekki þegar hann hendir inn 21/15/4/5 leikjum líka. Þvílíkur snillingur, sem er alltaf að verða stærri og stærri hluti af öllu sem þetta Warriors-lið er að gera.

Svo verðum við bara að minnast á sendingarnar sem eru allt í einu farnar að koma frá Festus Ezeli. Hvað er að frétta með það? Andrew Bogut að hafa góð áhrif á stóru mennina í liðinu greinilega, þó hann hafi verið hálf gagnslaus í þessum leik blessaður. Gat ekki einu sinni látið reka Dwight Howard út af með því að skalla á honum hendina.

Það er ekkert meira um þetta einvígi að segja fyrr en á fimmtudagsmorguninn, þegar Golden State verður annað hvort búið að slátra Houston á heimavelli sínum og komast í úrslit í fyrsta skipti í 40 ár, eða koma sér í bölvuð vandræði og annað flug til Texas.

Bara einn punktur enn: Ef Stephen Curry nær að skjóta þetta Golden State lið til meistaratignar í júní, mun hann hafa farið leið sem engin önnur ofurstjarna í NBA deildinni hefur farið áður að dollunni.

Ef Warriors vinnur titilinn, mun Curry því ekki bara hafa slegið út mennina sem voru númer tvö og þrjú í kjörinu á leikmanni ársins, heldur verður hann þá líka búinn að slá alla fjóra leikmennina sem voru með honum í 1. úrvalsliði deildarinnar út úr úrslitakeppninni á leið sinni að titlinum. Þá Anthony Davis í fyrstu umferð, Marc Gasol í annari, James Harden í þriðju og LeBron James í fænals.

Við skulum umfram allt reyna að fara ekki mjög langt fram úr okkur. Við sáum í kvöld og höfum raunar séð það daglega í allan vetur hvað er stutt á milli Óskars og Ófeigs í NBA deildinni út af meiðslum, en því er ekki að neita - það yrði helvíti huggulegt fyrir Curry að hafa þetta á ferilskránni.

Tékkaðu á nokkrum myndum, finnst við höfðum fyrir því að setja þær inn fyrir þig. Sjáðu til dæmis hvað treyjan hans Dwight Howard er rifinn á einni þeirra og hvað Stephen Curry sparkaði skemmtilega í grillið á Festus Ezeli liðsfélaga sínum um leið og hann fór heljarstökkið afturábak á hausnum á Trevor Ariza: