Í tilefni þess að dramadrottningin Dwight Howard virðist ætla að sjá til þess að við lesum ekkert nema fréttir um hann næstu mánuðina, datt okkur í hug að henda hérna inn nokkrum myndum af honum. Köllum það bara að senda honum póstkort.
Sunday, June 30, 2013
Póstkort til Dwight Howard
Í tilefni þess að dramadrottningin Dwight Howard virðist ætla að sjá til þess að við lesum ekkert nema fréttir um hann næstu mánuðina, datt okkur í hug að henda hérna inn nokkrum myndum af honum. Köllum það bara að senda honum póstkort.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Dauðinn á skriðbeltunum
,
Dreptu okkur ekki
,
Dwight Howard
,
Hamarinn
,
Svartmálmur
,
Veðrið þarna uppi
Afmælisbörn dagsins
Það eru engir meðalmenn sem fæðast þann 30. júní, það er bara þannig. Hér eru þrjú af afmælisbörnum dagsins, en þau eru reyndar ansi mörg. Þessir þrír standa upp úr, grjótharðir hver í sínu fagi. (Ath. - Mitch Richmond er fæddur 1965).
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Anselmo dagsins
,
Hrikalegheit
,
Metall
,
Mike Tyson
,
Mitch Richmond
,
Ruglað saman reitum
Saturday, June 29, 2013
Varstu búinn að gleyma Michael Finley?
Mikið höfðum við nú gaman af því að horfa á Michael Finley spila körfubolta. Skemmtilegast var að horfa á hann troða yfir fólk. Í myndbandinu hérna fyrir neðan fer hann í grillið á megninu af miðherjunum í deildinni. Algjör listamaður sem gleymist allt of oft þegar talað er um bestu troðarana (í leik). Finley spilaði megnið af ferlinum í Texas með Dallas og San Antonio.
Það fer lítið fyrir tilþrifum Finley þegar hann var hjá Phoenix í syrpunni hér að neðan, en við munum vel eftir því að það leið ekki einn þáttur af NBA Tilþrifum öðruvísi en að við fengjum að sjá einhver glæsitilþrif frá honum - oftast hamrandi yfir einhvern miðherjann.
Finley var samt miklu meira en bara troðari. Sjáðu bara tölurnar hans frá aldamótaárinu: 22,6 stig, 6,3 fráköst, 5,3 stoðsendingar, 1,3 stolnir boltar. Skotnýtingin var 46% - þar af 40% í þristum. Toppmaður.
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Michael Finley
,
Slátur
,
Veðrið þarna uppi
Prokhorov bruðlar í Brooklyn:
Þetta er ekki dónalegt byrjunarlið á pappírunum.
Rússinn Mikhail Prokhorov var ekkert að grínast þegar hann keypti Nets árið 2010. Margir hlógu þegar hann sagðist ætla að vinna titil innan fimm ára og það getur vel verið að þeir brosi enn, en þeir eru hættir að hlæja.
Prokhorov er bókstaflega að taka Manchester City-pakkann á þetta og er skítsama um þær óhugnalegu peningaupphæðir sem hann kemur til með að þurfa að greiða í lúxusskatt á næstu árum. Þið vitið að við erum reyndar ekkert rosalega mikið fyrir að velta okkur upp úr peningamálum leikmanna í NBA deildinni - nema þeir séu ekki að vinna fyrir þeim.
Nei, við erum meira fyrir að skoða hvað gerist inni á körfuboltavellinum sjálfum.
Fyrir Boston þýða þessi skipti einfaldlega að það á að fara að byggja allt upp á nýtt og nú er liðið með hvorki meira né minna en sex valrétti í fyrstu umferð nýliðavalsins næstu þrjú ár. Með smá klókindum ætti að fást eitthvað gott fyrir það.
Eina spurningin sem er ósvarað hjá Celtics er hvort Rajon Rondo verður látinn fara líka, en þó hann sé reyndar meiddur enn þá, er hann á fínum samningi og engin ástæða til að hræra í því.
Það er Brooklyn sem er í sviðsljósinu eftir þessi skipti og þó félagið hafi í rauninni haft afar lítið svigrúm til að stokka upp hjá sér, verðum við líklega að taka ofan fyrir forráðamönnum klúbbsins fyrir að prófa þetta djarfa útspil.
Margir vilja gera breytingar bara til að gera breytingar - og óþolinmóðir eigendur sem eru grilljarðamæringar eru sannarlega engin undantekning þar á.
Það er hinsvegar fullkomlega rökrétt að stokka aðeins upp í þessu hjá Nets að okkar mati, því þó liðið hafi bætt sig í deildakeppninni á milli ára, var frammistaða þess óásættanleg í úrslitakeppninni.
Nú er svo komið að Nets hefur losað sig við fáránlegan samninga þeirra Gerald Wallace og Kris Humphries og einnig losað sig við tvo leikmenn sem spiluðu undir væntingum á síðustu leiktíð. Það er í sjálfu sér mjög vel gert, en auðvitað koma himinháir samningar inn í staðinn.
Mestu munar þarna um Paul Pierce sem þénar 17 milljónir dollara næta vetur en þeir Kevin Garnett og Jason Terry eru svo sem ekkert að vinna kauplaust heldur.
