Monday, June 6, 2016

Warriors með algjöra yfirburði í úrslitaeinvíginu


Oftast höfum við alveg rosalega mikið að segja eftir stóra leiki í úrslitakeppninni og það kemur niður á ykkur í formi 3000 orða hlemma sem við skrifum hálf sofandi og birtum undir hádegið daginn eftir leik. Eftir fyrsta leik Golden State og Cleveland í síðustu viku, skrifuðum við aðeins nokkur orð, af því leikurinn einhvern veginn bauð ekki upp á meira.

Leikur tvö í nótt, veitti okkur enn minni innblástur. Í stað þess að byrja að skrifa um leikinn, fórum við bara að hlusta á Creedence Clearwater Revival og skoða myndir af þungarokkshljómsveitum á netinu. Þetta var einhvern veginn þannig leikur.

Ekki misskilja, við erum ekki að segja að hafi verið eitthvað að þessum leik, þó bæði lið hafi verið iðin við að missa boltann og barningurinn stundum komið niður á gæðunum hjá tveimur klúbbum sem bjóða oftar en ekki upp á líflegan sóknarbolta.


Það tók okkur 25 ár eða svo að komast að því að það getur verið varasamt að fara í dramaköst út af einum leik í úrslitakeppni. Ætli fyrsti leikur San Antonio og Oklahoma í undanúrslitum Vesturdeildarinnar hafi ekki verið leikurinn sem endanlega kenndi okkur þessa lexíu.

Fyrir vikið höfum við ákveðið að hoppa ekki upp til handa og fóta og öskra upphátt að "þeeetta sé búið," þó Cleveland hafi verið spilað gjörsamlega upp úr skónum í fyrstu tveimur leikjum sínum við Warriors í Oakland.

Það sér samt hvaða blindi maður sem er að Golden State er einfaldlega betra lið en Cleveland. Það að Warriors-liðið skuli vera búið að vinna sjö síðustu viðureignir liðanna gefur ákveðnar vísbendingar um þetta. Þú hlýtur að taka undir það.

Þýðir þetta að úrslitarimman sé búin og að meistararnir muni sópa þessu 4-0? Það gæti alveg komið fyrir, en okkur er til efs að Clevelendingar eigi eftir að verða svona blóðlitlir í heimaleikjunum sínum á miðvikudagskvöldið og föstudagskvöldið. Þeir hljóta bara að gera betur ef þeir hafa eitthvað stolt þessir menn.Það var dálítið leiðinlegt að sjá Kevin Love verða fyrir þessum höfuðmeiðslum, sem blindu mennirnir sem við minntumst á hérna rétt áðan, hefðu örugglega séð undir eins að væri eitthvað í ætt við heilahristing. Við ætlum samt að deila með ykkur leyndarmáli varðandi þetta: Það skiptir engu máli.

En svo við minnumst nú aðeins á leikinn í nótt, ber það auðvitað hæst að þeir Steph Curry og Klay Thompson voru enn að spila á krúskontról. Ætli varnarleikur Cleveland eigi ekki einhvern hlut þar að máli, við verðum að gefa þeim það, en okkur finnst þeir bara ekkert vera að leita grimmt að skotunum sínum.

Þeir eru bara sáttir við að deila auðnum með öllum liðsfélögum sínum, sem er ósköp rómantískt, en myndi aldrei ganga upp hjá einhverju öðru liði í deildinni. Stjörnur Golden State geta hinsvegar leyft sér svona kommúnisma af því að bekkurinn þeirra er ekki bara sterkur, heldur líka fullkomlega óhræddur við að láta til sín taka í þessu einvígi.

Þannig hefur Leandro Barbosa hitt úr nánast öllu sem hann hefur hent á körfuna á þessum örfáu mínútum sem hann hefur spilað, Shaun Livingston fór hamförum í fyrsta leiknum og var líka flottur í nótt og svo væri hægt að færa rök fyrir því að Andre Iguodala væri aftur að gera tilkall til þess að vera kjörinn leikmaður úrslitanna líkt og í fyrra, því gaurinn er búinn að vera stórkostlegur þó hann sé ekki að skora mikið af stigum.


Eins vel og Iguodala er búinn að spila, er hann ekki leikmaður seríunnar til þessa. Það er Draymond Green. Hann fór hamförum í nótt og við höfum það sterkt á tilfinningunni að hann ætli sér að verða Iguodala lokaúrslitanna að þessu sinni.

