Wednesday, February 22, 2012

Moli um Marc og Malone


Stundum getur lífið verið afstætt og undarlegt. Nú eru flestir hættir að tala um Stóra Gasol-ránið forðum, mikið til af því hann Marc litli hjá Memphis er nú kominn í Stjörnuliðið meðan bróðir hans Pau situr heima og hvílir sig.

Hinn sigursæli Pau verður hvíldinni feginn, þó það þýði reyndar að hann hafi meiri tíma til að hugsa um allt slúðrið í kring um meint og möguleg félagaskipti hans frá Lakers.

Þegar við lögðum upp með þennan stutta pistil var ætlunin að hafa hann um Marc en ekki Pau, en við viljum að það komi skýrt fram að forráðamenn Lakers eru bilaðir ef þeir losa Pau. Líkurnar á því að liðið styrkist við það eru um það bil 0, 32%.

En aftur að efni pistilsins eða molanum, réttara sagt. Hinn 27 ára gamli Marc Gasol er Stjörnuleikmaður. Hann er á sínu fjórða ári í NBA deildinni og þegar hér er komið við sögu á ferli hans er hann búinn að hala inn 75 tvennur. Það er að segja 75 leiki þar sem hann er í tveggja stafa tölu í tveimur tölfræðiþáttum, oftast nær stigum og fráköstum.

Á síðustu þremur árum sínum með Utah Jazz skilaði Karl Malone 76 tvennum. Þegar hann var á 38., 39. og fertugasta aldursári sínu. Þetta var árin 2001-´03 ef einhver var að pæla í því.

Þeir spila ekki sömu leikstöðu en okkur finnst þetta dálítið fyndið. Gasol er almennt álitinn einn besti miðherji í heiminum. Og hann er það í raun og veru. Þetta eru skrítnir tímar.