En þá er bara stóra spurningin eftir: Verður Brooklyn-liðið betra eftir þessi skipti?
Stutta svarið er já, en hversu mikið betra eigum við alveg eftir að sjá.
Ef marka má úrslitakeppnina í vor, er ekkert rosalega mikið eftir á tanknum hjá þeim Garnett og Pierce og Jason Terry fékk hvað eftir annað að koma inn á hjá Boston þó hann væri látinn.
Þeir KG og Pierce verða 37 og 36 ára gamlir þegar leiktíðin hefst í haust og eru því augljóslega löngu komnir af léttasta skeiði. Spurningin er bara hversu vel þeir ná að mótívera sig í vetur.
Þeir hljóta að geta keyrt sig upp á því að Boston hafi dissað þá og ekki kært sig um starfskrafta þeirra. Það má vel vera að þeir félagar hafi verið sprækari, en þeir geta samt kennt sekkjunum hjá Nets eitt og annað .
Til dæmis koma þeir með leiðtogahæfileika, drápseðli og dugnað inn í dæmið - og ef allt gengur upp - kenna þeir þessum skussum kannski að vinna körfuboltaleiki.
Keppnin í Austurdeildinni verður væntanlega mun harðari næsta vetur en hún var í ár.
Miami-skrímslið verður á sínum stað, unglingarnir hjá Indiana verða bara betri og endurheimta Danny Granger (eða fá einhvern í hans stað) og endurkoma Derrick Rose lyftir Chicago úr meðalmennskunni í keppnina á toppnum.
Það er því ljóst að Brooklyn-liðið þarf að slípast vel saman og halda heilsu í vetur ef það á að ná sér í góða stöðu fyrir úrslitakeppnina. Svo má auðvitað ekki gleyma því að þjálfari liðsins hefur ekki hugmynd um hvað hann er að gera, af því hann hefur aldrei þjálfað áður.
Jason Kidd er klár strákur og er með góða aðstoðarmenn, en það verður sannarlega forvitnilegt að sjá hvernig honum tekst að ná sambandi við jafnaldra sína frá Boston. Ráðning Kidd var stórfurðuleg, en það getur vel verið að þessi áhætta borgi sig líkt og var með Mark Jackson hjá Warriors.
En svo er hinn möguleikinn. Að þetta springi allt í andlitið á þeim. Það þarf nú ekkert að pína Deron Williams í að láta reka þjálfarana sína eins og þið vitið - hann er þegar með þrjú nöfn á samviskunni þessi fitubolla.
Svo er það stór spurning í okkar huga hvernig kemistríið á eftir að verða í þessu liði. Þarna er hellingur af egói, reynslu og skoðunum - stýrt af manni sem hefur enga reynslu af þjálfun.
Hmmm.
Brooklyn er sem fyrr að reyna að hlaða í titil strax, verkefni sem er nær ómögulegt nema vera með hárréttan mannskap, þjálfara og fullt af heppni. Segðu hvað sem þú vilt um þessa kostnaðarsömu aðferðafræði Prokhorov, það verður ekki tekið af honum að hann hefur að minnsta kosti kjark til að reyna að gera eitthvað og setur um leið smá púður í þetta karlinn.
Efnisflokkar:
Celtics
,
Deron Williams
,
Félagaskiptaglugginn
,
Jason Kidd
,
Kevin Garnett
,
Leikmannamál
,
Mikhail Prokhorov
,
Nets
,
Paul Pierce
Nýliðavalið 2013: Annar hluti
Efnisflokkar:
Dauðinn á skriðbeltunum
,
David Stern
,
Hakeem Olajuwon
,
Nýliðavalið
,
Sjoppan
,
Skrítlur
Nýliðavalið 2013
Efnisflokkar:
Dauði miðherjans
,
Dauðinn á skriðbeltunum
,
David Stern
,
Hakeem Olajuwon
,
Nýliðavalið
,
Shane Battier
,
Sjoppan
Thursday, June 27, 2013
Stórskyttuafmæli
Báðir voru þeir í miklu uppáhaldi hjá okkur hér á árum áður enda rosalegir skotmenn. Það var skondið hvernig það rifjaðist upp fyrir okkur meðan við vorum að skrifa þetta að Larry Bird var á margan hátt erkióvinur þeirra beggja á vellinum.
Hodges spilaði lengst af ferlinum með Milwaukee Bucks og Chicago Bulls, þar sem hann var síðustu fjögur árin sín í deildinni.
Hodges varð meistari með Bulls síðustu tvö árin sín í atvinnumennsku (´91 og ´92) og er án nokkurs vafa ein besta langskytta í sögu NBA.
Hann var með 40% nýtingu í þristum yfir ferilinn þó hann hafi ekki byrjað að hitta eins og maður fyrr en á 4. árinu sínu í deildinni.
Tvisvar sinnum var Hodges með bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni (´86 og ´88) og hann og Larry Bird eru einu mennirnir sem unnið hafa þriggja stiga keppnina í Stjörnuleiknum þrjú ár í röð (´90, ´91, ´92).
