Tuesday, September 30, 2014

Þetta er að byrja


Við reynum áfram að birta ykkur dagskrárplön NBATV international - alþjóðlega hluta NBATV sem er með aðra dagskrá en samnefnd stöð í Bandaríkjunum (sem á það til að rugla fólk).

Það hefur oft komist illa til skila á liðnum árum, en þessa dagskrá (þ.e. lista yfir beinar útsendingar NBATV frá leikjum) er oftast að finna inn á dagskrársíðunni (Dagskrá/leikir í beinni - flipinn efst á síðunni) hér á NBA Ísland. Það kemur fyrir að við gleymum að uppfæra þetta í lok mánaðar og þá er ekki annað en að senda línu á nbaisland@gmail.com og ýta við okkur.

Hérna fyrir neðan eru fyrstu drög að beinum útsendingum frá undirbúningstímabilinu í NBA sem hefst á næstu dögum. Athugið að þetta getur átt það til að breytast með litlum fyrirvara og þá þýðir ekkert að grenja í okkur, elskurnar.

En já, gleðilega hátíð og góða skemmtun.



Saturday, September 27, 2014

Smá tölfræðipælingar


Gaman fyrir okkur hin að það hafi ekki verið mikið að gera hjá honum Jeremias Engelmann vini okkar undanfarið. Annars hefði hann sennilega ekki haft tíma til að taka þetta saman. Um er að ræða plús/mínus útreikninga síðustu fjórtán ára, sem hann er búinn að henda í töflu.

Því betri sem menn eru í varnarleiknum, því lengra eru þeir til hægri á lárétta ásnum. Því ofar sem menn eru á töflunni, því betri/skilvirkari eru þeir í sóknarleiknum. Vitum ekkert hvort er eitthvað að marka þetta - seljum það ekki dýrara frekar en annað - en það er alltaf gaman að skoða svona. Góða skemmtun, tölfræðinördar.

Friday, September 26, 2014

Fjögur löng ár


Fjögur ár eru ekki ýkja langur tími, en það veltur þó líklega á því hver er að telja dagana.
Ætla má að dagarnir hafi stundum verið lengi að líða hjá stuðningsmönnum Cleveland Cavaliers síðan uppáhaldssonur félagsins yfirgaf það árið 2010.

Síðan þá, hefur Cleveland-liðið verið eitt lélegasta liðið í NBA deildinni og sennilega lélegra en svartsýnustu menn hefðu gert sér í hugarlund. Nú er týndi sonurinn kominn heim á ný og er búinn að eignast nýja vini sem hann tekur með sér.

Já, það getur ansi margt gerst á fjórum árum í NBA deildinni. Meira að segja í Cleveland.

Monday, September 22, 2014

Góður Draumur maður

































Hakeem Olajuwon var sannarlega einstakur leikmaður. Við tókum því aldrei sem sjálfssögðum hlut að horfa á hann leika listir sínar á Milli-Jordan árunum. Það væri gaman að vita hvort hann væri með 40 eða 45 stig að meðaltali í leik ef hann væri að spila eins og hann gerði best í miðherjaleysinu í dag.

Og athugaðu að ef Olajuwon væri að spila í dag, væri hann þriggja stiga skytta líka. Það er ekkert rosalega langt á milli 18-20 feta skotanna sem voru sjálfvirk hjá honum og 23-24 fetanna sem gefa þrjú stigin. Pældu aðeins í því hverslags gereyðingarvopn Hakeem hefði verið ef hann hefði þróað með sér heiðarlegt þriggja stiga skot. Nóg var hann fyrir.

Fullt af fólki tróð höfðinu upp í ristilinn á sér og hætti að fylgjast með NBA körfuboltanum eftir 1993 og missti því af 24 mánaða dómínasjónum Nígeríumannsins á árunum 1994-95. Prófið að spyrja leikmann ársins 1995, David Robinson, hvað var að gerast á þessum tíma. Hann svarar því reyndar á lokasekúndunum í fyrra myndbrotinu hérna fyrir neðan. Gott ef Robinson fékk ekki garnaflækju eftir alla snúningana sem Draumurinn tók á hann.



Svægur Van með viðhorf á brá



Fisher yfir Iverson (og það með hægri)



Chuck



Tuesday, September 16, 2014

Elgin Baylor er áttræður í dag



Goðsögnin Elgin Baylor á stórafmæli í dag. Þessi innan við tveggja metra hái framherji var einn mesti brautryðjandi síns tíma í NBA deildinni. Hann lék allan sinn feril með Lakers, fyrstu tvö árin í Minneapolis og restina í Los Angeles.

Baylor spilaði ellefu stjörnuleiki á ferlinum og skoraði 15 stig eða meira í tíu þeirra. Hann lék hvorki meira né minna en átta sinnum til úrslita um meistaratitilinn, en var svo óheppinn að verða samferða sigursælasta liði NBA sögunnar þegar það var að toppa.

Ár eftir ár komst Lakers í lokaúrslitin en alltaf þurfti það að lúta í lægra haldi fyrir Boston Celtics.

Ein af kaldhæðnilegustu staðreyndum NBA sögunnar er sú að loksins þegar Lakers náði að vinna bölvaðan titilinn, var það nokkrum mánuðum eftir að Baylor ákvað að hætta að spila.

Lakers-liðið sem náði loks að brjóta ísinn, gerði það sannarlega með stæl, en það var sögufrægt ´72-liðið með Jerry West og Wilt Chamberlain í fararbroddi. Það var fyrsti titill félagsins síðan 1954.

Baylor var skorari af guðsnáð. Sem dæmi um það má nefna að á fyrsta árinu sem Lakers-liðið spilaði í Los Angeles (1960-61), bauð hann upp á 35 stig, 20 fráköst og fimm stoðsendingar að meðaltali í leik. Aðeins.

