Wednesday, February 29, 2012
Chucky Brown er ellefu ára í dag
Málaliðinn Chucky Brown er strangt til tekið ellefu ára gamall í dag þó hann sé fæddur árið 1968. Það var Cleveland sem pikkaði hann upp í annari umferð nýliðavalsins árið 1989 eftir að hann kom úr North Carolina State háskólanum.
Hinn víðförli framherji spilaði ekki nema hjá tólf liðum á ferli sínum í NBA og er það met sem hann deilir með þeim Tony Massenburg og Jim Jackson.
Við vitum ekki betur en að hann sé þjálfari LA Defenders í D-deildinni í dag en það getur svo sem vel verið að hann hafi skipt um lið síðan í morgun.
Til lukku með daginn, Chucky.
Efnisflokkar:
Afmæli
Ósköp venjulegur fundur
Það gefur alveg augaleið að auðvitað sóttu nafnarnir, leikarinn Michael Clarke Duncan (Green Mile) og Arne Duncan (menntamálaráðherra Bandaríkjanna) einu sinni körfuboltanámskeið hjá Jerry Sloan. Þú hefðir nú getað sagt þér það sjálf(ur)!
Myndin hér fyrir neðan sýnir glöggt hvað þetta var hversdagslegur fundur milli þessara ólíku manna. Sloan er lengst til vinstri, menntamálaráðherrann fyrir framan hann í rauðu og Hollywood-leikarinn geðþekki er aftast til hægri. Þetta mun hafa verið áður en Clarke Duncan byrjaði að taka Lýsi, Sana Sol og vaxtarhormón ætluð nautgripum og veðhlaupahrossum.
Efnisflokkar:
Eðlilegt
,
Jerry Sloan
,
Ruglað saman reitum
,
Þjálfaramál
Úlfagleði
Þú tapar ekki mörgum leikjum þegar varaframherjarnir þínir spila eins og Derrick Williams og Michael Beasley gerðu í nótt. Úlfarnir þeirra gerðu sér þá lítið fyrir og völtuðu yfir Clippers á útivelli 109-97.
Ricky Rubio hefur sannarlega reynst liðinu happafengur og hefur pilturinn staðið undir öllu skruminu. Það má samt ekki gleyma þætti Rick Adelman þjálfara í velgengni liðsins. Hann setti sér að laga tvö stærstu vandamál liðsins þegar hann tók við taumunum - tapaða bolta og varnarleikinn.
Það hefur hann gert og Úlfarnir eru allt í einu komnir með fantalið og fullt af strákum sem eru ágætir í körfubolta. Sannarlega skemmtilegir hlutir að gerast í Minnesota.
Efnisflokkar:
Ævintýri
,
Netbrennur
,
Timberwolves
,
Úlfavaktin
Það var PAKKAÐ í Palace í kvöld
Efnisflokkar:
Aðsókn
,
Dánarfregnir og jarðarfarir
,
Leikur ársins
,
Pistons
,
Rækjusamlokur
,
Þunglyndi
Tuesday, February 28, 2012
You had me at barnastjörnusterar
Efnisflokkar:
All growed up
,
Davíðsstjarnan
,
Eðlilegt
,
Gyðingdómur
,
Ruglað saman reitum
,
Sýndu mér peningana
Eplið og eikin
Feðgarnir Stan og Kevin Love hafa báðir leikið í NBA deildinni. Aðeins meira kjöt á jr, en sá gamli var alveg með þetta líka eins og sjá má.
Efnisflokkar:
Kevin Love
Sunday, February 26, 2012
Stjörnustuð í kvöld
Stjörnuleikurinn árlegi í NBA deildinni er á dagskrá klukkan hálfeitt eftir miðnætti í nótt og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Leikurinn fer fram í Orlando að þessu sinni og búast má við tvöföldu fjöri á Twitter, því Óskarsverðlaunin standa yfir á svipuðum tíma.
