Monday, March 6, 2017

Ölkær og 86

Þessi hressa heiðurskona var úthrópuð (shout-out) á leik Sacramento Kings og Utah Jazz í gærkvöldi. Við náðum ekki nafninu hennar eða af hverju hún kom í mynd í hálfleik nema þó kannski bara af því hún var að drekka Bud Light, en vallarþulurinn fór gjörsamlega á límingunum og öskraði það yfir allan salinn þegar hann sá hvað gjémlöh-gjémlöh var að drekka.

Nei, við náðum ekki nafninu, en daman ku vera 86 ára gömul og grjóthörð stuðningskona Kings. Ætli liggi þá ekki beinast við að spyrja hvort sú gamla var að skála af því hún er laus við Boogie.

Það var amk allt annað að sjá andann í Sacramento-liðinu í nótt en við höfum séð undanfarið. Þetta lið vinnur náttúrulega ekki fjandi marga leiki, enda eru mjög litlir hæfileikar í leikmannahópnum, sem samanstendur af sexhundruð senterum og skrilljón skotbakvörðum.

Sacramento og Leicester eru svo sem ekki einu liðin sem fundið hafa nýtt líf í vikunni. New York-liðið greip einhvern anda í leik sínum við Golden State í gærkvöldi og náði með honum að hanga inni í leiknum allt til loka. Það er svartmálmur að horfa á Knicks, en hæfileikar og pótensjallinn í Kristaps Porzingis tryggja það að öllum getur stokkið bros yfir tilþrifum hans annað slagið, ef þeir pína sig í gegn um leik með sorglegasta stórliði íþróttaheimsins.

Þeir sögðu að Knicks-leikurinn kæmi á hárréttum tíma fyrir Stephen Curry og Klay Thompson; að enginn væri svo kaldur að hann næði sér ekki á strik í leik á móti New York Knicks - hvað þá á fjölum Madison Square Garden.

Jæja, þeir Curry og Thompson hafa oft skotið betur, en þeir hafa líka báðir átt verri leiki og við skulum segja að gárungarnir hafi haft rétt fyrir sér enn eina ferðina. Það er alltaf gott að mæta New York - líka í þessi fáu skipti sem leikmenn Knicks nenna að leggja sig fram.

Leikur New York og Golden State í gærkvöldi var sýndur beint á Stöð 2 Sport 2 og það er gaman að geta þess að NBA-boltinn verður aftur á dagskrá strax á föstudaginn þegar Golden State-liðið verður aftur á ferðinni. Þá sækja Curry og félagar ungt og sprækt lið Minnesota Timberwolves heim, sem ætti að verða afar hressandi leikur. Þar gefst áhorfendum Sportsins tækifæri á að sjá ungstirnið Karl-Anthony Towns leika listir sínar, en þessi ungi miðherji Minnesota er gjörsamlega búinn að fara hamförum að undanförnu. Leikurinn á föstudagskvöldið hefst klukkan eitt eftir miðnætti.

Gute stunde.

Towns fleygar körfuna hjá Dílaskörfunum...