Ritstjórn NBA Ísland er búin að vera ansi dugleg að hrauna yfir Austurdeildina í allan vetur (og lengur) og því er eðlilegt að fólk sé hreinlega að spyrja sig:
Var eitthvað varið í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í austrinu sem var að ljúka?
Áður en lengra er haldið, skulum við hafa eitt alveg á hreinu: Austurdeildin veturinn 2016-17 er lélegasta deild sem við höfum séð í NBA deildinni á þeim aldarfjórðungi sem við höfum fylgst með bestu deild í heimi.
Hún var svo léleg - og við deilum þessu bara með ykkur í algjörum trúnaði, ágætu lesendur - að stundum langaði okkur helst að sparka í barn eða troða yfir nunnu í örvinglan okkar og eirðarleysi! Þið sjáið strax að þetta er ekkert gamanmál.
Það er eitt virkilega gott lið í Austurdeildinni (sem er búið að vera brothætt í allan vetur), þrjú þokkalega góð, fjögur eða fimm lið sem eru í besta falli skítsæmileg en versta falli... eiginlega bara drasl. Og restin... er svo algjörlega guðsvolað rusl.
Er þetta heit taka, hugarórar eða rauntal? Þið megið túlka það eins og þið viljið, en ef þið treystið okkur, getið þið lesið áfram. (Endilega lesið líka áfram ef þið treystið okkur ekki, það kemur bara eitthvað skemmtilegt út úr því, sannið til).
Og hvað gerist þegar deild með svona lið innanborðs gerir sér dagamun og fer í úrslitakeppni? Eitthvað svipað og við höfum fengið að sjá síðustu vikur og við skulum bara segja ykkur hvað gerðist í eins stuttu máli og okkur er unnt, og staldra þá helst ekki við nema þar sem eitthvað kom fyrir sem vakti áhuga okkar.
CLEVELAND 4 - INDIANA 0
Besta lið Austurdeildarinnar, sem er Cleveland, þó það hafi ekki séð sóma sinn í því að hirða efsta sætið þar í deildarkeppninni, gerði sitt besta til að leyfa Indiana að hanga með sér í seríu með því að spila varnarleik sem hefði ekki verið verri þó þeir hefðu verið með Claudio Bravo í miðherjanum í stað Tristan Thompson. Eins og flestir tippuðu á, kom það ekki að sök, því Cleveland nokkurn veginn skaut Indiana bara í sumarfrí.
Paul George spilaði nokkuð vel fyrir Indiana í einvíginu, en hélt áfram að vera fremur lítill inni í sér á ögurstundu og eyddi meiri tíma í að hrauna yfir slaka liðsfélaga sína en skora stórar körfur, svo gleðin varði stutt hjá Indiana þetta vorið.
Stuðningsmenn Pacers geta því eytt sumrinu í að spá í það hver kemur til með að fylla stöðu Larry Bird á skrifstofunni eftir að hann hætti nokkuð skyldilega á dögunum og hvort eftirmanni hans eða konu tekst að sannfæra Paul George um að það sé honum frekar í hag að gerast grilljarðamæringur með nýjan samning í Indiana en milljarðamæringur einhvers staðar annars staðar. Frábært sumar alveg.
Án þess að glossa alveg yfir þetta einvígi, verðum við að geta þess að þó mótstaðan hafi kannski ekki verið hin mesta fyrir LeBron James í þessu einvígi, spilaði drengurinn alveg eins og engill í seríunni og minnti okkur mannlega fólkið enn og aftur á það að hann sjálfur er það alveg örugglega ekki.
TORONTO 4 - MILWAUKEE 2
Toronto, með allan sinn liðsstyrk og (oft á tíðum) bitru reynslu síðustu ára í úrslitakeppninni, tókst enn og aftur að valda stuðningsmönnum sínum sárum vonbrigðum með frammistöðu sinni í fyrstu umferðinni. Einhver hefði haldið að þetta lið myndi nú á endanum kannski ná að vinna fyrsta leikinn sinn í úrslitakeppni - á heimavelli - en það er alveg sama hver mótherjinn er.
Mótherjar Kanadaliðsins að þessu sinni voru Milwaukee-menn, með Undrið frá Grikklandi í fararbroddi og þó leikaðferð liðsins væri hvorki flókin né leikmennirnir reyndir, náðu þeir nú samt að gera helminginn af andstæðingum sínum frá Toronto stingandi gráhærða áður en yfir lauk í seríunni.
