Þeir eru ánægðir með sig hérna fyrir ofan og ætli það sé ekki í lagi. Stephen Curry og Steve Kerr hafa farið fyrir mögnuðu liði í allan vetur og eru nú komnir með það í úrslitin, þar sem Cleveland bíður.
Golden State lokaði Houston 104-90 í nótt og kláraði einvígið því 4-1. Warriors vann 67 leiki í vetur, er 44-3 á heimavelli, 56-0 í leikjum þar sem það nær 15+ stiga forystu og náttúrulega 12-3 í úrslitakeppninni.
Nú vantar bara fjóra sigra í viðbót til að feta í fótspor Warriors-liðsins hans Rick Barry forðum, en það er vægast sagt kominn tími á það. Flóamenn er búnir að bíða í 40 ár eftir titli og enginn af strákunum í liðinu núna var fæddur þegar liðið vann síðast. Titillinn sá kom líka nokkrum dögum áður en Jaws kom í bíó, þannig að....
Golden State virðist vera tilbúið í lokabardagann við LeBron James og félaga, því það hefur staðið af sér allar þær áskoranir sem fyrir það hafa verið settar hingað til. Það sópaði New Orleans af því það átti að gera það, fékk á kjaftinn gegn Griz en lokaði og sá svo sjálft um að gefa á kjaftinn á móti Houston, sem átti aldrei séns í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar eftir að Warriors komst í 3-0.
Við erum búin að segja það áður og endurtökum það hér. Það er eitthvað stórkostlega mikið að ef Golden State vinnur úrslitaeinvígið ekki örugglega. Við vitum alveg að úrslitaeinvígin í NBA deildinni eru langoftast nokkuð jöfn, en það er bara ekkert í spilunum annað en LeBron James sem bendir á að Cleveland eigi séns í þetta. James er vissulega góður, en ekki nógu góður til að vinna Dubs upp á sitt einsdæmi.
Spáin okkar væri mjög svipuð þó Kevin Love og Kyrie Irving væru við 100% heilsu. Cleveland hefði unnið tvo leiki ef þeirra hefði notið við, en ætti ekki að vinna nema í mesta lagi einn með engan Ástþór og Irving á annari löppinni.
Við finnum óskaplega til með James Harden núna. Okkur er til efs að hann hafi spilað lélegri leik en hann gerði í nótt, þar sem hann hitti ekki rassgat og bætti metið yfr tapaða bolta í úrslitakeppninni úr ellefu upp í þrettán. Þetta er hrikalega neyðarlegt fyrir Skeggið. Harden er búinn að eiga frábæran vetur og frábæra úrslitakeppni, þó hann hafi verpt tveimur fúleggjum í þessu Warriors-einvígi.
En þó við finnum til með Harden, þýðir það alls ekki að hann sleppi við gagnrýni. Hann er búinn að vera að reyna að taka að sér stærra hlutverk sem leiðtogi Rockets en það er ekki að skila sér. Það gefur augaleið að það er Harden sem á að taka að sér að framleiða stig ef sóknarleikur liðsins er ekki að ganga nógu vel, en hann stendur ekki undir þeirri ábyrgð.
Það er náttúrulega fáránlegt að horfa upp á einn besta skorara heimsins, manninn sem varð annar í kjörinu á leikmanni ársins, taka hverja sóknina á fætur annari þar sem hann kemur ekki við boltann og lætur paper-cases eins og Josh Smith sjá um að dæla skotum út í loftið eins og vitleysingar.
Við vitum að það var rosalega krúttlegt þegar Smith tryggði liðinu einn sigurinn á móti Clippers og hvernig hann kveikti í liðinu með skotsýningu sinni í upphafi fjórða leiksins. Fólk má bara ekki gleyma því að þetta er Josh fokkíng Smith og það er ótækt að svona stór hluti umfjöllunar okkar um þetta einvígi skuli vera helgaður honum. Piltur kvaddi okkur með einum dásamlegum Josh Smith-leik, þar sem hann skoraði 11 stig, hirti 4 fráköst og hitti úr þremur af fjórtán skotum sínum, þar af tveimur af sjö í þristum.
Og talandi um menn sem eru sjálfum sér líkir. Dwight Howard hélt áfram að setja upp sínar venjulegu tvennur en gat ekki stillt sig um að beita smá ofbeldi í leiðinni. Það segir allt sem segja þarf um Howard að hann hafi fengið tæknivillu í leiknum í nótt þó hann hafi vitað að það myndi kosta hann bann í næsta leik. Þessi maður hugsar ekki.
Dwight Howard virðist ekki vera mjög greindur einstaklingur en hann segir að sér sé fjandans sama hvað okkur öllum finnst um hann - í sínum augum sé hann alltaf meistari. Hann lét eitthvað á þessa leið út úr sér á fjölmiðlafundinum eftir leikinn í nótt og virðist hafa fundið það alveg eðlilegt bara. Ekki laust við að sé smá Balotelli í miðherjanum.
