Thursday, October 31, 2013

Ray Allen nennir þessu ekki



Herra alheimur fær andlitsmeðferð


Það gerist ekki á hverjum degi að besti körfuboltamaður heims láti troða yfir sig. Það gerðist nú samt í nótt sem leið þegar lúnir meistararnir í Miami ákváðu að tapa fyrir Philadelphia 76ers.

Svar NBA deildarinnar við fyrrum bæjarstjóra Kópavogs, Evan Turner, tók sig til og sturtaði einni á LeBron James þegar leikurinn var nýhafinn. Jú, jú, menn hafa fengið verri andlitsmeðferðir en þetta, en það er ekki oft sem kóngurinn sjálfur lætur fara svona með sig.



Veðbankar í Bandaríkjunum tippuðu á að Philadelphia ætti eftir að vinna eitthvað í kring um 16 leiki í deildakeppninni í vetur og því vantar nú ekki nema 15 sigra í viðbót til að standast þau háleitu markmið. Þetta er vissulega bara einn leikur, en ljúfur var sigurinn fyrir guttana.

Það er ekkert leyndarmál að Sixers er ekki beint að stefna á meistaratitil í vor og satt best að segja er fátt um fína drætti í leikmannahóp liðsins. Eins og sýndi sig í gær virðist þó vera smá neisti í þessum strákum og hvað okkur varðar værum við alveg til í að borga okkur inn á leik til að horfa á Evan Turner og Michael Carter-Williams spila körfubolta.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum NBA áhugamanni hvað nýliðinn Carter-Williams var að bjóða upp á í frumraun sinni í gær. Söguleg sprenging hjá drengnum, sem var ekki langt frá því að hlaða í fernuna.



Hvað LeBron James varðar, virðist hann hafa náð að kvitta eitthvað aðeins fyrir andlitsmeðferðina ef marka má myndina hérna fyrir neðan.


Halló Hafnarfjörður*


Mikið fjandi er gaman að sjá þetta unga og skemmtilega lið Hauka í efstu deild á ný. Við skelltum okkur í Hafnarfjörðinn í gærkvöld og sáum Haukana skella Snæfelli 82-77 á Ásvöllum.

Ef marka má frétt karfan.is var þetta í fyrsta skipti síðan Stockton og Malone voru að spila sem Haukarnir ná að vinna Snæfell á heimavelli sínum. Sigur heimapilta var sanngjarn þó þeir hafi verið dálítið taugaóstyrkir í blálokin.

Nýliðar Hauka byrja leiktíðina því 3-1 og eru í rjúkandi fínum málum. Bandaríkjamaðurinn þeirra Terrence Watson var hrikalegur og skilaði 31/13 og Emil Barja hlóð í aðra þrennu vetrarins með dásamlegri 21/10/10 línu.

Emil er að bjóða upp á 10,3 stig, 9,8 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali það sem af er á leiktíðinni og engum blöðum um það að fletta að hann er hér opinberlega að skora á Pavel Ermolinski í þrennukeppni í vetur.

Þvílík forréttindi að fá að fylgjast með svona snillingum spila körfubolta. Ef þessi byrjun á deildinni er til marks um það sem koma skal er ljóst að það verða jól í allan vetur.

Ef marka má fyrstu leikina liggur okkur við að segja að nýju 4+1 reglurnar um erlenda leikmenn séu besta reglubreyting í sögu mannkynsins. Við kunnum ekki að koma því í orð hvað við erum hamingjusöm yfir því hvað ungu íslensku leikmennirnir eru að standa sig vel.

Við vorum á báðum áttum um þegar ákveðið var að breyta reglunum frá því sem var í fyrra og óttuðumst að gæðin ættu kannski eftir að minnka eitthvað, en annað hefur komið á daginn. Þetta er bara blússandi þjóðlegt og skemmtilegt. Ekkert annað.

Þó við séum gjörsamlega fallin fyrir Haukaliðinu höfum við á tilfinningunni að við verðum að spara lofið á liðið svona snemma leiktíðar, því ekki viljum við að þessir guttar fari að ofmetnast og brenna yfir.

Það er samt ekki hægt annað en að hrífast af þessu liði og eins og við sögðum ykkur í síðustu færslu var umgjörðin hjá Haukunum til allrar fyrirmyndar í gærkvöldi. Stórt prik í kladdann fyrir Hafnfirðingana.

Íþróttamiðlar landsins eru nokkurn veginn á einu máli um það að Snæfellsliðið hafi átt arfaslakan leik.

