Tuesday, September 16, 2014

Heimsmeistararnir í myndum og tölum


Margir spáðu að Bandaríkin ættu eftir að fá harða samkeppni á heimsmeistaramótinu í körfubolta, en það reyndist algjör þvættingur. Kanarnir hafa ekki klárað stórmót með öðrum eins glans síðan 1994 og það þrátt fyrir að vantaði um það bil handfylli af bestu leikmönnum heims í hópinn.

Það var enginn LeBron, enginn Durant, enginn George, enginn Griffin, enginn Kobe og svo öndvegis og framvegis. Reyndar vantaði góða leikmenn í mörg af bestu liðunum á mótinu, en ekkert lið var eins "vængbrotið" og bandaríska liðið. Það verður því að gefa Ká þjálfara kúdós á að sauma þetta svona vel saman. Liðið hans kláraði mótið með stæl þrátt fyrir að vera dálítið götótt, sérstaklega hvað varðar stóru strákana.

Hérna fyrir neðan er tölfræði bandaríska liðsins á HM. Þar vekur athygli að aðeins Rudy Gay, Steph Curry og Derrick Rose skutu innan við 50% utan af velli hjá liðinu. Sérstaklega var skotnýtingin hans Rose hræðileg. Drengurinn skaut 25% á mótinu og hitti úr einu af nítján þriggja stiga skotum sínum.

Það hefði einhver mátt reyna að halda því fram fyrir mótið að Rose ætti eftir að skora tveimur stigum meira en Mason Plumlee að meðaltali í leik á HM. Það er enginn að rífast í Rose þó hann hafi ekki hitt neitt á HM, en það leynir sér ekkert að hann er ryðgaður eftir alla þessa mánuði á sjúkralistanum.

Við skulum vona hans vegna að hann hafi náð úr sér ryðinu á mótinu og verði líkari sjálfum sér með Bulls í vetur. Þegar allt kom til alls, var það líklega jákvætt að Rose færi á HM og fengi að spila svolítið til að hita upp fyrir NBA tímabilið. Sérstaklega var það jákvætt úr því að hann náði ekki að meiða sig almennilega.

Nóg um þetta. Hérna er (vélrituð) tölfræði Kananna og nokkrar myndir í bónus. Ef þú fattar ekki að smella á þetta til að stækka það, verður þú bara að fara eitthvað annað.