“No matter how the season ends, I’m still a champion and I won’t let anyone tell me different.” - Dwight Howard 27.05.´15
Það er erfitt að skrifa jákvæða hluti um lið eins og Houston af því það á alltaf einn og einn leik þar sem það gjörsamlega drullar á sig. Við ætlum nú samt að bíta á jaxlinn og reyna. Auðvitað var deildarkeppnin ljómandi góð hjá Houston, þar sem liðið náði öðru sæti í vestrinu þrátt fyrir bullandi meiðsli. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað en gott.
Úrslitakeppnin var ekki alltaf glæsileg hjá liðinu, en það lærði dýrmætar lexíur í henni þetta árið með því að komast lengra en áður (á þessum mannskap) og lenda í alls konar hremmingum á leiðinni. Daryl Morey framkvæmdastjóri Rockets á eftir að halda áfram að pota, breyta og bæta þetta lið með samningaklækjum sínum og tölfræði, en við erum ekki að sjá að gerðar verði mjög stórar breytingar á hópnum.
Houston er með drullu fínan hóp leikmanna, þó einhverjir þeirra séu að komast á aldur, en spurningin hjá þeim er hvernig þeir ætla að spila úr því sem þeir hafa.
Þetta lið vinnur yfir 50 leiki á hverju ári með þennan mannskap og við sjáum ekki að menn fari að breyta því mikið, því í úrslitakeppninni snýst þetta svo mikið um heppni og hvernig lið passa á móti hvort öðru. Houston passaði auðvitað djöfullega á móti Golden State, en það á við öll hin 28 liðin í deildinni, svo það er ekkert nýnæmi.
Hæfileikarnir í þessu liði eru til staðar og það er búið að sýna að það getur bæði spilað hörkuvörn og bullandi sóknarleik. Við erum ekki alveg viss með Kevin McHale í þjálfarastólnum. Hann hefur almennt ekki verið álitinn einn af betri þjálfurum í deildinni og því væri kannski spurning hvort Houston ætti að horfa í kring um sig eftir einum slíkum. Það má þó vel vera að það sé ekki tímabært, því McHale er náttúrulega búinn að standa sig drulluvel í vetur.
Þið sjáið að áhyggjur okkar af Houston miðast ekki mikið við taktík og strategíu, heldur gæti það sem upp á vantar hjá liðinu verið andlegs eðlis. Það vantar raunverulegan leiðtoga í þetta lið - eða mann sem er nákvæmlega andstæðan við Dwight Howard.
Howard er nefnilega ekki aðeins fremur vitgrannur maður, heldur hefur hann hvorki fúsleika né félagslegar trefjar í að gera það sem til þarf til að vinna meistaratitil í NBA deildinni. Hann er barnalegur, óábyrgur og metnaðarlaus.
Athugið að við erum ekki að finna að því að menn geti gert að gamni sínu, heldur þurfa menn að kunna að velja stað og stund fyrir slíkt. Það kann Howard greinilega ekki eins og sást þegar liðið hans var að skíttapa fyrir Golden State á heimavelli í leik þrjú og Howard sat á bekknum og hló og sagði brandara. Þetta er ekki maður sem tekur vinnu sína alvarlega.
Ekki misskilja okkur; Dwight Howard má gera hvað sem honum dettur í hug okkar vegna, við erum aðeins að benda á nokkra punkta sem sýna okkur að hann búi ekki yfir andlegum styrk og greind til að takast á við jafn erfitt verkefni og að vinna meistaratitil í NBA deildinni.
Það stingur alltaf meira og meira í augun að horfa upp á Howard skjóta 30% úr vítum í Hacka-Howard, klikka hvað eftir annað eftir annað á skotum sem hann tekur boltalengd frá körfunni, sjá hann gefa andstæðingum sínum stig með því að verja skot sem voru ekki að fara ofan í á niðurleið, leika sér að taka fáránleg sveifluskot frá miðju í upphitunum og í stað þess að fokkíng reyna að æfa vítaskotin svo hann hitti betur en blettahýena á terpentínu, lenda í villuvandræðum og síðast en ekki síst - haga sér eins og fífl og fá tæknivillur fyrir væl eða ofbeldi.
Og finnst við erum að tala um ofbeldi: Trevor Ariza tók Klay Thompson svo viljandi á hnéð í nótt að það var næstum því fyndið. Annan leikinn í röð komust Houston-menn upp með ofbeldistaktík og Howard meira að segja í tvígang. Ekki að það skipti svo sem miklu máli núna, nema hvað Thompson ku hafa fengið vott af heilahristingi þegar hann fékk hnéð á kaf í hausinn á sér. Kemur á óvart bara.
Ef við eigum að súmmera þetta saman, erum við sem sagt drullujákvæð út í Houston. Liðið þarf að fá til sín sterkari karaktera - kannski nýjan þjálfara - og Harden þarf að æfa sig betur í að vera leiðtogi og drullast til að taka af skarið þegar á þarf að halda. Dwight Howard er fábjáni, en það er lítið við því að gera.
Golden State er í blússandi fínum málum og ætti að vera klárt í að sópa eða heiðursmannasópa Cleveland í úrslitunum sem hefjast á fimmtudaginn eftir viku. Úff, viku! Aðeins of langt. Gæti allt eins verið sjö mánuðir.
Kíktu svo á nokkrar myndir hérna fyrir neðan. Ekki eins og sé eitthvað annað að gera næstu daga.