Hodges afrekaði tvisvar sinnum að hitta nítján þristum í röð í keppninni og á metið yfir flest stig í umferð (25 af 30 mögulegum). Í myndskeiðinu hérna fyrir neðan sérðu Hodges hitta úr fyrstu nítján (aftur) skotum sínum þegar hann lokaði skotkeppninni annað árið í röð í Stjörnuleiknum í Charlotte árið 1991.
Það er með ólíkindum hvað gaurinn raðar þessu niður og gaman hefði verið að sjá hann á græna ljósinu í nútíma NBA þar sem menn taka fjórum eða fimm sinnum fleiri langskot en þeir gerðu þegar Hodges var að spila í deildinni.
Chuck Person var ekki með eins góða nýtingu og Hodges (36% á ferlinum) en hann var gjörsamlega samviskulaus skytta og var frægur fyrir að skjóta jafnvel 2-3 metra fyrir utan þriggja stiga línuna þegar hann var í stuði.
Person var skírður í höfuðið á vestrahetjunni og kúrekanum Chuck Connors sem var í miklu uppáhaldi hjá móður hans og þeir báru báðir gælunafnið Byssubrandur (The Rifleman)
Það gerist líklega ekki á hverjum degi að blökkumaður sé skírður í höfuðið á Winchester-skjótandi kúreka, en það verður ekki annað sagt en að Person hafi borið gælunafnið með stökum sóma.
Hann tekur sig vissulega vel út með riffilinn á myndinni hér til hliðar, en gætti þess að bomba frekar inni á vellinum en í frístundum sínum. Menn hafa enda farið flatt á því að dandalast með byssur í NBA deildinni.
Svo skemmtilega vildi til að Chuck Connors var líka fyrrum leikmaður í NBA deildinni með Boston Celtics og hann montaði sig alltaf á því að hafa verið fyrsti maðurinn til að brjóta körfu í NBA deildinni á sjötta áratugnum.
Það var reyndar ekki út af troðslu, heldur kastaði hann boltanum þvert yfir völlinn og framan á hringinn. Einhverra hluta vegna sprakk körfuspjaldið í þúsund mola við þetta og gera þurfti langt hlé á leiknum í kjölfarið.
Person var alla tíð mikill skorari og hann spilaði til að mynda með Charles Barkley í Auburn háskólanum. Hann var valinn númer fjögur í nýliðavalinu af Indiana Pacers og var kosinn í úrvalslið nýliða vorið eftir að hafa skilað 19 stigum, 8 fráköstum og 4 stoðsendingum á leiktíðinni.
Það sem stendur upp úr í minningu okkar af Chuck Person er einvígið sem hann háði við Larry Bird í úrslitakeppninni árið 1991. Þá skiptust þeir félagarnir bæði á langskotum og rusltali allan leikinn.
Það var alveg sérstakt að fylgjast með Person þegar hann hitnaði, því þá byrjaði hann að haga sér eins og geðsjúklingur. Hann barði sig og sló í höfuð og andlit, öskraði út í loftið og tók þriggja stiga skotin helst fyrir utan tíu metrana.
Person lék síðar með Minnesota Timberwolves og San Antonio og lauk ferlinum með sitt hvoru árinu hjá Seattle og Charlotte um aldamótin.
Hann hefur verið aðstoðarþjálfari í deildinni allar götur síðan en var reyndar látinn taka pokann sinn hjá Los Angeles Lakers í vor, þar sem hann var eini maðurinn sem eftir var úr starfsliði Phil Jackson.
Hérna fyrir neðan gefur að líta nokkur tilþrif með Chuck Person, meðal annars eitthvað af viðureign hans við Larry Bird forðum. Þær eru ekki af ódýrari gerðinni afmæliskveðjurnar sem þessir karlar eru að fá hérna. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Chuck Person
,
Craig Hodges
,
Dólgslæti
,
Larry Bird
,
Metabækurnar
,
Netbrennur
,
Skotkeppni
,
Verðlaun og viðurkenningar
,
Þristar
Wednesday, June 26, 2013
Doc Rivers er búinn að skrifa undir hjá Clippers
Efnisflokkar:
Celtics
,
Clippers
,
Digranes
,
Doc Rivers
,
Englaborg
,
Hólmurinn heillar
,
Rýtingur
,
Víða komið við
,
Þjálfaramál
Hvað varð um raunir hvíta mannsins?
Það voru vinir okkar á Fúsíjama TV sem vöktu athygli okkar á þessari fáránlegu troðslu í kvöld.
Þetta er bara algjört kjaftæði. Hvaðan er þessi drengur að koma? Hvað er að frétta?
Efnisflokkar:
Andlitsmeðferð
,
Hamarinn
,
Raunir hvíta mannsins
,
Tilþrif
,
Veðrið þarna uppi
Getraun dagsins
Þessir tveir menn starfa á gjörólíkum vettvangi, en eiga þó eitt sameiginlegt.
Hvað er það? Sendu svarið á nbaisland@gmail.com.