Þið haldið kannski að við ætlum að hrósa Toronto fyrir að klára þetta einvígi
strax í sex leikjum, en það verða engar slíkar bollakökur í boði á þessu stigi málsins.
Toronto fær líka að máta sig við um það bil ellefu sinnum sterkara lið strax í næstu umferð, svo við þurfum ekki að hafa fleiri orð um það ágæta lið fyrr en við sjáum hvernig því vegnar á næsta stigi.
Við veittum því athygli að skrumið í kring um gríska undrið hjá Milwaukee, Giannis Antetokounmpo, náði alveg nýjum hæðum í úrslitakeppninni.
Þar sáum því m.a. fleygt fram af (allt að því) lærðu fólki að hinn útlimalangi framherji Bucks væri mögulega þegar orðinn næstbesti leikmaður Austurdeildarinnar á eftir LeBron James.
Við skiljum æsinginn í fólki þegar það er loksins búið að setjast niður og gefa sér raunverulega tíma til að horfa á 3-4 leiki með Antetokounmpo.
Við vorum líka hrifin þegar við sáum þessa að því er virðist ótakmörkuðu hæfileika piltsins fyrir tveimur árum síðan og ekki hafa þeir minnkað síðan. Við tökum því undir með fólki sem segir að ef drengurinn lærir nú einn daginn að skjóta körfubolta, munu framkvæmdastjórar liðanna í Austurdeildinni sækja um flutning yfir í Vesturdeildina næsta áratuginn - eða eitthvað sem líklegra yrði að teljast, snúa sér að kartöflurækt.
Við skulum bara orða þetta svona núna. Framtíðin er sannarlega hans ef hann heldur áfram að bæta sig í öðrum eins stökkum. Giannis er vafalaust einn mest spennandi körfuboltamaður heims í dag og topp tíu leikmaður deildarinnar í framtíðinni, eða eins eins og lappir hans lofa.
Framtíð Bucks er að sama skapi björt, en það er stutt á milli bjartrar framtíðar og einskærrar örvæntingar í NBA deildinni, svona ef við horfum bara kalt á það hvað er mikið úrval af skrifstofufólki í deildinni sem veit hvað það er að gera (ekki mjög mikið) og hvað það er erfitt að vinna eitthvað í þessari deild (mjög, mjög erfitt).
WASHINGTON 4 - ATLANTA 2
Einvígi Washington og Atlanta fór nokkurn veginn eftir bókinni, af því Washington er í dag betra lið en Atlanta. Það er aðallega vegna þess að Atlanta er búið að láta frá sér dálítið af mannskap af því það sá ekki hag sinn í því að tvöfalda launasamninga við menn sem gerðu lítið annað en að gera sig að fíflum í úrslitakeppninni á hverju vori.
Forráðamenn Hawks hafa verið gagnrýndir fyrir að fara ekki alla leið í enduruppbyggingu sinni og klára dæmið með því að leyfa mönnum eins og Paul Millsap að fara frá félaginu (líkt og Al Horford) og sleppa því þá jafnvel að leigja sér froðusnakka eins og Dwight Howard.
En fólk sem gagnrýnir þetta svona harðlega, tekur kannski ekki mið af því að það er óvíst að klúbbur eins og Atlanta myndi lifa það af að fara alla leið í uppbyggingunni og sprengja allt upp. Vitað er að þar á bæ eru menn logandi hræddir um að það arfaslaka aðdráttarafl sem liðið hefur í dag þrátt fyrir hlutfallslega velgengni, myndi hverfa með öllu ef forráðamenn félagsins tækju tappann alveg úr baðkarinu.
Atlanta er ekki eini klúbburinn sem hugsar svona (sjá: t.d. Memphis) og það á sér sínar eðlilegu skýringar, þó megi vel vera að forráðamenn félaganna í NBA deildinni séu ef til vill að vanmeta gáfnafar stuðningsmanna liðanna sinna og misskilja óskir þeirra, því ætla mætti að stuðningsmenn sem eru með eitthvað á milli eyrnanna á annað borð, myndu flestir gangast við því ef félagið þeirra lýsti því yfir að það ætlaði að strauja harða diskinn og byrja upp á nýtt ef það yrði gert af skynsemi.
Haukarnir náðu að gera seríuna áhugaverða og jafna hana eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum, það er ennþá til staðar einhver snefill af sterku leikskipulagi Mike Budenholzer þjálfara þó hann hafi ekki lengur mannskap til að framkvæma það (Schröderinn þýski kom sérstaklega á óvart og Millsap var hann sjálfur, sem er gott, en aðrir gerðu minna).