Þetta verður rokk bæði og ról.
Efnisflokkar:
Stjörnuleikir
Blússandi alveg
Hefðbundinni dagskrá Stjörnuhelgarlaugardags er lokið. Spenna og eftirvænting var ekki það mikil að fólk væri almennt í lífshættu.
Ef þig langar að vita það, fór New York með sigur af hólmi í Þrjú á palli, Tony Parker vann í Brellubrautinni, Ástþór sigraði í Skotkeppninni og hinn leggjalangi Jeremy Evans var hlutskarpastur í Troðkeppninni (í boði Sbræt) sem reyndar var ansi slöpp þetta árið.
Það er löngu kominn tími á að hrista aðeins upp í þessu og breyta til. Við fórum að asnast til að gera okkur væntingar um að einhver af þessum strákum sem tóku þátt í Troðkepninni gætu í raun og veru troðið. Það var nú ekki mikið meira en svo þegar upp var staðið Jeremy Evans átti eina þokkalega troðslu þar sem hann tróð tveimur boltum í einur
Efnisflokkar:
Stjörnuleikir
Saturday, February 25, 2012
LeBron James og það sem við eigum til að gleyma
LeBron James er óhemju góður körfuboltamaður og nokkuð umdeildur einstaklingur.
Samkvæmt óvísindalegri könnun okkar hérna á ritstjórninn, er umfjöllun um James í fjölmiðlum aðeins í 27% tilvika beintengd spilamennsku hans í það og það skiptið.
Meira blek fer í að fjalla um drenginn persónulega, ákvarðanatöku hans, veikleika og gjarnan er dregin upp frekar dökk mynd af möguleikum hans á að ná árangri í atvinnu sinni í framtíðinni.
Við höfum komið inn á þennan punkt áður. Það er ekki víst að nokkur leikmaður hafi fengið jafn litla athygli fyrir jafn frábæra spilamennsku og LeBron James fær í dag. Tímabilið er reyndar aðeins hálfnað, en James er að skila tölfræði sem hefur ekki oft sést í annálum deildarinnar.
Eitt á það til að gleymast í öllu þessu fári. Það er að James er einhver stórkostlegasti íþróttamaður sem komið hefur fram á sjónarsviðið í heiminum. Þetta eru stór orð en pilturinn stendur undir þeim. Við verðum bara að vekja athygli á þessu aftur og trúlega ekki í síðasta skiptið.
Það er ekki með nokkru móti eðlilegt að maður vel yfir 200 sentimetra á hæð geti hreyft sig eins og James. Það var enginn mánudagur þegar genunum var raðað saman í þetta eintak sem hann er, jafnvel þó hún móðir hans hafi mögulega verið vel í glasi þegar hann var getinn.
James meiðist sjaldan og býr yfir blöndu af hraða snerpu, jafnvægi og styrk sem líklega hefði nægt til að gera hann að afreksmanni í flestum íþróttagreinum sem til eru.
Ímyndaðu þér bara LeBron James sem skyttu í handbolta, miðvörð í knattspyrnu, sem sundmann (án gríns) eða blakmann. Margir telja að hann hefði orðið frábær ruðningskappi og óhætt er að slá því föstu að hann hefði orðið rosalegur í tugþraut.
Okkur rak í rogastans þegar við sáum myndina sem við notuðum til að skreyta þessa færslu.
Horfðu á hana í smá stund og leiddu hugann að því hvað er í gangi þarna. Við gerum öll allt of lítið af því að staldra við og þefa af kaffinu á þessari öld hraða og snarminnkandi athygli.
Þetta, gott fólk, er rugl.
Efnisflokkar:
Furður veraldar
,
Fyrirbæri
,
LeBron James
,
Ógnarstyrkur
Skot úr fortíðinni
Miklar breytingar hafa átt sér stað á skrifstofu NBA Ísland að undanförnu.
