Goðsögnin
Elgin Baylor á stórafmæli í dag. Þessi innan við tveggja metra hái framherji var einn mesti brautryðjandi síns tíma í NBA deildinni. Hann lék allan sinn feril með Lakers, fyrstu tvö árin í Minneapolis og restina í Los Angeles.
Baylor spilaði ellefu stjörnuleiki á ferlinum og skoraði 15 stig eða meira í tíu þeirra. Hann lék hvorki meira né minna en átta sinnum til úrslita um meistaratitilinn, en var svo óheppinn að verða samferða sigursælasta liði NBA sögunnar þegar það var að toppa.
Ár eftir ár komst Lakers í lokaúrslitin en alltaf þurfti það að lúta í lægra haldi fyrir Boston Celtics.
Ein af kaldhæðnilegustu staðreyndum NBA sögunnar er sú að loksins þegar Lakers náði að vinna bölvaðan titilinn, var það nokkrum mánuðum eftir að Baylor ákvað að hætta að spila.
Lakers-liðið sem náði loks að brjóta ísinn, gerði það sannarlega með stæl, en það var sögufrægt ´72-liðið með Jerry West og Wilt Chamberlain í fararbroddi. Það var fyrsti titill félagsins síðan 1954.
Baylor var skorari af guðsnáð. Sem dæmi um það má nefna að á fyrsta árinu sem Lakers-liðið spilaði í Los Angeles (1960-61), bauð hann upp á 35 stig, 20 fráköst og fimm stoðsendingar að meðaltali í leik. Aðeins.
Eins og nærri má geta var Baylor í hópi 50 bestu leikmanna sögunnar þegar staðið var að því vali á sínum tíma.
Þeir sem yngri eru muna ef til vill eftir Baylor sem framkvæmdastjóra Los Angeles Clippers, þar sem hann var í yfir tvo áratugi til ársins 2008. Tveimur árum áður var hann kjörinn framkvæmdastjóri ársins eftir að Clippers-liðið tók smá kipp undir forystu Sam Cassell.
NBA Ísland sendir Baylor innilegar afmæliskveðjur í tilefni dagsins og vonar að hann eigi mörg góð ár eftir í þessu andskotans bulli sem við köllum lífið. Hann lengi lifi,
húrra, húrra, húrra!