En nóg um Atlanta að svo stöddu. Washington-liðið var eitt fárra liða í austrinu sem gat sagt það án þess að fara að hlæja að það hefði gert sæmilega hluti í vetur.
Liðið var afspyrnu lengi í gang í haust af ýmsum ástæðum, en þegar menn voru að hugsa um að fara að copy-paste-a brandarana um fyrrum þjálfara liðsins yfir á Scott Brooks, tók liðið skyndilega kipp og var á góðri leið með að sanna sig sem ágætis lið í deildarkeppninni þegar henni lauk á dögunum.
Byrjunarlið Wizards með bakveðina John Wall (hér fyrir neðan, troðandi yfir Atlanta) og Bradley Beal (myndin fyrir ofan) í fararbroddi er alveg ljómandi gott. Þar fyrir utan, er Brooks þjálfari á góðri leið með að troða tusku upp í þá sem fóru með hann eins og
pínjötu á lokaárum hans í Oklahoma.
Við áttum okkur á því að við erum líklega ekki alveg saklaus þegar kemur að þessu tiltekna atriði, enda erum þegar farin að setja til hliðar tíma fyrir hinar ýmsu auðmýktaræfingar sem verður hægt að grípa til þegar Brooks og hans menn verða byrjaðir að velgja Cleveland hressilega undir uggum í úrslitaeinvígi Austurdeildarinnar eftir nokkrar vikur.
Eini gallinn við þetta þokkalega lið er að breiddin í því er eins nálægt því að vera engin og hægt er í NBA deildinni. Um leið og þetta lið þarf að hvíla lykilmenn svo einhverju nemi, kemur svona Westbrook-slagsíða á það og allt fer umsvifalaust í óefni.
Þetta mátti Washington reyna í einvíginu við Atlanta, en varamannabekkur höfuðborgarliðsins var ekki nógu lélegur til að eyðileggja fyrir því seríuna, þó líklega hafi það nú verið lykilmenn Washington sem áttu heiðurinn að því að Atlanta er komið í sumarfrí.
Svona ef við sleppum allri kaldhæðni einhver í tuttugu slög á lyklaborðið eða svo.
Ef Washington gat lifað með því að vera með máttlítinn bekk í einvígi sínu við Atlanta, er ekki víst að það sama verði uppi á teningnum þegar það sækir Boston heim í annari umferðinni.
Þegar þetta er ritað er það nú raunar svo að Boston er komið yfir 1-0 í því einvígi eftir að hafa skotið allt í kaf í fyrstu viðureign liðanna aðfararnótt 1. maí, en þetta eru áþekk lið sem reglulega hata hvort annað og því er engin ástæða til annars en að búast við ljómandi skemmtilegri og sjóðheitri rimmu milli þessara tveggja kandídata.
BOSTON 4 - CHICAGO 2
Og já, tölum aðeins um Boston hérna í lokin. Það er svo sem ekki aumingja Boston-liðinu að kenna þó það hafi hafnað í efsta sæti Austurdeildarinnar í deildarkeppninni með auma 53 sigra, en þannig var það nú samt af því Cleveland hafði hvorki heilsu né nennu til að hirða toppsætið.
Ekki misskilja okkur, 53 sigrar er ljómandi fínt, sérstaklega hjá liði sem vann 48 leiki árið áður, 40 árið þar áður og ekki nema 25 leiki árið þar á undan.
En að 53 sigrar séu nóg til að hirða toppsætið í deildinni sinni? Deild, sem ofan á það er líklega sú lélegasta sem við höfum nokkru sinni séð á bráðum þrjátíu ára sporbaug okkar um NBA?
Kommon, Boston-karlar og konur. Þið eruð ekki nógu vitlaus til að láta það fara í taugarnar á ykkur ef einhver bendir ykkur á þá augljósu staðreynd að deildin sem þið náðuð að toppa í vetur hafi verið drasl. Þið þekkið söguna of vel - og þau ykkar sem eruð of ung til að þekkja hana, hljótið fjandakornið að átta ykkur á því að það er ekki áratugur frá því að Boston var með reglulega gott körfuboltalið. Lið, sem meira að segja vann meistaratitilinn, fjandakornið.
Nei, Boston er ekkert rosalega sterkt körfuboltalið akkúrat núna, þó það sé fjarri því auðveldur andstæðingur. Boston 2017 er svona eins konar blanda af Everton, West Brom og Southampton, liðunum í sjöunda, áttunda og níunda sæti ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu þegar þetta er ritað (farðu ekki að henda grjóti, leyfðu okkur að útskýra þetta betur).
