Thursday, March 16, 2017

Frá ritstjórn


Úrslitakeppnin hjá strákunum í körfuboltanum hér heima hófst í kvöld með sigri KR á Þór frá Akureyri. Við erum með talsvert samviskubit yfir því að hafa ekki boðið ykkur upp á smá upphitunarhlaðvarp áður en herlegheitin hófust, en þetta samviskubit er reyndar ekkert annað en meðvirkni og uppgerð, því það er fjandakornið ekkert okkur að kenna þó þið hafið ekki fengið hlaðvarpið ykkar.

Viðmælendur okkar og sérfræðingar sem gefið hafa tíma sinn til að hlaða með okkur vörp hafa bara ekki alltaf tíma - og við ekki heldur. Svona er þetta stundum í áhugamennskunni. Þetta er ekki alltaf þarna, en það er frítt, fjandakornið.

Fyrir þau ykkar sem enn þyrstir í upphitanir, bendum við á frábært spjall þeirra Teits Örlygssonar goðsagnar, Tómasar Þórs Þórðarsonar á Fréttablaðinu/Vísi og Ólafs Þórs Jónssonar frá karfan.is við hann Dodda á Sportrásinni í vikunni. Þar er á ferðinni tæpitungulaust og tæmandi uppgjör á vetrinum í karlaboltanum og spáð í spilin fyrir úrslitakeppnina. Gæðaefni það, eins og búast má við frá öðrum eins úrvalsmannskap.



Ef við vindum okkur aðeins vestur um haf, eru tvær tegundir af fréttum að ríða húsum í NBA heiminum. Annars vegar vandræðagangur á öllum mögulegum liðum, aðallega Warriors náttúrulega, og hinsvegar þetta ógurlega kapphlaup um nafnbótina Verðmætasti leikmaður deildarkeppninnar.

Við erum eitthvað búin að taka þátt í þessum MVP-umræðum sem eru í gangi núna og satt best að segja hefur okkur oftar en einu sinni langað að leggja okkar lóð fastar á þær vogarskálar, en sem betur fer létum við það eiga sig. Tvennt kemur þar til: Annars vegar er allt of stutt eftir af tímabilinu og hinsvegar eru sveiflurnar í kapphlaupinu svo miklar og svo margir kandídatar að það væri glapræði að skrifa sig út í horn með það á þessum tímapunkti.

Reyndar tókum við stóra ákvörðun í þessum efnum í dag. Ef ekkert breytist stórkostlega í deildinni á þessum örfáu vikum sem eftir eru af deildarkeppninni, stefnir allt í það að þið fáið tvo spikfeita pistla tengda MVP-titlinum áður en úrslitakeppnin hefst. Glöggir lesendur átta sig kannski á því hvert efni pistlanna verður, en hafið ekki áhyggjur, þið fáið öll að lesa þá. Báðir pistlarnir eru svo sem komnir langt með að skrifa sig sjálfir, ef svo má segja, en til öryggis er best að bíða þangað til boltarnir hætta að skoppa í deildarkeppninni þann 12. apríl (úrslitakeppnin hefst 15. apríl).



Án þess að fara mikið nánar út í þá sálma hér, er ljóst að þetta MVP-kapphlaup í NBA í ár er með þeim svakalegri sem sést hafa í sögu deildarinnar og það eru engar ýkjur. Þið þurfið ekki annað en að skoða útúr steraða tölfræðina sem nokkrir af kandídötunum í ár eru að bjóða upp á í vetur.

Þessar sveiflur eru afsprengi þessarar nýju NBA deildar sem við höfum verið að segja ykkur frá undanfarin misseri og jafnvel ár. Stökkbreytingarnar sem orðið hafa á spilamennsku í deildinni að undanförnu hafa verið gríðarlegar og eru raunar svo miklar að þær gera störf forráðamanna félaganna í NBA deildinni enn erfiðari en þau voru áður. Bætið svo við þetta nýjum (og frekar glórulausum) kjarasamningum leikmanna og starf framkvæmdastjórans í NBA deildinni er orðið álíka spennandi og knattspyrnudómarastarfið í Argentínu.

Kannski erum við orðin svona gömul, en allar þessar breytingar rugla okkur stundum í ríminu. Stundum finnst okkur hreinlega sem við þekkjum ekki deildina okkar lengur. NBA-deildin sem við ólumst upp við - þessi með Magic, Bird og Jordan - meikaði oftast sens. Bestu leikmennirnir voru í bestu liðunum, bestu leikmennirnir fengu MVP-styttur og unnu meistaratitla og bestu liðin unnu. Það var bara þannig. Og það var frábært.



Undanfarin tíu ár - og allra helst síðustu c.a. 3-4 ár - hefur þetta allt saman breyst. Mennirnir sem kjörnir eru leikmenn ársins í deildarkeppninni vinna alls ekki alltaf meistaratitla og bestu liðin vinna ekki endilega alltaf titlana.

Vængmenn sem áttu erfitt með að hanga í deildinni og eyddu fyrstu árum sínum í henni á 10 daga samningum, urðu skyndilega þyngdar sinnar virði í gulli, leikstjórnendur fóru að taka flest skot allra í liðum sínum, miðherjastaðan (stein) dó - en lifnaði svo aftur við með látum eftir að hafa drepið skotbakvarðarstöðuna og rænt úr henni hjartanu, allt byrjaði að ganga út á að teygja á vörnum andstæðinganna með því að láta skotglaðan leikstjórnanda spila vegg og veltu með stórum manni sem annað hvort var heimsklassa íþróttamaður og/eða skytta og umkringja þá með eintómum langskyttum, tölfræðinördar fengu hálaunastörf, fram komu einhyrningar og skyttur sem voru svo magnaðar að það gretti sig enginn þó þær tækju 3ja stiga skot nær miðju en þriggja stiga línu - og það helst í hraðaupphlaupum.



Já, það eru örar breytingar í deildinni okkar í dag, en að okkar mati eru þær enn sem komið er jákvæðar. Ef við eigum að vera hreinskilin, er ekkert rosalega langt þangað til að 3ja stiga skotgleðin síaukna í deildinni gæti endað í einhverri hringavitleysu, en við erum amk ekki komin þangað ennþá.

Það hafa oft verið fleiri betri lið í deildinni en nú er (og við höfum vælt yfir því hér), en við erum tilbúin að rökræða við hvern sem er, hvar sem er, að deildin hafi líklega aldrei átt eins ríkulegt magn af leikmönnum sem eiga enga sína líka í sögu deildarinnar og flestir þessir leikmenn eru einmitt einstakir af því þeir eru svo hrikalega góðir í körfubolta.

Við höfum ekki hugmynd um hvaða lið vinnur meistaratitilinn í NBA deildinni sumarið 2017 - hvort það verður besta liðið sem nær að landa þessu, eða næstbesta liðið, eða bara eitthvað... rugl. Það getur enginn spáð í það á vitrænan hátt á þessari stundu og ef það er ekki skemmtilegt, vitum við svo sannarlega ekki hvað er skemmtilegt.