Ingi Þór þjálfari var reyndar alveg sammála því og var til að mynda ekki par hrifinn af frammistöðu leikstjórnandans síns Vance Cooksey, sem er að skjóta innan við 32% úr 2ja stiga skotum það sem af er í deildinni. Þetta er snaggaralegur spilari en hann hefur ekki náð sér á strik og virðist vera orðinn tæpur á því að halda vinnunni.

Við ætlum nú ekki að setja Hólmara undir fallöxina eftir fjóra leiki, en það verður að viðurkennast að þetta lið á að vera miklu betra en þessi 1-3 byrjun segir til um. Snæfellsliðið er að okkar mati ljómandi vel mannað - a.m.k. hvað varðar stóra stráka - og hefur ekkert með það að gera að vera með undir 50% vinningshlutfall.

Það er ljóst að við verðum að fylgjast náið með þessu Haukaliði í vetur og við hvetjum fólk sannarlega til að skella sér á völlinn og sjá það spila. Einhver gæti haldið að þeir væru bara "ungir og vitlausir" og vissu ekki betur, en sennilegra er að þetta sé bara fjandi gott lið.

Kíktu á nokkrar myndir ef þú vilt. Það er aldrei að vita nema þær stækki ef þú smellir á þær.

* - Já, við sögðum halló Hafnarfjörður í (yfir)fyrirsögn. Enginn er fullkominn.


























Wednesday, October 30, 2013

Lúxuskvöld í Hafnarfirði


Ungt lið Hauka er án nokkurs vafa eitt skemmtilegasta liðið í Dómínósdeild karla, en það er ekki bara liðið þeirra sem er í blússandi uppsveiflu. Haukarnir slógu nefnilega upp veislu í tilefni tvíhöfðans við Snæfell.

Við erum ekkert að deyja úr hrifningu yfir því að plögga eitthvað dæmi sem snertir okkur ekki beint, en það er ekkert nema sómi af því að Valitor hafi haldið upp á flutning sinn í Hafnarfjörðinn með því að bjóða áhorfendum frítt á tvíhöfðann.

Fyrir vikið var mætingin á leikina til mikils sóma. Við erum ekki með staðfestar tölur um mætinguna, enda skiptir það ekki höfuðmáli. Það sem skiptir máli er að fólk fjölmennti og hvatti bæði stráka og stelpur af miklum móð.

Þá veittum við því athygli að Haukarnir fíruðu líka upp í grillinu og smelltu í nokkra burgers. Vel má vera að þetta hafi oft verið gert á Ásvöllum, en við tókum sérstaklega eftir grillstemningunni í Hafnarfirðinum í kvöld. Þar mátti sjá höfðingja eins og Marel Guðlaugsson munda grilltöngina.

Það er bara eitthvað við andrúmsloftið sem skapast þegar kveikt er í grillinu fyrir leiki og mætingin er góð líkt og oftast er hjá t.d. KR-ingum og Stjörnumönnum, þó mætingin hjá síðarnefnda klúbbnum mætti vera miklu betri.

Við ætlum bara að nota þetta tækifæri og hrósa Haukunum fyrir flotta umgjörð í kvöld. Félagið er vissulega með frábær lið í karla og kvennaflokki, en svona flott umgjörð ber vott um klassa og metnað. Vel gert, Haukar.

TNT vill að þú horfir á körfubolta



Þetta er byrjað


 Deildakeppnin í NBA deildinnin hófst í nótt með þremur leikjum eins og þið hafið væntanlega tekið eftir.

Fulltrúi NBA Ísland, persónulegi trúbadorinn Björgvin Ingi, skellti sér á grannaslaginn í Los Angeles eins og þið sjáið á myndinni hér til hliðar.

Alltaf frábært að hafa fulltrúa á svæðinu.

Það er búið að vera snælduviltlaust að gera hjá ritstjórninni í hliðarverkefnum og því höfum við ekki hitað upp fyrir leiktíðina með hefðbundnum hætti, en þó er von á efni í þá áttina mjög fljótlega.

Gleðilega hátíð og góða skemmtun elskurnar.

Saturday, October 26, 2013

Héraðsbúar með dólg í Dalhúsum


Aldrei þessu vant nenntum ómögulega að keyra vestur á Ísafjörð í gærkvöldi, svo við ákváðum í staðinn að skella okkur í Grafarvoginn og sjá Fjölnismenn taka á móti Hetti frá Egilsstöðum. Fljótlega varð ljóst að Héraðsmennirnir voru ekki mættir í Dalhúsin til að lita og leira, heldur flugu þeir aftur austur með 83-90 sigur í farteskinu.