Cleveland er að mana Green til að skjóta og hann tók því feginshendi í nótt. Nú gæti einhverjum þótt einkennilegt að Cavs tæki þá ákvörðun að leyfa honum að taka þessi skot í ljósi þess að hann er búinn að bæta sig gríðarlega sem skotmaður á hverju ári (úr 21% í þristum, upp í 34% og nú síðast í vetur upp í 39%) , en Tyronne Lue og félagar sjá fyrir sér að það sé skárri kostur en að láta þá byssubræður Curry og Thompson gera það.

Og ekki þarf að pína Draymond Green til að taka af skarið. Hann er óeigingjarn leikmaður, en er meira en til í að gegna þessu nýja skorarahlutverki sínu. Þó það nú væri! Það gæti endað í einhverjum bullandi hetjuskap eins og hann sýndi í nótt.

Þessi drengur er svo góður í körfubolta að hann er að verða búinn að þvinga okkur öll til að kalla hann stórstjörnu, þó það sé líklega heppilegra að kalla hann bara besta rulluspilara í heimi eða eitthvað þannig. Það breytir náttúrulega engu. Málið er bara að hann er ógeðslega góður og ætlar að taka þessa seríu og troða henni ofan í kokið á Cleveland.Þegar lið byrjar úrslitaeinvígi 2-0 og vinnur svona stórsigra í báðum leikjunum, er freistandi að byrja strax að skrifa um hvaða þýðingu það hefði í stóra samhenginu ef Warriors hefði sigur (besta tímabil sögunnar?) og Cleveland tapaði (LeBron-drullið og það allt saman), en við skulum ekki byrja að velta okkur upp úr því alveg strax. Leyfum þeim nú að spila 3-4 leiki áður en við æðum út í þær pælingar. Það verður nægur tími til að hugsa um það í sumar og næstu árin ef því er að skipta.

Nei, það sem við viljum fyrst og fremst núna er að Cleveland rífi upp um sig buxurnar og fari að spila almennilega svo við fáum seríu úr þessu en ekki einhvern helvítis blástur! Það yrði svo mikið antíklæmax að fá blástur í lokaúrslitunum eftir epíska seríu Golden State og Oklahoma um daginn og þetta Cleveland lið á að geta miklu betur. Nægir að vísa þar í hvernig því tókst að komast yfir 2-1 á móti Warriors í fyrra þrátt fyrir öll meiðslin.Cleveland á eftir að spila betur heima, það er óhjákvæmilegt og þar gæti það meira að segja fengið nokkur stig í púkkið frá mönnum eins og JR Smith. Spurningin er bara hvort það verður nóg ef Warriors-menn halda áfram að spila svona góða vörn og fengju jafnvel svo sem eins og einn leik frá Curry eða Thompson sem er eitthvað meira en bleh.

Það segir nefnilega allt sem segja þarf um þessa seríu. Það eru búnir tveir leikir í henni, Curry og Thompson eru búnir að vera bleh í þeim báðum, en samt hefur Cleveland ekki átt séns í helvíti í hvorugum þeirra.

Hvað segir það okkur um Cleveland og möguleika þess í framhaldinu?

Einmitt.Hentum skotkortum beggja liða inn hérna fyrir neðan ef þið hafið áhuga á að skoða þau. Þau segja ákveðna sögu. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvort er hvað. Ókei, þetta efra er kort Cleveland, neðra er frá Warriors, ef við þurfum að segja ykkur alla skapaða hluti.

Takið sérstaklega eftir nýtingunni undir körfunni hjá Cavs, þar sem LeBron James er til dæmis ekki að skjóta nema rétt um 50%, sem er mjög óvenjulegt fyrir þann mikla kappa (við settum skotkortið hans inn á Twitter í nótt). Hann er vanur að vera eiturgrænn undir körfunni, en er nú undir meðaltali þar, sem er harla óvenjulegt og skrifast einna helst á menn eins og Draymond Green og Andrew Bogut. Þeir hafa verið duglegir að passa dolluna, eins og þið sáuð til dæmis í nótt þegar Bogut varði fjögur skot í fyrsta leikhlutanum.
Svo er Golden State náttúrulega gjörsamlega að eiga þetta allt saman fyrir utan 3ja stiga línuna eins og þið sjáið. Það var svo sem eitthvað sem mátti alveg búast við. Við vitum alveg að Cleveland var að skjóta rosalega vel í Evrópudeildinni í fyrstu þremur umferðunum, en núna er það komið í Meistaradeildina og farið að spila við alvöru körfuboltalið. Töff sjitt, eh?