Afsakið orðbragðið, en við áttum von á öllum fjandanum í fyrsta leik Golden State og Cleveland í lokaúrslitunum. En ekki þessu.
Ekki að Golden State ætti eftir að vinna næsta öruggan sigur á Cleveland í fyrsta leiknum þrátt fyrir að fá lítið sem ekkert frá stórstjörnunum sínum, Stephen Curry og Klay Thompson. Ekki að Shaun Livingston, Leandro Barbosa og Andre Iguodala ættu eftir að klára leikinn. Ekki bara með því að koma inn á í örfáar mínútur og vera krútt, heldur taka leikinn og rífa hann af Cleveland. Sérstaklega Livingston, sem átti leik lífs síns í úrslitakeppni og bókstaflega lék sér að Cleveland liðinu.
Þessi frekar slaka frammistaða Curry og Thompson var ef til vill ástæðan fyrir því að Warriors náði aldrei að stinga af framan af leik, en annars fannst okkur stórfurðulegt hvernig Cleveland hékk inni í leiknum af því sóknarleikur þess var hugmyndasnauður og einhæfur. Við veltum því meira að segja fyrir okkur hvort það er yfir höfuð með einhverjar úrbætur fyrir næsta leik.
Mikið hljóta Golden State menn að fíla sig í botn núna, að hafa tekið leik eitt í stað þess að tapa honum eins og í fyrra, og vera yfir 1-0 þrátt fyrir algjöran down leik frá stóru byssunum sínum. Þeir Curry og Thompson eiga báðir eftir að verða miklu betri í næsta leik og því lítur þetta ekkert rosalega vel út fyrir Cleveland akkúrat núna að okkar mati.
Við vitum öll að Cleveland er alltaf miklu betra á heimavelli og hlýtur að ná í sigur eða sigra þar, en stóra spurningin er hvort LeBron og félagar geta fundið svör fyrir leik tvö í Oakland á sunnudaginn.
Það er ekkert meira um þennan leik að segja. Hann var stór plús fyrir Golden State. Við sjáum mjög oft miklar sveiflur í lokaúrslitunum og vonandi fyrir stuðningsmenn Cleveland, nær liðið að draga einhverja slíka kanínu upp úr hattinum sínum í næsta leik og nær að snúa einvíginu sér í hag.