Saturday, May 23, 2015

NBA Ísland fann nýjan galla á liði Atlanta Hawks


Við vissum að þetta væri að koma, en okkur grunaði ekki að skellurinn yrði svona þungur. Við vissum að það kæmi kafli í úrslitakeppninni þar sem við fengjum öll að sjá sannleikann um Austureildina. Það var Atlanta sem tók það á sig að sýna okkur þennan sannleika svart á hvítu og niðurstaðan var hreint út sagt ógeðsleg.

Leikmenn Atlanta Hawks gerðu sig að algjörum fíflum í 94-82 tapi fyrir Cleveland í nótt. Þetta lið sem átti fjóra leikmenn í Stjörnuliðinu í febrúar, lagðist á völlinn á heimavelli sínum í kvöld og drullaði á sig.

Atlanta vann 60 leiki í vetur en er núna að láta lið sem skipað er LeBron James og nokkrum rulluspilurum gjörsamlega hrauna yfir sig.

Það er enginn Kevin Love í liði Cleveland. Enginn Kyrie Irving heldur. Bara LeBron og einhverjir gaurar sem New York gat ekki notað, gegn Stjörnuliðsmönnunum fjórum í Atlanta.

Þið sjáið augljóslega að þetta dæmi gengur ekki upp og það er af því við erum að tala um Austurdeildina. Gæðin eru ekki meiri en það þarna austan megin að það var bara tímaspursmál hvenær við fengjum að sjá neyðarlega hluti þaðan.

En það er ekki Austurdeildinni að kenna að Atlanta sé drasl. Já, við sögðum það. Þetta Atlanta lið er drasl - amk þegar komið er fram í úrslitakeppni. Svo mikið drasl að það hefur orðið Photoshop-listamönnum internetsins innblástur.


Atlanta-menn eru voða krúttlegir í deildarkeppninni þegar enginn nennir að spila vörn en það verður bara að segjast eins og er að þeir eru búnir að spila eins og aumingjar lengst af í úrslitakeppninni. Þeir lentu í vandræðum á móti Brooklyn, sem er últramegacrap og hefðu með smá heppni látið vængbrotið Washington-lið henda sér úr keppni.

Þeir toppuðu sig hinsvegar endanlega í kvöld þegar þeir létu vængbrotið Cleveland-lið sópa sér upp og henda sér í klósettið - og það á heimavelli.

Við gerum okkur grein fyrir því hvað við erum föst á þermistigi Freuds þegar kemur að því að lýsa óförum Atlanta Hawks, en það er blanda af vanþroska okkar og raunverulegri vanhæfni körfuboltaliðsins.


Hvað eru menn að meina þegar enginn byrjunarliðsmaður skorar meira en 12 stig í leiknum og stigahæsti maðurinn þeirra á myndinni hér fyrir ofan skorar heil 13 stig.

Cleveland er reyndar búið að standa vörnina miklu betur í úrslitakeppninni en það gerði nokkru sinni í deildinni. Það fær á sig aðeins 98,1 stig per 100 sóknir sem er best allra liða í úrslitakeppninni (ásamt Chicago) en okkur er fjandans sama.

Það var engin mótspyrna í þessu Atlanta-liði. Engin barátta. Enginn vilji. Það er sannarlega engin stórstjarna í þessu liði, það hefur komið fram þúsund sinnum,  en það er miklu alvarlegra mál að það er enginn leiðtogi í því heldur.

Atlanta var niðurlægt í nótt og á ekki afturkvæmt. Þessi sería er bara búin, af því annað liðið virðist ekki hafa dug í að vera með í henni.

Við verðum að gefa Cleveland kúdós líka þó að Atlanta geti ekki rassgat. Það er óþarfi að taka neitt frá LeBron og félögum. Þeir eru að gera það sem þeir þurfa að gera og aðeins aukalega.

Cleveland-menn sjá nú fram á að geta jafnvel afgreitt þetta einvígi nokkuð örugglega og skorað með því hvíld fyrir meidda skrokka. Meiðslin hans Kyrie Irving eru náttúrulega stærsta spurningamerkið í allri úrslitakeppninni í dag.

Við erum ekki frá því að við höfum skrifað þessar línur áður, en LeBron James er ágætlega góður í körfubolta. Hann er að spila eins og engill á móti Atlanta og er alltaf að taka á sig stærra og stærra leiðtogahlutverk.

Stór hluti af því er ekkert annað en sýndarmennska þegar hann er með hljóðnema TNT og ESPN límda á sig, en hluti af þessu er vissulega í alvöru. Þetta er í fyrsta skipti sem hann er óumdeildur andlegur leiðtogi liðs og hann er að standa sig vel í því hlutverki hingað til, þó það sé stundum dálítið vandræðalegt.


Það er dásamlegt að sjá hann fara niður á blokkina og gjörsamlega fræsa sig í gegn um lélega vörn Atlanta-liðsins. Hann fékk enn meira pláss til að athafna sig í nótt en í fyrsta leiknum og þá gefur augaleið að hann skorar 30 stig og er í kring um þrennuna.

Þegar hann er ekki að skora sjálfur í teignum, er hann að keyra þangað, draga til sín athygli og dæla boltunum út á vængina þar sem félagar hans jarða hvern þristinn á fætur öðrum.  JR Smith átti risastóran þátt í sigri Cavs í fyrsta leiknum og James Jones og Iman Shumpert sáu um að skila þessu nauðsynlega aukaframlagi í nótt.



Þetta eru ekki bestu þriggja stiga skyttur í heimi og það skelfur enginn af hræðslu yfir því að fá á sig þriggja stiga skot frá Iman Shumpert og Matthew Dellavedova.

En áhugaleysi Atlanta skapaði nógu mörg tækifæri fyrir þá til að klára þennan leik. Og þegar Cleveland er ekki að hitta, kemur þessi brjálæðingur og hreinsar öll skotin upp í sóknarfráköstunum.


Það er næstum því ósanngjarnt. Fráköstin eru einn af veikleikum Atlanta liðsins og Tristan Thompson er heldur betur að leiða það í ljós. Hann og Stóri-Moz eru gjörsamlega að stúta Haukunum í teignum eins og reyndar á öllum öðrum vígstöðvum.

Á meðal helstu veikleika Atlanta má til dæmis nefna fráköstin og þá staðreynd að liðið á ekki væng - neyðarkarl - til að beila sig út þegar vantar körfu upp úr engu. En við fundum alveg nýjan veikleika á Atlanta í nótt: Þetta lið getur bara ekki rassgat og hefur engan áhuga á að vera meira með í úrslitakeppninni.

Só sorrý bara.