Efnisflokkar:
Getraunir
,
Og nú að allt öðru
LBJ píndi sig í eina SI-forsíðu
Efnisflokkar:
Forsíður
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Titlar
,
Úrslitakeppni 2013
Sælar stelpur, Marc og Pau hérna
Efnisflokkar:
Álag
,
Allir að halda sér
,
Holdafar
,
Líkamsþróttur er eftirsóttur
,
Marc Gasol
,
Pau Gasol
,
Sælar stelpur
NBA Ísland kafar ofan í nýliðavalið fyrr og nú
Eins og þið vitið höfum við stundum dálitlar áhyggjur af því hvað uppbyggingarstarfið í körfuboltanum í Bandaríkjunum virðist vera komið í tómt tjón.
Þjálfun yngri iðkenda virðist ábótavant og nú er svo komið að háskólaboltinn er orðinn hundleiðinlegt drasl sem aðeins þeir hörðustu nenna að horfa á. Þeir sem til þekkja fullyrða að gera þurfi einar 6-10 breytingar á reglunum í háskólaboltanum, því hann sé orðinn allt önnur íþrótt en stunduð er í NBA deildinni.
Nú erum við bara að hafa eftir það sem við höfum lesið og heyrt frá fólki sem fylgist með þessu, við viðurkennum fúslega að okkur þykir álíka gaman að horfa á háskólaboltann og að fara til tannlæknis.
Það var gaman að háskólaboltanum hérna einu sinni, en í dag er hann eins og blackmetaltónleikar í blómabúð - sem sagt ekki að gera sig.
Nú styttist í nýliðavalið árlega en fáir eru spenntir fyrir því. Eins og raunin hefur verið undanfarin ár, er lítið um almennilegan efnivið og margir tippa á að nýliðavalið í ár verði eitt það lélegasta í sögunni.
Til marks um þetta hafa menn ekki hugmynd um hvaða leikmaður verður valinn fyrstur og menn eru nánast alveg jafn líklegir að detta inn á góðan leikmann með vali númer tólf eins og númer eitt.
Þetta eru dálítið ógnvekjandi pælingar, þó við séum ef til vill að ýkja pínulítið, en athugið að við erum samt enn ekki farin að ræða stærsta vandamálið (pun intended) í dag - skortinn á alvöru miðherjum.
Við erum alltaf að pæla í þessu. Líklega er þetta ekki annað en dæmigerðir neikvæðnitendensar sem vakna hjá fólki þegar það er orðið gamalt eins og við.
En okkur langaði nú samt að prófa að spóla til baka og kanna það svart á hvítu hvort nýliðavalið nú á dögum væri drasl á miðað við nýliðavalið fyrir tíu og tuttugu árum.
Nú vitum við að það er kannski ósanngjarnt að bera venjulega nýliðaárganga saman við þann sem kom inn í deildina árið 1992, því þar var sannarlega að finna hörkuspilara.
Okkur langaði hinsvegar að bera þennan árgang saman við árganginn 2002 og svo piltana í 2012 árgangnum sem kláruðu sitt fyrsta ár nú í vor.
Nú eigum við auðvitað óralangt í land með að spá fyrir um það hvernig 2012 drengjunum á eftir að reiða af, en það er alveg hægt að bera saman nýliðaárin þeirra og sjá hvort þeir komu með hvelli inn í deildina eða ekki.
Það er nátturulega vita glórulaust að eyða tíma í svona kjaftæði, en við vonum að einhver ykkar hafi gaman af því að rifja þetta upp og skoða nánar.
Eins má vel vera að þið séuð ósammála mati okkar á leikmönnum, en þetta er fjandakornið ekki það langt frá lagi.
Við leyfum ykkur svo að rífast um það hvort framboð á góðum leikmönnum sé meira í nýliðavalinu nú á dögum eða fyrir tíu og tuttugu árum síðan. Við erum aðallega að teikna þetta upp til gamans - ekki vísindalega - og af því við erum búin að vera með þessa pælingu á heilanum í hálft ár eða meira.
Nýliðavalið 1992:
(Valinn númer, nafn, leikir/þar af í byrjunarliði - Stig/fráköst/stoðsendingar)
