Wednesday, September 25, 2013

Lengjutvíhöfði


Strangt til tekið fórum við á tvíhöfða í Lengjubikarnum í kvöld. Renndum í Ásgarðinn og sáum Snæfell leggja Stjörnuna 97-85 þrátt fyrir að vera án Nonna Mæju.

Það fellur tæplega undir Ewing-kenningu Bill Simmons, en Nonni sjálfur glotti þegar við spurðum hann hvort það væri galdurinn fyrir Snæfell að hafa hann bara í hversdagsfötunum.

Kúdós á sækadelíuna í bolnum annars, Nonni. Jim Morrison hefði samið 2-3 texta um hann ef hann hefði séð hann.

Stjarnan spilaði líka án Dags Kárs Jónssonar í kvöld. Ljóst að hann og Lil Marv fá miklu stærra hlutverk í liðinu í vetur en á síðustu leiktíð og það er bara jákvætt.

Stjarnan er búin að missa óhemju sterka menn og á vafalítið eftir að sakna Jovan mikið. Hann var ekki bara skorari og langskytta, heldur teygði hann varnir andstæðinganna út og suður með nærveru sinni einni saman.

Ekki auðfyllt skarð þetta.

Finnur Magnússon var búinn að lofa aksjóni í Ásgarðinum og stóð við það. Skoraði meira að segja körfuna sem segja má að hafi ísað leikinn - reyndar með full snyrtilegu sniðskoti sem þú sérð á mynd hérna fyrir neðan.

Eh, það er ekkert bannað að troða, Finnur...

Við hefðum helst kosið að sjá bæði leikinn í Ásgarði og KR-KFÍ, en við náðum megninu af síðari hálfleik af því síðari leikurinn hófst klukkan 20. Þar voru heimamenn undir lengst af í leiknum en náðu að snúa taflinu sér í hag í restina og loka þessu 84-80.

Einhverjir voru að spá því að Ísfirðingar ættu eftir að eiga erfitt uppdráttar í vetur og það er svo sem eðlilegt.

Við sáum þó ekki betur en að væri töggur í þessu liði í Vesturbænum í kvöld.

Dómarar leiksins flautuðu Pavel okkar í villuvandræði og fyrir vikið spilaði hann ekki nema 22 mínútur.

Þetta er bara dónaskapur hjá þeim. Dómararnir eiga að vita að fólk borgar sig inn á leikinn til að sjá Pavel hlaða í þrennur en ekki sitja á bekknum.

Við biðjum dómara vinsamlegast að hafa þetta hugfast næst.

Nú er bara að bíða eftir undanúrslitaleikjunum á föstudaginn og úrslitunum um helgina. Lengjubikarinn er kannski ekki stærsti titilinn í boði en bikar er bikar, fjandakornið.

Verst að við þurfum víst að fara til Njarðvíkur til að sjá úrslitaleikinn.

Við höfum ekkert á móti Njarðvík, en ætli við þvælumst ekki nógu mikið út á land í vetur svo við þurfum ekki að fara á bikarúrslitaleik alla leið í Njarðlem.

Hérna eru örfáar myndir af aksjóninu í kvöld: