Tuesday, February 21, 2012

Reggie Miller sagði eitthvað gáfulegt


Kobe Bryant slær hér á létta strengi við sjónvarpsmenn þegar hann prófar Dirk-hreyfinguna sína gegn Blazers. Héldum að við myndum aldrei segja þetta, en hlustið á það sem Reggie Miller segir í myndbrotinu.




Þetta var í annað sinn í leiknum sem Reggie kom inn á þetta. Nú er víst að mörg ykkar eru það sem við köllum haters og þolið ekki Kobe Bryant, en þetta er alveg rétt sem Reggie segir. Menn eins og Bryant koma ekki fram á sjónarsviðið á hverju ári og því ber okkur að njóta þess sem fyrir augu ber.

Bryant er langt frá því að vera fullkominn einstaklingur en hann er einn besti körfuboltamaður sem spilað hefur leikinn. Hæfileikar hans eru ótrúlegir, en það sem aðgreinir Bryant frá meðbræðrum hans er sigurviljinn og keppnisskapið. Það jaðrar við geðveilu, líkt og hjá manninum sem hann er oftast borinn saman við, Michael Jordan.

Ef þú hatar Kobe, þá þú um það, en enginn getur neitað því að það verður mikill sjónarsviptir af þessum einstaka leikmanni þegar hann hættir. Og það er ekkert rosalega langt þangað til. Að minnsta kosti á hann ekki mörg ár eftir á þessu kalíberi. Við sem umberum hann skulum því reyna að njóta þeirra í botn, þó stundum geti verið erfitt að elska hann, blessaðan.