Þú hefur eflaust velt fyrir þér hvernig væri að vera fluga á vegg á ritstjórninni.
Hér sérðu eitt hornið í aðstöðunni fyrir breytingar. Þarna er allt til alls eins og sjá má.
Efnisflokkar:
Aðstaða Blaðamanna
Friday, February 24, 2012
Wednesday, February 22, 2012
Moli um Marc og Malone
Stundum getur lífið verið afstætt og undarlegt. Nú eru flestir hættir að tala um Stóra Gasol-ránið forðum, mikið til af því hann Marc litli hjá Memphis er nú kominn í Stjörnuliðið meðan bróðir hans Pau situr heima og hvílir sig.
Hinn sigursæli Pau verður hvíldinni feginn, þó það þýði reyndar að hann hafi meiri tíma til að hugsa um allt slúðrið í kring um meint og möguleg félagaskipti hans frá Lakers.
Þegar við lögðum upp með þennan stutta pistil var ætlunin að hafa hann um Marc en ekki Pau, en við viljum að það komi skýrt fram að forráðamenn Lakers eru bilaðir ef þeir losa Pau. Líkurnar á því að liðið styrkist við það eru um það bil 0, 32%.
En aftur að efni pistilsins eða molanum, réttara sagt. Hinn 27 ára gamli Marc Gasol er Stjörnuleikmaður. Hann er á sínu fjórða ári í NBA deildinni og þegar hér er komið við sögu á ferli hans er hann búinn að hala inn 75 tvennur. Það er að segja 75 leiki þar sem hann er í tveggja stafa tölu í tveimur tölfræðiþáttum, oftast nær stigum og fráköstum.
Á síðustu þremur árum sínum með Utah Jazz skilaði Karl Malone 76 tvennum. Þegar hann var á 38., 39. og fertugasta aldursári sínu. Þetta var árin 2001-´03 ef einhver var að pæla í því.
Þeir spila ekki sömu leikstöðu en okkur finnst þetta dálítið fyndið. Gasol er almennt álitinn einn besti miðherji í heiminum. Og hann er það í raun og veru. Þetta eru skrítnir tímar.
Efnisflokkar:
Karl Malone
,
Marc Gasol
,
Tölfræði
Abbastu ekki upp á Texas
"Abbastu ekki upp á Texas!" og "Farðu í rass og rófu, við erum frá Texas!" eru dæmi um skemmtilegar bolaáletranir sem vísa í hugmyndir Texas-búa um eigið ágæti. Þeir sjá fylkið sitt sem land út af fyrir sig og auðvitað það besta í heimi.
Það er alveg rétt að margt gott kemur frá Texas, en margt hræðilegt líka. Rétt eins og með Bandaríkin öll. Bush-feðgar koma til að mynda frá Texas og það er lítill sómi af þeim, en á sama tíma komu þrír fjórðuhlutar hljómsveitarinnar Pantera frá fylkinu risavaxna (söngvarinn frá New Orleans).
Það eru líka þrjú körfuboltalið í Texas og þau hafa náð þeim einstaka árangri að verða öll NBA meistarar á síðustu sextán árum.
Houston vann tvöfalt árin 1994-95 með Hakeem Olajuwon í fararbroddi.
San Antonio hefur unnið alla fjóra titla sína síðan Tim Duncan kom inn í deildina árin 1999, 2003, 2005 og 2007.
Þríhyrningnum var svo lokað í fyrra þegar Dallas vann loks sinn fyrsta titil.
Ástæðan fyrir því að við fórum að skrifa um Texas var annars sú að að okkar mati eru tveir bestu þjálfarar NBA deildarinnar í Texas. Það eru Gregg Popovich hjá Spurs og Rick Carlisle hjá meisturum Dallas. Þér er velkomið að hafa aðrar skoðanir á þessu en þessi er okkar.