1. Shaquille O´Neal 81/81 - 23/14, 15x Stjörnuleikmaður, 4x NBA meistari, Heiðurshöllin
2. Alonzo Mourning 78/78 - 21/19, 3,5 blk - 7x Stjörnuleikmaður, NBA meistari ´06 (MIA)
3. Christian Laettner 81/81 - 18/9 47% fg Stjörnuleikmaður, Heiðurshöllin*
4 Jimmy Jackson 28/28 - 15/4/5 - 40% fg** Besta tímabil: 26/5/4 og 47% fg ´95 (DAL)
5. LaPhonso Ellis 82/82 - 15/9 50% fg. Besta tímabil: 22/7 ´97 (DEN)
6. Tom Gugliotta 81/81 - 15/10/4/2 43% fg - Stjörnuleikmaður - Besta tímabil 20/9 ´96-´98 (MIN)
7. Walt Williams 59/26 - 17/5/3 44% fg
8. Todd Day*** 71/37 - 14/4 43% fg
9. Clarence Weatherspoon 82/82 - 16/7 47% fg. Besta tímabil: 18/10 ´94 (PHI)
10. Adam Keefe 82/6 - 7/5 50% fg. Glórulaust, byrjunarliðsmaður í liði í lokaúrslitum (UTA)
11. Robert Horry 79/79 - 10/4/1st/1blk - Rulluspilari. Sjöfaldur NBA meistari
12. Harold Miner 73/0 - 10, 48% fg. Einmitt.
13. Bryant Stith 39/12 - 9/3, 45% fg. Besta tímabil: 15/4/3, 39% í þristum ´97 (DEN)
14. Malik Sealy 58/2 - 5, 43% fg
15. Anthony Peeler 77/11 - 10, 47% fg. Besta tímabil: 15 stig, 37% í þristum ´97 (VAN).
16. Randy Woods**** 41/1 - 2, 35% fg
17. Doug Christie 23/0 - 6, 43% fg. Besta tímabil: 17/5/4 (TOR)
18. Tracy Murray 48/14 - 6, 42% fg. Bombari. Besta tímabil: 16/4, 42% í þristum ´96 (TOR).
19. Don MacLean 62/4 - 7, 44% fg - Framfarakóngur ´94 þegar hann stökk upp í 18 stig í leik
20. Hubert Davis 50/2 - 5, 44% fg - 44% í þristum yfir ferilinn
21. Jon Barry - Rulluspilari. Pabbi hans var betri leikmaður en sonurinn þegar hann var fimmtugur
22. Oliver Miller - Rulluspilari í finals-liði Phoenix Suns 1993. Feitur.
23. Lee Mayberry - Rolluspilari, lol, bara að athuga hvort þú ert vakandi.
24. Latrell Sprewell - 4X Stjörnuleikir, var í 1. úrvalsliði NBA ´94. Geðsjúklingur en góður.
* - Er í Heiðurshöllinni af því hann var vatnsberi í Draumaliðinu. Átti frábæran háskólaferil.
** - Spilaði lítið á nýliðaárinu af því hann náði ekki samningum við Dallas
*** - Milwaukee átti 8. og 23. valrétt í þessu djúpa drafti, en skeit á sig og fékk lítið.
**** - Heldurðu að Clippers hafi náð að klúðra þessu drafti? Stutta svarið er: Já, eins og öðrum.
Nothæfir leikmenn sem teknir voru seinna í nýliðavalinu 1992:
P.J. Brown (29.), Brent Price (32.), Popeye Jones (41.), Matt Geiger (42.)
Nýliðavalið 2002:
(Valinn númer, nafn, leikir/þar af í byrjunarliði - Stig/fráköst/stoðsendingar)
1. Yao Ming 82/72 - 14/8/2blk - 50% fg - 19/9 á ferlinum
2. Jay Williams 75/54 - 10/5 40% fg - Spilaði aðeins eitt ár. Stútaði á sér löppunum í vélhjólaslysi.
3. Mike Dunleavy 82/3 - 6, 40% fg - Rulluspilari. Besta ár: 19/5/4 ´08 (IND)
4. Drew Gooden 70/47 - 12/7 46% fg - Fæddur rulluspilari og ferðalangur.
5. Nikoloz Tskitishvili 81/16 - 4/2 29% fg - Risavaxið klúður (á næstefstu myndinni í færslunni).
6. Dajuan Wagner 47/24 - 13/3 37% fg. Farinn úr deildinni eftir 4 ár
7. Nene 80/53 - 11/6 52% - Besta ár: 15/8 ´11 (DEN). Aldrei staðið undir væntingum/pótensjal.
8. Chris Wilcox 46/3 - 4, 52% - Rulluspilari. Besta ár: 14/8 ´07 (SEA).
9. Amare Stoudemire 81/71 - 14/9 47%. 6x í Stjörnuliði. Besta ár: 26/9, 56% fg 2005 (PHO).
10. Caron Butler 15/5 42% - 2x í Stjörnuliði. Besta ár: 20/7/5 árið 2008 (WAS)
Hræ eins og Melvin Ely, Marcus Haislip, Bostjan Nachbar, Curtis Borchardt, Ryan Humphrey og Steve Logan fylla út í fyrstu umferðina, sem lítur vægast sagt illa út eftir 10. valrétt.
Nothæfir leikmenn sem teknir voru seinna í nýliðavalinu 2002:
Tayshaun Prince (23.), John Salmons (26.), Carlos Boozer (34.), Matt Barnes (45.) og Luis Scola (55.). Ágætis leikmenn þar á ferðinni.
Nýliðavalið 2012:
Efnisflokkar:
All growed up
,
Dauði miðherjans
,
Drullan upp á herðar
,
Heimur versnandi fer
,
Nostalgía
,
Nýliðar
,
Nýliðavalið
,
Þetta er ungt og leikur sér
Tuesday, June 25, 2013
Svona var úrslitakeppnin 2013
Þegar stórviðburðir eins og úrslitakeppni NBA deildarinnar eru afstaðnir, er ekki úr vegi að staldra aðeins við og horfa um öxl - skoða hvað gerðist eiginlega á þessum mögnuðu vikum.
Það sem stóð upp úr hjá okkur í fyrstu umferðinni var (því miður) atvikið þegar Patrick Beverley hjá Houston kastaði sér á hnéð á Russell Westbrook hjá Oklahoma með þeim afleiðingum að Russ var úr leik í úrslitakeppninni.
