Wednesday, May 11, 2016

Stórkostlegur Stephen Curry


Við gleymum því aldrei þegar Dallas-maðurinn Dirk Nowitzki tók við MVP styttunni sinni á blaðamannafundi árið 2007. Nowitzki brosti ekki mikið á fundinum, því tólf dögum áður, hafi 67 sigra Dallas-liðið hans látið liðið í áttunda sæti (Golden State) slá sig út úr úrslitakeppninni í fyrstu umferð. 

Þetta voru ein óvæntustu úrslit í sögu úrslitakeppninnar og Nowitzki vissi það. Þetta var rosalega átakanlegur fjölmiðlafundur, þó Þjóðverjinn og allir sem á honum sátu reyndu að gera gott úr öllu saman. Dirk vissi að hluti af þessari katastrófu skrifaðist á hann, sem stórstjörnu Dallas, þó líklega hafi þjálfarinn hans Avery Johnson átt þar stærri hlut að máli. 

MVP-inn sem gat ekki einu sinni drullast til að koma liðinu sínu upp úr fyrstu umferðinni. 
Hnuss! Það var meiri andskotans MVP-inn, sögðu menn hneykslaðir. 

Það tók Nowitzki fjögur ár að hrista þennan apa af bakinu á sér og fólk myndi horfa talsvert öðrum augum á feril hans ef hann hefði ekki unnið titilinn með Dallas fjórum árum síðar.

Það hefur sem sagt ekki alltaf hitt vel á þegar menn taka við styttunni frægu. Þetta er ekki eintómar blöðrur og leikir. 

NBA deildin getur verið svo vægðarlaus og grimm og er enginn staður fyrir veiklunda einstaklinga.

Svo koma menn eins og Stephen Curry. Þessi Curry, sem í gær bauð upp á eitthvað sem segja má að hafi verið algjör andstæða þess sem Nowitzki upplifði árið 2007. 

Sem sagt að sýna þeim sem kusu hann MVP fram á að þeir hefðu ekki gert nein mistök (já, við vitum að deild og úrslitakeppni er ekki það sama, en þetta tengist allt hugmyndafræðilega). Þið eruð öll búin að lesa um það, eða voruð svo heppin að sjá það, hvernig Curry sneri aftur eftir hálfsmánaðar hlé vegna meiðsla og skaut Portland gjörsamlega í kaf í fyrrakvöld. 

Hvernig hann hitti ekki úr fyrstu tíu þristunum sínum, en skoraði svo sautján stig í framlengingunni þar sem Golden State allt nema kláraði seríuna með því að ná 3-1 forystu og fá tækifæri til að loka þessu á heimavelli í næsta leik.


Við gerðum ítarlega og hávísindalega könnun á þessu málefni og niðurstöðurnar voru eftir bókinni: Það er ekki hægt að setja punktinn öllu betur yfir i-ið kvöldið áður en þú ert kjörinn leikmaður ársins. Í stuttu máli sagt: Það er ekkert hægt.

Og það er svo margt sem er ekki hægt við þennan blessaða dreng. Til dæmis sú staðreynd að ekkert okkar áttaði sig á því hversu banvænn sóknarmaður hann gæti orðið, af því ekkert okkar var nógu galið til að sjá fyrir sér að nokkur körfuboltamaður myndi reyna að gera það sem Curry er búinn að vera að gera undanfarna mánuði. Það væri líklega hægt að veggfóðra Þjóðarbókhlöðuna með töflum og gröfum af afrekum hans í vetur.



















Við erum búin að skrifa mikið um Stephen Curry í vetur og munum halda því áfram á meðan drengurinn heldur áfram að ögra öllu sem heitir rökvísi þegar kemur að sóknarleik í körfubolta. Þetta gerum við í trássi við eitthvað af lesendum okkar, en það besta við NBA Ísland er að það þarf enginn að lesa neitt sem hann vill ekki lesa hér á síðunni.

Veistu samt hvað? Það eru yfirgnæfandi líkur á að þú sért að fylgjast með kolvitlausu sporti ef þér er það mjög á móti skapi að Stephen Curry skuli vera að fá umfjöllun í ljósi þess hvað hann er að gera. Ef svo er, ættirðu kannski að halda þig við skák og skotveiði. Eða bara ef þú ert á móti Curry yfir höfuð! 

