Monday, September 30, 2013
Tvö skotkort frá síðustu leiktíð
Nú er aðeins mánuður í opnunarkvöldið í NBA deildinni. Þangað til, skulum við til gamans rifja upp skotkort þeirra Kobe Bryant og LeBron James á síðustu leiktíð. Hver hefur ekki gaman af að spá í svona? Rautt þýðir að hittnin er undir meðaltali í deildinni frá viðkomandi stað - grænt þýðir skotprósenta yfir meðaltalinu. Ljósi liturinn er c.a. á pari.
Efnisflokkar:
Excel
,
Kobe Bryant
,
LeBron James
,
Skotkort
,
Tölfræði
Forsíða vikunnar
Efnisflokkar:
Forsíður
,
Grannaslagir
,
Knattspyrna
,
Og nú að allt öðru
,
Sýndu mér peningana
Snareðlurnar eru tvítugar í dag
Í dag eru tuttugu ár síðan Toronto fékk grænt ljós á að stofna félag í NBA deildinni. Eins og flestir muna voru Kanadaliðin tvö á þessum tíma, Toronto Raptors og Vancouver Grizzlies.
Toronto spilaði sinn fyrsta leik í NBA deildinni haustið 1995. Isiah Thomas var fyrsti framkvæmdastjóri Raptors og Damon Stoudamire var fyrsti nýliðinn í sögu félagsins.
Það kæmi okkur ekki á óvart þó einhverjir dæsi yfir því að séu tveir áratugir síðan Toronto eignaðist aftur NBA-lið. Þetta virkar eitthvað svo stutt síðan, en þó ekki.
Hérna eru nokkrar skemmtilegar myndir frá sokkabandsárum Snareðlanna í NBA, þið þekkið eflaust flesta þessa kappa:
Thursday, September 26, 2013
Wednesday, September 25, 2013
Þegar Frédéric Weis tók slátur
Í dag munu vera þrettán ár síðan Vince Carter stökk yfir 218 cm háan franskan mann að nafni Frédéric Weis til að setja bolta ofan í körfu með bandaríska landsliðinu.
Segðu hvað sem þú vilt um Vince, þetta eru einhverjir mögnuðustu loftfimleikar sem náðst hafa á filmu - enginn leikmaður fyrr eða síðar hefur mátt taka annað eins slátur.
Frakkinn var bara ekki samur eftir þessa útreið. Við sjáum það alveg fyrir okkur að hann búi núna undir brú í miðborg Parísar þar sem hann talar samhengislaust við sjálfan sig og drekkur rakspíra.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Slátur
,
Tilþrif
,
Veðrið þarna uppi
,
Vince Carter
(Spoiler Alert) Íslensk áhrif í lokaþætti Dexter
Litla eyjan okkar kom mikið við sögu í lokakaflanum á sjónvarpsþáttaröðinni Dexter. Darri Ingólfsson stóð sig ágætlega í hlutverki skúrksins og í þokkabót keypti Dexter sér flösku af vatni frá Jóni Ólafssyni. Best að segja ekki meira um lokaþáttinn af virðingu við þá sem eiga eftir að sjá hann.
Efnisflokkar:
Bolurinn
,
Heimabrugg
,
Sjónvarp
Lengjutvíhöfði
Strangt til tekið fórum við á tvíhöfða í Lengjubikarnum í kvöld. Renndum í Ásgarðinn og sáum Snæfell leggja Stjörnuna 97-85 þrátt fyrir að vera án Nonna Mæju.
Það fellur tæplega undir Ewing-kenningu Bill Simmons, en Nonni sjálfur glotti þegar við spurðum hann hvort það væri galdurinn fyrir Snæfell að hafa hann bara í hversdagsfötunum.
Kúdós á sækadelíuna í bolnum annars, Nonni. Jim Morrison hefði samið 2-3 texta um hann ef hann hefði séð hann.
Stjarnan spilaði líka án Dags Kárs Jónssonar í kvöld. Ljóst að hann og Lil Marv fá miklu stærra hlutverk í liðinu í vetur en á síðustu leiktíð og það er bara jákvætt.
Stjarnan er búin að missa óhemju sterka menn og á vafalítið eftir að sakna Jovan mikið. Hann var ekki bara skorari og langskytta, heldur teygði hann varnir andstæðinganna út og suður með nærveru sinni einni saman.
Ekki auðfyllt skarð þetta.
Finnur Magnússon var búinn að lofa aksjóni í Ásgarðinum og stóð við það. Skoraði meira að segja körfuna sem segja má að hafi ísað leikinn - reyndar með full snyrtilegu sniðskoti sem þú sérð á mynd hérna fyrir neðan.
Eh, það er ekkert bannað að troða, Finnur...