Ef þið haldið að okkur sé runnin reiðin með þetta, þekkið þið okkur illa.
Beverley setti þarna úrslitakeppnina alla í annað samhengi, því flestir reiknuðu nú með því að Oklahoma færi alla leið í úrslitin líkt og árið áður.
Eins og átti eftir að koma í ljós, var Oklahoma-liðið ekki svipur hjá sjón án Westbrook og segja má að meiðsli leikstjórnandans hafi gjörsamlega slegið tennurnar úr liðinu. Þetta kom bersýnilega í ljós í varnarleiknum, sem var afleitur þó hann nægði til að slá Houston Rockets út í fyrstu umferðinni.
Kevin Durant gjörsamlega hélt Oklahoma á floti í úrslitakeppninni og þó margir hafi kannski haft gaman af því að sjá loksins hvað hann gæti þegar hann þyrfti að draga vagninn einn síns liðs, var ljóst að Oklahoma var bara ekki sama liðið án Westbrook.
Þeir sem hafa gert sem mest af því að drulla yfir Westbrook undanfarin ár hafa vonandi verið að fylgjast mjög vel með gengi Oklahoma í úrslitakeppninni í vor.
Annað árið í röð olli stjörnum prýtt Clippers-liðið vonbrigðum í úrslitakeppninni og þurfti að sætta sig við að falla úr í fyrstu umferð þetta árið eftir að hafa skemmt áhorfendum með frábærum tilþrifum allan veturinn.
Memphis reyndist of stór biti fyrir Clippers að þessu sinni og fyrir vikið þurfti Vinny Del Negro að taka pokann sinn, þó fyrr hefði verið kannski.
Nú er Doc Rivers kominn í þjálfarastólinn hjá Clippers og aldrei að vita hvað hann nær að galdra fram í LA en hann nær að gera örfáar breytingar á leikmannahópnum.
San Antonio átti náðugt einvígi gegn LA Lakers eins og flestir reiknuðu með og setti þar með punktinn yfir i-ið á ömurlegustu leiktíð Lakers í tuttugu ár. Við höfum þegar eytt allt of mikilu plássi í að ræða um þetta einvígi.
Rimma Denver og Golden State var hinsvegar algjör rjómi eins og reiknað var með. Mikið skorað og mikið drama.
Það var Andre Miller gamli sem kom Denver á bragðið með dramatískri sigurkörfu í fyrsta leik, en eftir það var serían eign Warriors. Lærisveinar Mark Jackson komu gríðarlega á óvart í úrslitakeppninni þegar þeir gengu frá Denver og veittu San Antonio mikla samkeppni í annari umferðinni.
Sérstaklega var þetta útgáfupartý fyrir Steph Curry, sem gaf þeim sem völdu hann ekki í Stjörnuleikinn langt nef.
Hann fór gjörsamlega á kostum í úrslitakeppninni þrátt fyrir að vera á felgunni vegna meiðsla eins og félagi hans Andrew Bogut.
Það verður sannarlega gaman að fylgjast með Curry á komandi árum ef hann nær að hrista af sér þrálát ökklameiðsli.
Það verður hinsvegar erfitt fyrir Golden State að byggja ofan á Öskubuskuævintýrið í vor, en það á svo sem við um öll lið í deildinni undir strangari reglum um launamál.
Ef við vindum okkur í Austurdeildina, var einvígi Miami og Milwaukee álíka spennandi og leðjuglíma 80 ára og eldri á Hrafnistu. Sömu sögu er að segja um rimmu Indiana og Atlanta.
Nokkur dramatík átti sér stað í einvígi New York og Boston eins og búast mátti við, en þar bar hæst hvað leikmenn New York voru óagaðir og óþroskaðir þegar leyfðu gömlu sekkjunum í Boston að komast inn í einvígi sem átti að vera búið með fíflaskap.
Boston hefði með smá heppni og aðeins minni meiðslum haft fulla burði til að klára þetta einvígi.
Væntingar fólks fyrir einvígi Brooklyn og Chicago voru ekki miklar en þetta átti eftir að verða áhugaverðasta rimman í fyrstu umferðinni í Austurdeildinni.
Hvern hefði órað fyrir því að stuðningsmenn Chicago ættu eftir að tala um eitthvað sem héti "Nate Robinson-leikinn" í annálum framtíðar? Ekki marga.
Chicago var með meira en vængbrotið lið í þessu einvígi, en karakterslaust lið Nets mátti að lokum sætta sig við að tapa fyrir strákunum hans Thibs, gifsuðum og geggjuðum.
Við erum ekki viss hvort þetta segir meira um karakterinn í liði Bulls eða aumingjaganginn í liði Nets, en þessi sería náði að verða sæmilegasta skemmtun þrátt fyrir allt.
Bæði þessi lið eiga erfið verkefni fyrir höndum til að komast á næsta stig, en Chicago á Derrick Rose enn inni svo eitthvað ætti hann að geta létt róðurinn þegar hann kemur loksins til baka.
Önnur umferðin í Vesturdeildinni var heilt yfir ekki mjög spennandi, þó gæði leikjanna milli Golden State og San Antonio væru mikil.
