Saturday, November 19, 2016

Russell Westbrook er þriggja treyju leikmaður




 Þú ert með boltann, þremur stigum yfir og sjö sekúndur eftir af leiknum. Hvað er best að gera? Á að koma boltanum á bestu vítaskyttuna eða fljótasta manninn? Á að reyna að tefja eða jafnvel teikna upp flott kerfi og reyna að skora strax? Hægt eða hratt? Lítill eða stór? Inn eða út?

Flest liðin í NBA eru svo heppin að vera með einn eða fleiri leikmenn, jafnvel stjörnuleikmenn, sem fá sérstaklega borgað fyrir að leysa svona þrautir. Russell Westbrook er einn þessara manna, en eins og þið vitið jafnvel og við, er hann ekki að flækja hlutina með endalausum spurningum og vangaveltum eins og við gerðum hér fyrir ofan.

Hjá Russ, er bara einn gír. Það er bara go!

Þannig að: Ef þú lendir í aðstæðunum sem við lýstum að ofan - og þú ert svo heppinn* að það er ekki nema einn svisslenskur miðherji upp á tvöhundruðogsjö sentimetra sem ver fleiri skot en allir nema fimm leikmenn í NBA deildinni - nú, þá náttúrulega keyrirðu bara á körfuna, hefur þig til flugs, og HAMRAR í grillið á áðurnefndum miðherja. Með VINSTRI hendi. Og klárar leikinn. Af hverju að vera að flækja það eitthvað?


Sumir leikmenn eru svo góðir að þeir selja þér treyjuna sína þó þú sért orðinn allt of feitur og eigir að vera löngu vaxinn upp úr því að klæðast NBA treyjum (samanber enska hugtakið dásamlega: full kit wanker).
Russ seldi okkur heimavallar- og  útivallartreyju Oklahoma númer núll - og er að spila svo yfirnáttúrulega vel núna að hann er við það að selja okkur þessa ógeðslegu óranslituðu líka! Þið vitið, þessa sem ekki einu sinni hann nær að gera töff. 

Sumir leikmenn eru bara svona svalir. Reyndar ekkert sumir. Þeir eru mjög fáir.

Russ er einn þeirra. Hann er með þrjátíu stig og þrennu í leik. Hann er þriggja treyju maður.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þú tekur eftir því að við ávörpum þig í karlkyni. Það er af því að í okkar huga ert þú lesandi. Og lesandi er karlkynsorð, rétt eins og lekandi, á meðan verðandi er nafnorð í karlkyni, kvenkyni og meira að segja lýsingarorð líka!

Við gerum okkur grein fyrir því að við erum ekki komin langt út úr torfkofunum t.d. í jafnréttismálum og að margt af því sem við skrifum má eflaust túlka sem glórulausan ras- og sexisma. En við erum að reyna að bæta okkur. Fylla upp í götin með vitneskju og lærdómi, umburðalyndi, ást og kærleika.

Kúkur.

Lol!