Við hefðum helst kosið að sjá bæði leikinn í Ásgarði og KR-KFÍ, en við náðum megninu af síðari hálfleik af því síðari leikurinn hófst klukkan 20. Þar voru heimamenn undir lengst af í leiknum en náðu að snúa taflinu sér í hag í restina og loka þessu 84-80.
Einhverjir voru að spá því að Ísfirðingar ættu eftir að eiga erfitt uppdráttar í vetur og það er svo sem eðlilegt.
Við sáum þó ekki betur en að væri töggur í þessu liði í Vesturbænum í kvöld.
Dómarar leiksins flautuðu Pavel okkar í villuvandræði og fyrir vikið spilaði hann ekki nema 22 mínútur.
Þetta er bara dónaskapur hjá þeim. Dómararnir eiga að vita að fólk borgar sig inn á leikinn til að sjá Pavel hlaða í þrennur en ekki sitja á bekknum.
Við biðjum dómara vinsamlegast að hafa þetta hugfast næst.
Nú er bara að bíða eftir undanúrslitaleikjunum á föstudaginn og úrslitunum um helgina. Lengjubikarinn er kannski ekki stærsti titilinn í boði en bikar er bikar, fjandakornið.
Verst að við þurfum víst að fara til Njarðvíkur til að sjá úrslitaleikinn.
Við höfum ekkert á móti Njarðvík, en ætli við þvælumst ekki nógu mikið út á land í vetur svo við þurfum ekki að fara á bikarúrslitaleik alla leið í Njarðlem.
Hérna eru örfáar myndir af aksjóninu í kvöld:
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
KFÍ
,
KR
,
Lengjubikarinn
,
Njarðvík
,
Nonni Mæju
,
Snæfell
,
Stjarnan
Monday, September 23, 2013
Þetta er að byrja
Það er haust í lofti, nokkuð sem hefur ekki farið framhjá nokkrum Íslendingi. Nú fer í hönd þessi nöturlegi tími þegar frostlögur og rúðusköfur eru allsráðandi. Við værum löngu flutt af landinu ef kuldinn og rökkrið þýddi ekki að þá færi í hönd jólahátíðin okkar - körfuboltatímabilið.
Af sérstökum ástæðum vorum við að fara á okkar fyrsta haustleik í körfunni í vetur í kvöld. Leikur KR og Snæfells varð fyrir valinu, já viti menn! Það þarf svo sem aldrei að hvetja þessa ritstjórn sérstaklega til að fara á KR-Snæfell, en hjörð af óðum nautum hefði ekki getað dregið okkur í burtu frá þessum tiltekna leik.
Ástæðan var auðvitað endurkoma Pavel Ermolinski með KR.
Þeir sem fylgst hafa með á NBA Ísland undanfarin ár vita að ritstjórninni leiðist ekkert sérstaklega að fylgjast með honum Pavel spila körfubolta. Frábær tíðindi fyrir deildina hérna heima að fá þennan galdramann aftur heim. Hann stimplaði sig inn með 15/9/9/5 leik og á eftir að skemmta okkur öllum með KR í vetur.
Við ætlum ekki að detta í þá gryfju að ætla að lesa mikið út úr þessum leik, en það vakti athygli okkar á köflum hvað KR-strákarnir voru óeiginigjarnir í sóknarleiknum og uppskáru nokkrar fallegar körfur upp úr því. Martin Hermannsson hvíldi hjá KR í leiknum og erlendur leikmaður er enn ekki kominn til sögunnar. Vesturbæingar verða sterkir í vetur, það ætti engum að dyljast.
Lið Snæfells verður öflugt að vanda með sína hörkuframlínu. Fyrstu kynni okkar af erlendu vinnuafli vestanmanna voru ekkert sérstök, en það á margt eftir að gerast áður en þau mál liggja fyrir.
Gaman að sjá þá Magnússyni kljást eftir að Finnur skipti í Snæfell. Það á eftir að taka einhvern tíma að venjast honum í rauðu, en á hinn bóginn er eins og Darri hafi aldrei farið úr röndótta búningnum. Við þreytumst aldrei nokkru sinni á því að segja ykkur hvað Darri Hilmarsson er mikill fagmaður.
Eitthvað er verið að pískra um það að Gillette sé að hugsa um að taka upp auglýsingu á Íslandi og að leikmenn KR og Snæfells verði notaðir sem fyrir og eftir-menn í stykkinu. Það voru ekki undir þrír metrar af skeggi inni á vellinum í einu í þessum leik.
Það er hálfundarlegt að þetta sé bara byrjað allt í einu. Eins gott og það var nú að fá smá sól í sumar, jafnast ekkert á við að heyra ískrið í skónum á ný. Jólin eru að koma.
Hérna eru nokkrar myndir:
Efnisflokkar:
Darri Hilmarsson
,
Heimabrugg
,
Jólin
,
KR
,
Pavel Ermolinski
,
Skegg
,
Snæfell
Subscribe to:
Posts (Atom)