Lemstrað lið Golden State fór liklega eins langt og efni stóðu til, en við óttumst því miður að miðað við lykilmannskap Warriors, eigi það eftir að verða sama sagan í framtíðinni.
Menn eins og Stephen Curry og Andrew Bogut virðast einfaldlega alltaf vera lemstraðir.
Westbrook-laust Oklahoma náði að setja spennu í einvígi sitt við Memphis með því að sigra í fyrsta leik, en eftir það var allt á bandi Húnanna. Kjötaðir Memphis-menn fóru illa með Oklahoma og voru of rútíneraðir í varnarleiknum til að láta lið með einn sóknarmann slá sig út af laginu.
Chicago hélt áfram að koma á óvart með því að vinna fyrsta leikinn sinn gegn Miami, en það reyndist um leið síðasti sigur liðsins í úrslitakeppninni.
Miami vann næstu fjóra leiki, en Chicago náði að sýna fram á ákveðna veikleika í liði meistaranna - veikleika sem voru svo sem ekkert leyndarmál.
Fjölmiðlar í Bandaríkjunum reyndu hvað þeir gátu að gera úlfalda úr mýflugunni sem einvígi Indiana og New York var í annari umferðinni.
Tvennt stóð upp úr í þessari rimmu. Hæð og varnarleikur Indiana var of mikið fyrir Knicks sem þýddi að liðið náði aldrei að spila þann leik sem hafði virkað svo vel lengst af yfir veturinn.
Og byssur New York, þeir Carmelo Anthony og JR Smith, voru einfaldlega lélegar. New York á langt í land eftir sem áður.
Flestir hefðu reiknað með því að sería San Antonio og Memphis í úrslitum Vesturdeildarinnar yrði slöggfest hið mesta og æsispennandi.
Annað liðið mætti hinsvegar áberandi betur tilbúið í einvígið og San Antonio gerði sér lítið fyrir og sópaði útsendurum Elvis.
Þegar þarna var komið við sögu, var enginn leikmaður að spila betur í úrslitakeppninni en Tony Parker leikstjórnandi Spurs. Við þurfum ekki að taka það fram að öllum var nákvæmlega sama.
Einvígi Miami og Indiana í úrslitum Austurdeildar var nokkuð skemmtilegt. Þar fengu meistararnir loksins almennilega samkeppni og létu Indiana ýta sér alla leið í sjö leiki. Eins og fram hefur komið, er Indiana gjörsamlega frábært varnarlið og fór svona langt í úrslitakeppninni á því og sterku byrjunarliði sínu - engu öðru.
Það verður erfitt að eiga við Indiana ef þetta lið nær að búa sér til eitthvað sem heitir varamannabekkur í framtíðinni, en þangað til, fer liðið ekki lengra en í undanúrslit.
Sem í sjálfu sér er auðvitað frábær árangur hjá svona ungu liði með ENGA breidd.
Eins og verða vill í úrslitakeppninni verða til nokkrar hetjur og ein þeirra var án nokkurs vafa Paul George hjá Indiana.
Stóri strákurinn Roy Hibbert átti fína spretti, en George sýndi að hann hefur alla burði til að verða ein af stórstjörnum deildarinnar á næstu árum.
George er fjölhæfur og snjall leikmaður, sem spilaði sig sannarlega inn í hjörtu ritstjórnarinnar í rimmunum við Knicks og Heat.
Þá eigum við bara lokaúrslitin eftir en þau eru nú flestum í góðu minni enn sem komið er. Eftir á að hyggja er auðvitað stórfurðulegt að San Antonio hafi ekki verið nema fimm sekúndum frá því að tryggja sér meistaratitilinn.
Þá hefðum við ekki aðeins þurft að éta alla okkar hatta, heldur hefði Miami - með fullri virðingu fyrir Spurs - fengið yfir sig snjóflóð réttmætrar og óréttmætrar gagnrýni næstu óteljandi mánuði.
Öll lið þurfa að hafa heppnina með sér til að verða NBA meistarar og meistarar Miami 2013 eru sko engin undantekning á þeirri reglu.
Sjaldgæft sóknarfrákast frá engum öðrum en Chris Bosh og baneitruð þriggja stiga karfa frá Ray Allen - í bland við netta skitu og óheppni frá Spurs - varð til þess að við fengum
sjö leiki í skemmtilegasta lokaúrslitaeinvígi aldarinnar.
Það var hrikalega sárt að horfa upp á gömlu snillingana í San Antonio þurfa að tapa einvíginu með þessum hætti, en því miður varð bara einhver að tapa þessu einvígi. Okkur er alveg sama hvað hver segir, þetta var síðasti séns Spurs.
Tim Duncan nær ekki að keyra sig upp í annað eins tímabil og hann átti í vetur og Danny Green og Kawhi Leonard eiga ekki aðra eins leiki í úrslitakeppninni næsta vor.
San Antonio sleppur aldrei við meiðsli lykilmanna og því miður er ekki gott að sjá að svo verði næsta vetur.