Eins og nærri má geta var Baylor í hópi 50 bestu leikmanna sögunnar þegar staðið var að því vali á sínum tíma.

Þeir sem yngri eru muna ef til vill eftir Baylor sem framkvæmdastjóra Los Angeles Clippers, þar sem hann var í yfir tvo áratugi til ársins 2008. Tveimur árum áður var hann kjörinn framkvæmdastjóri ársins eftir að Clippers-liðið tók smá kipp undir forystu Sam Cassell.

NBA Ísland sendir Baylor innilegar afmæliskveðjur í tilefni dagsins og vonar að hann eigi mörg góð ár eftir í þessu andskotans bulli sem við köllum lífið. Hann lengi lifi, húrra, húrra, húrra!

Heimsmeistararnir í myndum og tölum


Margir spáðu að Bandaríkin ættu eftir að fá harða samkeppni á heimsmeistaramótinu í körfubolta, en það reyndist algjör þvættingur. Kanarnir hafa ekki klárað stórmót með öðrum eins glans síðan 1994 og það þrátt fyrir að vantaði um það bil handfylli af bestu leikmönnum heims í hópinn.

Það var enginn LeBron, enginn Durant, enginn George, enginn Griffin, enginn Kobe og svo öndvegis og framvegis. Reyndar vantaði góða leikmenn í mörg af bestu liðunum á mótinu, en ekkert lið var eins "vængbrotið" og bandaríska liðið. Það verður því að gefa Ká þjálfara kúdós á að sauma þetta svona vel saman. Liðið hans kláraði mótið með stæl þrátt fyrir að vera dálítið götótt, sérstaklega hvað varðar stóru strákana.

Hérna fyrir neðan er tölfræði bandaríska liðsins á HM. Þar vekur athygli að aðeins Rudy Gay, Steph Curry og Derrick Rose skutu innan við 50% utan af velli hjá liðinu. Sérstaklega var skotnýtingin hans Rose hræðileg. Drengurinn skaut 25% á mótinu og hitti úr einu af nítján þriggja stiga skotum sínum.

Pau-wow-wow-yippie-yo-yippie-yay


HM-ævintýri Spánverja breyttist í martröð þegar þeir létu Frakka slá sig út úr keppninni á sínum eigin heimavelli. Enn ríkir körfuboltaleg þjóðarsorg á Spáni, því þennan titil ætluðu þeir sannarlega að vinna. Það hefur verið sannkölluð gullöld hjá spænskum síðastliðin ár, þar sem bæði fótbolta- og körfuboltalið þeirra hafa náð frábærum árangri á stórmótum. Ekki margar þjóðir sem leika það eftir.

Mitt í öllum vonbrigðunum er Pau Gasol, aðalmaður spænska liðsins sem hefur unnið til átta verðlauna á stórmótum á þeim rúma áratug sem hann hefur verið í landsliðinu. 

Við sáum reyndar ekki mikið af leikjum á HM að þessu sinni, en það sem við sáum til Gasol var í einu orði sagt frábært. Liðið hans drullaði kannski á sig, en Gasol þarf svo sem ekki að vera mjög ósáttur við sinn hlut í heildarmyndinni. Hann er nú kominn á alveg sérstakan stað í stórmótaannálum eins og þið sjáið í töflunni hérna fyrir neðan sem við fengum lánaða hjá hoopshype. 

Þar gefur að líta þá leikmenn sem oftast hafa verið kjörnir bestu menn mótsins á HM og EM (feitletruðu ártölin) og þá sem oftast hafa verið í úrvalsliðum mótanna.

Það setur reyndar strik í reikninginn að það er mjög misjafnt hvort bestu körfuboltamenn þjóðanna gefa kost á sér á þessi stórmót. Þannig tóku leikmenn eins og LeBron James, Kevin Durant, Tony Parker (besti maður EM í fyrra) og Manu Ginobili ekki þátt á HM að þessu sinni.


Monday, September 15, 2014

Slamm-skáldið Blake Griffin


Blake Griffin er áfram óumdeildur auglýsingakóngur NBA deildarinnar. Pilturinn er ljómandi leikari og annálaður húmoristi, eins og sjá má í nýjustu auglýsingaseríunni hans þar sem hann leikur slamm-skáld og hipsterar nokkurn veginn yfir sig í leiðinni. Hérna fyrir neðan eru tvö sýnishorn.



Wednesday, September 3, 2014

Hendurnar á Rudy Gobert koma við körfubolta


Rudy Gobert er að fá að spila nokkrar mínútur með franska landsliðinu. Hann er með eitt mesta vænghaf sem mælst hefur í NBA deildinni og forráðamenn Jazz eru bjartsýnir á að geta gert úr honum leikmann. Í versta falli þokkalegan varnarmann. Hann er jafnhár og Natvélin (218 sm)

Zach Lowe á Grantland skrifaði nokkur orð um Gobert og framtíðarhorfur hans sem leikmanns í dag. Það eru auðvitað allir að reyna að finna sér næsta Tyson Chandler - þennan mann sem er svo mikilvægur í NBA í dag - stóran mann sem er fljótur á fótunum, passar hringinn og klárar viðstöðulaust.

Þvílíkur lottóvinningur að vera sjö feta hár íþróttamaður með greindarvísitölu yfir 80. Þá þarftu ekki að hafa áhyggjur af fjármálunum í framtíðinni.

Sjáðu reglustikuna hérna fyrir neðan.







Þetta er það sem Gobert vantar upp á að geta snert körfuhringinn þegar hann stendur flötum fótum undir körfunni. Þarf sem sagt ekki að vippa sér hátt upp á tærnar til að snerta járnið.

Þvílíkur kolkrabbi.


Sheed