Hvers konar manneskja ertu ef þú ert með leiðindi út í mann eins og Curry, svona í alvöru? Er kannski ekki allt í lagi heima hjá þér? Er kannski bara ekki í lagi með þig yfir höfuð? Og verður þessi mynd af MVP-inu að taka af sér sjálfu, hallærislegri en broddar og sítt að aftan eftir 20 ár?



Við vissum öll að Curry yrði valinn maður ársins og það eina sem okkur vantaði að vita í gær var hvort hann yrði valinn einróma eður ei. Og auðvitað fékk hann fullt hús og einróma kosningu, það var bara eftir bókinni. Okkur er eiginlega skítsama um hvort hann vann einróma eður ei, það pælir enginn í því eftir nokkur ár.

Það sem var óhjákvæmilegt eftir þessa niðurstöðu, var að einhver eldflaugaverkfræðingurinn ætti eftir að reyna að drulla yfir þessa velgengni hjá Curry.  Við þurftum ekki að bíða lengi, því Té-Mákur Tracy McGrady lýsti því yfir að þó Curry hefði staðið sig vel í vetur, væri þessi einróma kosning til marks um að deildin væri að þynnast þegar kæmi að stórstjörnum. Really, Té-Mákur?

Svona bull er ekki svaravert. Eða finnst þér efstu kapparnir í MVP-valinu vera svona lélegir?



Jú, jú, Curry þurfti ekki að keppa við Jordan, Bird eða Magic þegar kom að kapphlaupinu um titilinn leikmaður ársins, en höfum í huga að hann er nú til dæmis búinn að hirða þessa nafnbót tvisvar sinnum af fjórföldum MVP-hafanum LeBron James á meðan sá er enn á hátindi ferils síns. 

Nær undantekningalaust, hafa leikmennirnir sem voru kjörnir leikmenn ársins í NBA deildinni verið valdir af því liðið þeirra náði framúrskarandi árangri á tímabilinu. Við megum því alls ekki gleyma þætti liðsfélaga hans í þessum verðlaunum og eins og búast mátti við, var Curry ekki spar á hrósið til félaga sinna í þakkarræðu sinni í gær.

Við skulum samt átta okkur á því að án Curry er Golden State ekki annað en gott körfuboltalið, en með hann innanborðs, er það eitt besta lið sem við höfum séð. 

Og hann hefði ekki getað undirstrikað það öllu betur en hann gerði á skotsýningunni sinni í Portland í fyrrakvöld, þar sem stórleikur hans á ögurstundu sneri einvíginu algjörlega Warriors í hag.

Ef Golden State hefði tapað fjórða leiknum og staðan því orðin jöfn 2-2, hefði verið ljóst að liðið þyrfti sex eða jafnvel sjö leiki til að klára seríuna með öllum þeim barningi sem því fylgir.*

En Curry sá til þess að núna er ekki annað en formsatriði fyrir Golden State að klára einvígið á heimavelli í nótt (11. maí kl. 02:30 á NBATV). 

Hann er bara svona góður og virðist staðráðinn í að halda áfram að bæta sig. Og ekki ætlum við að veðja á móti honum. Það hafa nógu margir farið flatt á því.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------



* - Það er alveg bráðnauðsynlegt að taka fram hvað Portland-liðið er búið að standa sig frábærlega í þessari úrslitakeppni. Jú, jú, þeir voru heppnir að Clippers-liðið vængbrotnaði á báðum í fyrstu umferðinni, en þeir gerðu vel í að klára það verkefni og hafa svo staðið rækilega í meisturunum í annari umferðinni.

Við vitum að það er rosalega þreytt klisja að tala um einhverja móralska sigra þegar litlu liðin eru að stríða þeim stóru í úrslitakeppni, en Portland er nú samt búið að standa sig óhemju vel og hefði með smá heppni getað tekið fjórða leikinn og jafnað einvígið.

Það er fullt af risavöxnum götum í þessu Portland-liði og þó það hafi tekið smá Kamerún á þetta í vetur og vor, skulum við varast of mikla bjartsýni þegar kemur að nánustu framtíð. Staðreyndin er sú að Portland vantar talsvert sterkari leikmenn en það hefur núna til að taka næsta skref í úrslitakeppninni, en við skulum ekki loka hurðinni á þá. 

Það er metnaður í Portland-mönnum, en þeir eiga vandasamt verkefni fyrir höndum að koma liðinu upp úr krúttflokknum og í alvöruna.