Og ekki gleyma því að Manu Ginobili vinur okkar hefur víst lokið keppni á efsta stigi, þó hann hafi rekið það ofan í okkur með því að eiga einn stórán í viðbót eftir að við bak-jinxuðum hann í drasl fyrir leik fimm.
Eitt af því sem stendur upp úr við lokaúrslitaeinvígið er auðmýktin sem hrokagikkurinn Gregg Popovich sýndi þegar hann óskaði leikmönnum Miami til hamingju með titilinn. Eins er vert að geta þess að við höfum aldrei séð úrslitaeinvígi jafn prúðmannlega leikið og þetta. Dómarar dæmdu hvorki tæknivillu né óíþróttamannslega villu allt einvígið, sem þó fór alla leið.
Hann hafði sannarlega heppnina með sér í síðustu tveimur leikjunum og fékk góða hjálp, en besti körfuboltamaður heims notaði þá til að finna drullugustu og verst lyktandi tusku sem hann fann og troða henni upp í kjaftinn á hatursmönnum sínum. Hafi LeBron James ekki verið búinn að sýna hvers hann var megnugur nú þegar, er hann búinn að því núna.
Öll munum við eftir því hvernig hann reif sig lausan úr álögunum í fyrra með því að fara að pósta upp og keyra á körfuna. Eins og til að gefa þessu öllu langt nef - ákvað hann hinsvegar að tryggja Miami sigurinn í sjöunda leiknum með því að raða niður stökkskotum og þristum.
Já, já. Hann hafði heppnina með sér og San Antonio var fimm sekúndum frá því að láta þessa sögu hljóma allt öðruvísi, en í guðanna bænum hættið að reyna að troða kassalaga James ofan í hringlaga gat. Það gengur ekki.
James er búinn að vinna fjórar MVP styttur á fimm árum, vinna tvo meistaratitla, eitt Ólympíugull og fá tvær MVP styttur í lokaúrslitunum á tveimur árum. Þetta gera bara Heiðurshallarmeðlimir.
Hann LeBron okkar gerði þetta auðvitað ekki einn og Miami átti sínar ólíklegu hetjur alveg eins og San Antonio. Titillinn hefði sannarlega ekki hafnað í höndum Sólstrandargæjanna ef ekki hefði verið fyrir frammistöðu Ray Allen, Fuglamannsins, Shane Battier og Mike Miller. Meira að segja Chris Bosh átti sína spretti, þó við munum aldrei láta hann í friði.
Það fór samt svo að lokum að maðurinn sem við uppnefndum x-faktórinn fyrir Miami fyrir lokaúrslitaeinvígið - Dwyane Wade - reyndist svo sannarlega x-faktór liðsins og meira en það.
Þú vinnur ekkert Miami þegar LeBron James og Dwyane Wade spila vel og aukaleikararnir eiga sæmilegan dag. Það er bara þannig. Og Dwyane Wade- með öll sín draugameiðsli og dramatík - náði að gera nóg til að hjálpa LeBron James til að vinna meistaratitilinn annað árið í röð og sinn þriðja.
Framtíð Miami veltur algjörlega á því hvernig eigendum félagsins (eins og eigendum allra annara félaga í deildinni) tekst að halda í sem flesta leikmenn og galdra launatölur undir launaþakið.
Það er nær ómögulegt nú þegar reglur þess efnis eru alltaf að verða strangari. Nú fer að skipta máli hvort menn eru tilbúnir að borga geðbilaðan lúxusskattinn til að keppa um titla, eða hvort menn neyðast til að spara.
Hvað svo sem verður með það, er ljóst að framtíð Miami Heat og möguleikar félagsins á að vinna þriðja árið í röð, velta gjörsamlega á heilsu Dwyane Wade. Auðvitað verða allir leikmenn liðsins að vera heilir til að það vinni titilinn - það segir sig nokkurn veginn sjálft - en heilsa Wade er algjört lykilatriði. Ef Wade heldur áfram að standa í þessu endalausa hnjádrama sínu, á Miami ekki möguleika á að verja titilinn.
Menn eins og Steve Kerr hafa haldið því fram að það sé ekki séns að Miami fari í lokaúrslitin fjögur ár í röð, það taki einfaldlega allt of mikið frá mönnum að fara svona langt ár eftir ár.
Það er mikið til í þessu, en enn og aftur, ef lykilmenn Miami halda heilsu - er ekki svo gott að sjá hvaða lið eiga að velta þeim úr sessi.
Miami er nú þegar líklegast til að vinna meistaratitilinn á næstu leiktíð og við þurfum enga Vegas-veðbanka til að segja okkur það.
Eins og við höfum sagt 3000 sinnum, settu meiðsli leiðindasvip á úrslitakeppni NBA deildarinnar árið 2013. Lokaúrslitaeinvígið var hinsvegar algjör bomba og tvímælalaust það besta á öldinni. Við förum því öll í sæluvímu inn í sumarið og getum ekki beðið eftir næsta vetri, þar sem við fáum vonandi að sjá menn eins og Derrick Rose á fullu á ný.
Gleðilegt sumar elskurnar og takk fyrir veturinn.
Efnisflokkar:
Lokaúrslit
,
Úrslitakeppni 2013
Subscribe to:
Posts (Atom)