Gregg Popovich hefur náð lygilegum árangri með San Antonio síðan hann tók við þjálfun þess árið 1996 og hefur setið lengur í þjálfarastólnum en nokkur annar í NBA eftir að Jerry Sloan hætti.
Gengi Spurs þessi ár hefur verið með því besta sem sést hefur í sögunni. Hann hefur unnið 50 leiki eða meira á hverju einasta ári síðan árið 1997 ef verkbannsárið ´99 er undanskilið.
Það ár var reyndar eitt besta tímabil Spurs í sögunni (37 sigrar -13 töp = 74%) og endaði á titli eins og flestir muna.
Rick Carlisle hefur á sama hátt gert fátt annað en að vinna körfuboltaleiki síðan hann byrjaði að þjálfa í NBA.
Hann náði fínum árangri með Detroit Pistons og var valinn þjálfari ársins, átti svo erfitt uppdráttar hjá Indiana þar sem hann var með tóma vitleysinga í liðinu en hefur svo náð prýðilegum árangri síðan hann kom til Dallas.
Það var ekki síst fyrir tilstilli Carlisle sem Dallas náði að landa titlinum síðasta sumar og hann heldur bara áfram að klífa metorðastigann.
Eitthvað segir okkur að hann eigi eftir að ná sér í fleiri dollur áður en hann hættir að þjálfa.
Það skemmir svo ekki fyrir að hann er sómapiltur og heiðursmaður með gott orðspor. Ekki alveg jafn hrjúfur og kollegi hans Popovich, sem á það til að reyna að græta fjölmiðlamenn með eitraðir kaldhæðni sinni og stríðssvægi.
Þeir eru glæsileg eintök þessir tveir.
Efnisflokkar:
Gregg Popovich
,
Mavericks
,
Rick Carlisle
,
Spurs
,
Þjálfaramál
Aftur á forsíðu SI
Jeremy Lin prýðir forsíðu Sports Illustrated aðra vikuna í röð. Ekki oft sem menn afreka það. Talað um að Solla á Grænum Kosti verði á forsíðunni í næstu viku ef Lin gengur ekki á vatni um Stjörnuhelgina.
Síðasti NBA leikmaðurinn til að koma á tveimur forsíðum blaðsins í röð var Dirk Nowitzki í júní í fyrra, en þá leiddi hann Dallas til fyrsta meistaratitilsins í sögu félagsins og stimplaði sig inn sem einn besti körfuboltamaður sögunnar.
Til gamans má geta þess að Michael Jordan kom tvisvar sinnum á forsíðu þriggja Sports Illustrated blaða í röð. Það var árin 1991 og 1998. Jordan kom alls 57 sinnum fyrir á forsíðu blaðsins á sínum tíma.
Efnisflokkar:
Lin-vélin
Tuesday, February 21, 2012
Reggie Miller sagði eitthvað gáfulegt
Kobe Bryant slær hér á létta strengi við sjónvarpsmenn þegar hann prófar Dirk-hreyfinguna sína gegn Blazers. Héldum að við myndum aldrei segja þetta, en hlustið á það sem Reggie Miller segir í myndbrotinu.
Þetta var í annað sinn í leiknum sem Reggie kom inn á þetta. Nú er víst að mörg ykkar eru það sem við köllum haters og þolið ekki Kobe Bryant, en þetta er alveg rétt sem Reggie segir. Menn eins og Bryant koma ekki fram á sjónarsviðið á hverju ári og því ber okkur að njóta þess sem fyrir augu ber.
Bryant er langt frá því að vera fullkominn einstaklingur en hann er einn besti körfuboltamaður sem spilað hefur leikinn. Hæfileikar hans eru ótrúlegir, en það sem aðgreinir Bryant frá meðbræðrum hans er sigurviljinn og keppnisskapið. Það jaðrar við geðveilu, líkt og hjá manninum sem hann er oftast borinn saman við, Michael Jordan.