Ef þú tækir þessi þrjú ofangreindu ensku úrvalsdeildarlið og blandaðir þeim saman, fengir þú út einhverja (mögulega dálítið grugguga) blöndu af relatífum stöðugleika og fornri sigurhefð (Everton), í bland við ágætis uppbyggingar- og æskulýðsstarf (Everton og Southampton) til framtíðar og loks hrjóstrugan dass af Tony Pulis (West Brom) til að kýla þetta saman og gefa þessu þennan nauðsynlega Boston-íska/Pulis-íska/Keflavíkur/ Óld Skúl/Tommy Heinsohn/Ég lem þig á næsta balli-fídus sem er inngróinn í erfðaefni Boston-búa (þó Boston sé strangt til tekið varla sama borg og hún var fyrir 30 árum).
Ofangreint hljómar kannski ekki eins og fullkomin uppskrift að meistaraliði, enda er Boston-liðið í dag ekkert meistaralið.
Ef þú færð þér hinsvegar stöndugt prik og rótar aðeins í þessu, sérðu að þarna eru bæði bein og trefjar og seigustu sinar; það vantar bara smá vöðvamassa á þetta og þá er hægt að klessa skúlptúrnum saman.
Ef þessi Frankensteins-metafóra okkar hefur skilað sér alla leið inn í hug ykkar, kæru lesendur, áttið þið ykkur á því af hverju við erum ennþá dálítið skeptísk á möguleika Celtics í úrslitakeppninni þetta árið.
Það var einmitt þessi ófullkomni óskapnaður þeirra Celtics-manna sem hóf leik í úrslitakeppninni fyrir um tveimur vikum og byrjaði á því að tapa fyrstu tveimur leikjunum sínum á heimavelli fyrir öðrum og enn hræðilegri óskapnaði - glórulaust samsettri ófreskjunni Chicago Bulls.
Hérna þurfum við að staldra aðeins við og láta hugann að reika aðeins aftur:
Ef við sjáum Celtics-lið dagsins í dag fyrir okkur sem frumgerð hinnar sígildu ófreskju doktors Frankenstein úr gotnesku skáldverki Mary Shelley frá 1818, dytti okkur helst í hug að lýsa Chicago-liðinu 2017 eitthvað á þá leið að það líktist helst einhverju hefði orðið eftir á botninum ef Quasimodo úr Hringjaranum frá Notre Dame hefði eignast afkvæmi með Jason Voorhees úr Föstudeginum þrettánda og troðið því í gegn um trjákurlara.
Það sem við erum að reyna að segja hérna, er að á ýmsu var von þegar Boston og Chicago hófu leik á dögunum, en ef við eigum að vera samkvæm sjálfum okkur og halda áfram að greina enivígið, verðum við að tvíkúpla og skipta hér gróflega um gír.
Ekki er útilokað að einhver okkar verði búin að gleyma því þegar einvígi Boston og Chicago í 1. umferð úrslitakeppninnar 2017 verður gert upp í framtíðinni, hvað kaldlyndi örlaganna spilaði stóran þátt í umgjörð fyrstu leikjanna og eflaust einvígisins alls.
Látið ykkur ekki detta það í hug þó við sláum á létta og sumpart ógeðfellda strengi við þetta tilefni, að við ætlum með því að gera lítið úr raunum aðalstjörnu Boston-liðsins Isaiah Thomas og félaga hans allra daginn áður en rimman hófst. Thomas sýndi fádæma hugrekki og skapfestu þegar hann fór fyrir liði sínu í gegn um alla seríuna þrátt fyrir að vera nærri bugaður af sorg eftir að hafa misst yngri systur sína í umferðaróhappi.
Við vitum að landar okkar ranghvolfa stundum augunum yfir tilhneigingum Bandaríkjamanna til að blóðmjólka minnstu tilfinningaleg tilefni og matreiða úr þeim fréttir og tilkynningar, en þessi skelfilega uppákoma fellur ekki í þann flokk - ekki í okkar bókum í það minnsta.
Það er ótrúlega auðvelt að hrífast af baráttuanda og skapgerð Isaiah Thomas alla ósköp venjulega daga vikunnar og því gefur augaleið að þessi hræðilegi atburður hefur þjappað bæði leikmönnum, þjálfurum og öllum stuðningsmönnum Celtics enn betur að baki þeim stutta, sem þegar átti hug og hjörtu flestra sem að klúbbnum koma og auðvitað enn víðar.