Ef þið staldrið aðeins við og hugsið um helstu kenningar sem settar hafa verið fram í skynheildarsálfræði og hugrænni bókmenntafræði frá árinu 1990, verður niðurstaðan mjög líklega eitthvað svipuð og þekking okkar á Hattarliðinu.

Sem sagt engin.

Aldrei hefði okkur grunað að Höttur ætti eftir að æða í Grafarvoginn og vera bara með læti og vinna, en það var kannski bara af því við höfðum hvorki hugmynd um styrk heimamanna né gestanna.

Breytingarnar á liði Fjölnis frá því á síðustu leiktíð eru svo rosalegar að í rauninni átti klúbburinn ekki annað eftir en að skipta um nafn og búning.

Það hljómar reyndar alls ekki illa að kalla körfuboltafélagið í Grafarvogi bara Huginn, Súluna eða Hrafnkel Freysgoða, en þeir hafa ákveðið að halda sig við Fjölnisnafnið og ætla sér væntanlega fljótt upp í efstu deild aftur..

Brottfallið á úrvalsleikmönnum Fjölnis hefur verið mikið á síðustu árum, en síðastliðið vor þegar liðið féll í 1. deildina, steyptust hrægammarnir á líkið og kroppuðu allt kjöt af beinunum. Þegar upp var staðið voru nær allir strákarnir sem kunnu körfubolta farnir úr Grafarvoginum. Það væri hægt að setja saman suddalegt körfuboltalið úr mannskapnum sem komið hefur upp hjá Fjölni síðustu 8-10 árin eða svo, en það þýðir ekkert að tala um það.

Sú samsuða leikmanna sem nú er í Grafarvoginum er reyndar drullu skemmtileg, við ljúgum engu til um það. Þar kennir ýmissa grasa og finna má leikmenn kenndir hafa verið við Keflavík, Grindavík, Snæfell og KR svo einhver séu nefnd.

Gengi Fjölnis hefur kannski ekki verið fullkomið í upphafi leiktíðar, en þetta lið er ljómandi skemmtilegt og óskandi væri að fleiri nenntu að mæta á völlinn og styðja þessa stráka. Stundum höfðum við á tilfinningunni að það væru fjórtán manns á leiknum.

Það verður ekki bara breyting á leikmannahópnum þegar lið fellur í 1. deildina. Áhorfendum fækkar umtalsvert, fjölmiðlamenn eru sjaldséðir, umgjörðin dettur aðeins niður og hvorki vott né þurrt í boði fyrir blaðamenn uppi á svölum.

Þetta er miður, en vafalítið algeng þróun hjá félögum við þessar aðstæður.

Þetta raus í okkur er auðvitað ekki hefðbundin umfjöllun um körfuboltaleikinn frekar en venjulega þegar við byrjum að rugla, en við getum að sjálfssögðu ekki sett lokapuntinn á þessa hugleiðingu án þess að minnast á hrikalegheitin sem Ólafur Torfason var að bjóða upp á hjá heimamönnum.

Það var eins og hann hefði móðgast þegar Pavel Ermolinski setti tröllaþrennuna í Stykkishólmi í gær og ákveðið að fara sjálfur á tölfræðitúr.

Uppskeran hjá miðherjanum kjötmikla var 25 stig (10-16 í skotum), 20 fráköst og  5 stoðsendingar. Þetta þýðir hvorki meira né minna en 43 stig í framlag frá pilti, sem er glæsilegur árangur. Ekkert að því að vera með 13/13 meðaltal í deildinni eins og Ólafur í byrjun leiktíðar.

Af öðrum snáðum í Fjölnisliðinu má nefna að Páll Fannar Helgason var flottur í leikstjórnandanum með 18/5/4 og fína hittni og þá var atmennið Davíð Ingi Bustion (10/9/4) sjálfum sér samkvæmur og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn.

Davíð, sem varð Íslandsmeistari með Grindavík á síðustu leiktíð, minnir okkur stundum á Denver-manninn Kenneth Faried í NBA deildinni. Helsti munurinn á þeim er þó sá að Davíð er miklu betri varnarmaður.

Emil Jóhannson hafði mjög hægt um sig í liði Fjölnis það litla sem hann spilaði. Við áttum okkur ekki á því hvort það var út af meiðslum eða hvort honum er bara ekki ætlað stærri rulla en þetta í liðinu. Furðulegt.

Erlenda vinnuaflið í liðunum var í besta falli bleh.

Hérna fyrir neðan getið þið kíkt á nokkrar myndir frá leiknum ef þið hafið áhuga.















Thursday, October 24, 2013