Thursday, June 27, 2013

Stórskyttuafmæli


Það vill svo skemmtilega til að tvær af mögnuðustu langskyttum í sögu NBA deildarinnar eiga afmæli í dag. Þetta eru þeir Craig Hodges (53) og Chuck Person (49).

Báðir voru þeir í miklu uppáhaldi hjá okkur hér á árum áður enda rosalegir skotmenn. Það var skondið hvernig það rifjaðist upp fyrir okkur meðan við vorum að skrifa þetta að Larry Bird var á margan hátt erkióvinur þeirra beggja á vellinum.

Hodges spilaði lengst af ferlinum með Milwaukee Bucks og Chicago Bulls, þar sem hann var síðustu fjögur árin sín í deildinni.

Hodges varð meistari  með Bulls síðustu tvö árin sín í atvinnumennsku (´91 og ´92) og er án nokkurs vafa ein besta langskytta í sögu NBA.

Hann var með 40% nýtingu í þristum yfir ferilinn þó hann hafi ekki byrjað að hitta eins og maður fyrr en á 4. árinu sínu í deildinni.

Tvisvar sinnum var Hodges með bestu þriggja stiga nýtinguna í deildinni (´86 og ´88) og hann og Larry Bird eru einu mennirnir sem unnið hafa þriggja stiga keppnina í Stjörnuleiknum þrjú ár í röð (´90, ´91, ´92).

Hodges afrekaði tvisvar sinnum að hitta nítján þristum í röð í keppninni og á metið yfir flest stig í umferð (25 af 30 mögulegum). Í myndskeiðinu hérna fyrir neðan sérðu Hodges hitta úr fyrstu nítján (aftur) skotum sínum þegar hann lokaði skotkeppninni annað árið í röð í Stjörnuleiknum í Charlotte árið 1991.

Það er með ólíkindum hvað gaurinn raðar þessu niður og gaman hefði verið að sjá hann á græna ljósinu í nútíma NBA þar sem menn taka fjórum eða fimm sinnum fleiri langskot en þeir gerðu þegar Hodges var að spila í deildinni.Chuck Person var ekki með eins góða nýtingu og Hodges (36% á ferlinum) en hann var gjörsamlega samviskulaus skytta og var frægur fyrir að skjóta jafnvel 2-3 metra fyrir utan þriggja stiga línuna þegar hann var í stuði.

Person var skírður í höfuðið á vestrahetjunni og kúrekanum Chuck Connors sem var í miklu uppáhaldi hjá móður hans og þeir báru báðir gælunafnið Byssubrandur (The Rifleman)

Það gerist líklega ekki á hverjum degi að blökkumaður sé skírður í höfuðið á Winchester-skjótandi kúreka, en það verður ekki annað sagt en að Person hafi borið gælunafnið með stökum sóma.

Hann tekur sig vissulega vel út með riffilinn á myndinni hér til hliðar, en gætti þess að bomba frekar inni á vellinum en í frístundum sínum. Menn hafa enda farið flatt á því að dandalast með byssur í NBA deildinni.

Svo skemmtilega vildi til að Chuck Connors var líka fyrrum leikmaður í NBA deildinni með Boston Celtics og hann montaði sig alltaf á því að hafa verið fyrsti maðurinn til að brjóta körfu í NBA deildinni á sjötta áratugnum.

Það var reyndar ekki út af troðslu, heldur kastaði hann boltanum þvert yfir völlinn og framan á hringinn. Einhverra hluta vegna sprakk körfuspjaldið í þúsund mola við þetta og gera þurfti langt hlé á leiknum í kjölfarið.

Person var alla tíð mikill skorari og hann spilaði til að mynda með Charles Barkley í Auburn háskólanum. Hann var valinn númer fjögur í nýliðavalinu af Indiana Pacers og var kosinn í úrvalslið nýliða vorið eftir að hafa skilað 19 stigum, 8 fráköstum og 4 stoðsendingum á leiktíðinni.

Það sem stendur upp úr í minningu okkar af Chuck Person er einvígið sem hann háði við Larry Bird í úrslitakeppninni árið 1991. Þá skiptust þeir félagarnir bæði á langskotum og rusltali allan leikinn.

Það var alveg sérstakt að fylgjast með Person þegar hann hitnaði, því þá byrjaði hann að haga sér eins og geðsjúklingur. Hann barði sig og sló í höfuð og andlit, öskraði út í loftið og tók þriggja stiga skotin helst fyrir utan tíu metrana.

Person lék síðar með Minnesota Timberwolves og San Antonio og lauk ferlinum með sitt hvoru árinu hjá Seattle og Charlotte um aldamótin.

Hann hefur verið aðstoðarþjálfari í deildinni allar götur síðan en var reyndar látinn taka pokann sinn hjá Los Angeles Lakers í vor, þar sem hann var eini maðurinn sem eftir var úr starfsliði Phil Jackson.

Hérna fyrir neðan gefur að líta nokkur tilþrif með Chuck Person, meðal annars eitthvað af viðureign hans við Larry Bird forðum. Þær eru ekki af ódýrari gerðinni afmæliskveðjurnar sem þessir karlar eru að fá hérna. Þetta er náttúrulega ekki í lagi.