Hafði harmleikur Isaiah Thomas áhrif á það að Boston varð fyrsta 1. sætis-liðið til að tapa fyrstu tveimur heimaleikjum sínum í sjö leikja seríu í fyrstu umferð?
Tvímælalaust einhver, en eins og til þess að leypa narratífinu öllu upp í loft (og ýta enn betur undir ófreskju- og óskapnaðarmyndlíkingu okkar að ofan), var það týndi Boston-sonurinn Rajon Rondo (nú hjá Chicago) sem setti hlutina formlega á haus hjá Celtics með því að taka skyndilega upp á því að byrja að spila eins og maður eftir að hafa hagað sér eins og spjátrungur og lydda síðan (áður) hann fór frá þeim grænu forðum.
Og eins og eftir bókinni, þegar Rondo var búinn að eyðileggja allar njósnaskýrslur Boston-liðsins og vera maðurinn á bak við sigur Chicago í tveimur fyrstu leikjunum, féll hann sjálfur úr leik vegna meiðsla og átti ekki afturkvæmt.
Eins og þið vitið, var eftirleikurinn tæknilega séð auðveldur fyrir Boston, sem tók á sig rögg, sópaði næstu fjórum leikjum og sendi Chicago-ófögnuðinn í sumarfrí.
Ekki halda að við höfum eitthvað á móti hinu ágæta körfuknattleiksfélagi Chicago Bulls þó við látum hafa það eftir okkur við þetta tilefni að það hefði orðið hið mesta hneyksli ef þessi tiltekna útgáfa af Chicago-liðinu hefði farið áfram í keppninni og sent þá grænu í snemmbúið sumarleyfi.
Við viðurkennum það, við fundum dálítið til með þessum örfáu stuðningsmönnum Bulls sem létu Rondo leiða sig inn í þennan sveitarómans sem enga hafði fæturna.
En þroskaðir stuðningsmenn líta ekki við glópagulli eins og því sem forráðamenn félagsins buðu þeim upp á í vetur.
Chicago verður að líta í eigin barm, svo ekki hljóti harm, eins og götuskáldið Mola-Ísar orti í brag sínum Gætt´að því hvað þú gerir, maður! fyrir réttum aldarfjórðungi.
Jafnvel hroðvirknisleg heilræði á borð við þetta eru þó líklega allt of seint á ferðinni eins og annað hjá Chicago þessa dagana og staða mála hjá Bulls í dag er ekki annað en lítið en sársaukafullt dæmi um það hvað gæfan er fallvölt í NBA deildinni okkar.
Eins og áður kom fram í þessari endalausu hugleiðingu, hefur Boston-liðið byrjað talsvert betur í einvígi sínu við Washington en það gerði þegar það tók á móti Chicago um daginn. Það er enda talið mun vænlegra til árangurs úrslitakeppni í körfubolta að hefja einvígi á því að vinna fyrsta leik en að tapa honum.
Þar eð við vorum ekki þeirrar gæfu aðnjótandi að sjá umræddan leik í beinni útsendingu (það var eitthvað verið að spila körfubolta á Íslandi á sama tíma - meira um það síðar), ætlum við að brjóta karakter að þessu sinni og sleppa því að fabúlera um eitthvað sem við vitum ekkert um (eiður sem ekki á eftir að endast að eilífu, við áttum okkur á því).
Við segjum því ekki annað um Boston-liðið að svo stöddu en að þeirra er framtíðin, að minnsta kosti á þessu stigi málsins - og sömu sögu er að segja af liði höfuðborgarbúa. Við skoðum það betur þegar fram líða stundir og kannski þegar við verðum búin að skrifa önnur áttahundruðogfjörutíuþúsund orð eða svo um fyrstu umferð Vesturdeildarinnar, sem eins og þið vitið er öllu merkilegri pappír en sá sem hér var rúllaður upp og reyktur.
Við biðjum ykkur engu að síður velvirðingar á því hvað er langt síðan þið heyrðuð frá okkur, kæru lesendur. Ykkur er óhætt að trúa því að þetta ótímabæra hlé okkar frá ritstörfum olli okkur hundrað sinnum meira hugarangri en ykkur nokkru sinni, en þið ráðið því hvort þið trúið því.
Við þökkum þeim sem voru að hugsa um að senda okkur línu og hvetja okkur til ritstarfa á ný fyrir hugulsemina. Hún nær auðvitað mjög langt.
Þangað til næst, elskurnar...
Ritjstórnin