Saturday, October 26, 2013

Héraðsbúar með dólg í Dalhúsum


Aldrei þessu vant nenntum ómögulega að keyra vestur á Ísafjörð í gærkvöldi, svo við ákváðum í staðinn að skella okkur í Grafarvoginn og sjá Fjölnismenn taka á móti Hetti frá Egilsstöðum. Fljótlega varð ljóst að Héraðsmennirnir voru ekki mættir í Dalhúsin til að lita og leira, heldur flugu þeir aftur austur með 83-90 sigur í farteskinu.

Ef þið staldrið aðeins við og hugsið um helstu kenningar sem settar hafa verið fram í skynheildarsálfræði og hugrænni bókmenntafræði frá árinu 1990, verður niðurstaðan mjög líklega eitthvað svipuð og þekking okkar á Hattarliðinu.

Sem sagt engin.

Aldrei hefði okkur grunað að Höttur ætti eftir að æða í Grafarvoginn og vera bara með læti og vinna, en það var kannski bara af því við höfðum hvorki hugmynd um styrk heimamanna né gestanna.

Breytingarnar á liði Fjölnis frá því á síðustu leiktíð eru svo rosalegar að í rauninni átti klúbburinn ekki annað eftir en að skipta um nafn og búning.

Það hljómar reyndar alls ekki illa að kalla körfuboltafélagið í Grafarvogi bara Huginn, Súluna eða Hrafnkel Freysgoða, en þeir hafa ákveðið að halda sig við Fjölnisnafnið og ætla sér væntanlega fljótt upp í efstu deild aftur..

Brottfallið á úrvalsleikmönnum Fjölnis hefur verið mikið á síðustu árum, en síðastliðið vor þegar liðið féll í 1. deildina, steyptust hrægammarnir á líkið og kroppuðu allt kjöt af beinunum. Þegar upp var staðið voru nær allir strákarnir sem kunnu körfubolta farnir úr Grafarvoginum. Það væri hægt að setja saman suddalegt körfuboltalið úr mannskapnum sem komið hefur upp hjá Fjölni síðustu 8-10 árin eða svo, en það þýðir ekkert að tala um það.

Sú samsuða leikmanna sem nú er í Grafarvoginum er reyndar drullu skemmtileg, við ljúgum engu til um það. Þar kennir ýmissa grasa og finna má leikmenn kenndir hafa verið við Keflavík, Grindavík, Snæfell og KR svo einhver séu nefnd.

Gengi Fjölnis hefur kannski ekki verið fullkomið í upphafi leiktíðar, en þetta lið er ljómandi skemmtilegt og óskandi væri að fleiri nenntu að mæta á völlinn og styðja þessa stráka. Stundum höfðum við á tilfinningunni að það væru fjórtán manns á leiknum.

Það verður ekki bara breyting á leikmannahópnum þegar lið fellur í 1. deildina. Áhorfendum fækkar umtalsvert, fjölmiðlamenn eru sjaldséðir, umgjörðin dettur aðeins niður og hvorki vott né þurrt í boði fyrir blaðamenn uppi á svölum.

Þetta er miður, en vafalítið algeng þróun hjá félögum við þessar aðstæður.

Þetta raus í okkur er auðvitað ekki hefðbundin umfjöllun um körfuboltaleikinn frekar en venjulega þegar við byrjum að rugla, en við getum að sjálfssögðu ekki sett lokapuntinn á þessa hugleiðingu án þess að minnast á hrikalegheitin sem Ólafur Torfason var að bjóða upp á hjá heimamönnum.

Það var eins og hann hefði móðgast þegar Pavel Ermolinski setti tröllaþrennuna í Stykkishólmi í gær og ákveðið að fara sjálfur á tölfræðitúr.

Uppskeran hjá miðherjanum kjötmikla var 25 stig (10-16 í skotum), 20 fráköst og  5 stoðsendingar. Þetta þýðir hvorki meira né minna en 43 stig í framlag frá pilti, sem er glæsilegur árangur. Ekkert að því að vera með 13/13 meðaltal í deildinni eins og Ólafur í byrjun leiktíðar.

Af öðrum snáðum í Fjölnisliðinu má nefna að Páll Fannar Helgason var flottur í leikstjórnandanum með 18/5/4 og fína hittni og þá var atmennið Davíð Ingi Bustion (10/9/4) sjálfum sér samkvæmur og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn.

Davíð, sem varð Íslandsmeistari með Grindavík á síðustu leiktíð, minnir okkur stundum á Denver-manninn Kenneth Faried í NBA deildinni. Helsti munurinn á þeim er þó sá að Davíð er miklu betri varnarmaður.

Emil Jóhannson hafði mjög hægt um sig í liði Fjölnis það litla sem hann spilaði. Við áttum okkur ekki á því hvort það var út af meiðslum eða hvort honum er bara ekki ætlað stærri rulla en þetta í liðinu. Furðulegt.

Erlenda vinnuaflið í liðunum var í besta falli bleh.

Hérna fyrir neðan getið þið kíkt á nokkrar myndir frá leiknum ef þið hafið áhuga.