Ef þú hatar Kobe, þá þú um það, en enginn getur neitað því að það verður mikill sjónarsviptir af þessum einstaka leikmanni þegar hann hættir. Og það er ekkert rosalega langt þangað til. Að minnsta kosti á hann ekki mörg ár eftir á þessu kalíberi. Við sem umberum hann skulum því reyna að njóta þeirra í botn, þó stundum geti verið erfitt að elska hann, blessaðan.
Efnisflokkar:
Kobe Bryant
Miðvetrarblús: Smá tíst um stöðu mála
Það er til siðs hjá blaðamönnum að taka stöðuna þegar deildakeppnin er hálfnuð og "veita verðlaun" og þess háttar. Þetta er nú ekki flókið.
LeBron James er búinn að vera maður Austurdeildarinnar og Kevin Durant er aðalspaðinn í besta liðinu í Vesturdeildinni. Kyrie Irving er búinn að vera besti nýliðinn og Ómar Ragnarsson besti þjálfarinn. Philadelphia hefur komið mest á óvart og Jeremy Lin er... þú veist... allt hitt.
Okkur datt annars í hug að teikna upp smá rapport á öll liðin í NBA deildinni. Metnaðurinn er ekkert sérstaklega mikill en þarna má finna tíst um hvert lið sem ætti að henta fólki með nútímaathyglibrest. Ekki fara að gráta yfir neinu sem stendur þarna, þetta er bara til gamans.
Monday, February 20, 2012
Saturday, February 18, 2012
Hlaðvarpið komið af stað
Það er okkur sönn ánægja að kynna ykkur að NBA Ísland er farið af stað með hlaðvarp (podcast) á síðunni.
Þetta er tilraunastarfsemi. Okkur hafði lengi langað að prófa þennan skemmtilega miðil og nú er fyrsti þátturinn farinn í loftið.
Þar spjallaði Baldur Beck við vin sinn Gunnar Björn Helgason um veður og vinda í NBA deildinni það sem af er vetri
Við erum með slatta af viðmælendum og viðfangsefnum á listanum fyrir næstu þætti, enda er af nógu að taka.
Fyrsti þátturinn var að sjálfssögðu ekki gallalaus en í loftið fór hann með hjálp Finns Gunnarssonar, sérstaks velgjörðarmanns og tæknimeistara NBA Ísland. Kunnum við honum innilegar þakkir fyrir aðstoðina.
Sendu okkur endilega feedback á hlaðvarpið á nbaisland@gmail.com. Þið megið líka koma með hugmyndir að viðfangsefni og viðmælendum ef þið lumið á slíku - og ef til vill nafni á uppátækið. Þarf ekki podcast að heita eitthvað?
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
Seasons Lin The Abyss
Við gerum okkur alveg grein fyrir því að þetta Lin-dæmi fer að verða þreytt. Hér fyrir neðan fær það þó sérmeðferð að hætti NBA Ísland. Það var tónlistarmaðurinn og vinur okkar Smári Tarfur sem var kveikjan að þessari vitleysu. Þetta er gaman.
Efnisflokkar:
Lin-vélin
,
Sjoppan
,
Tónlistarhornið
Friday, February 17, 2012
Thursday, February 16, 2012
Baldvin Þór dæmir leiktöf
Þetta er líklega ein áhugaverðasta troðslan í NBA í vetur. Rudy Gay ákvað að bjóða upp á sniðskotstroðslu eftir körfu vinar síns Tony the Pony Allen. Dómarinn Baldvin Þór Bergsson var ekki á því að leyfa svona vitleysu og dæmdi leiktöf á atriðið. Voðaleg leiðindi þetta eru alltaf hreint.
Efnisflokkar:
Doppelgangers
,
Stöðumælasektir
,
Viðstöðulaust
Tuesday, February 14, 2012
Saturday, February 11, 2012
Friday, February 10, 2012
Subscribe to:
Posts (Atom)