Wednesday, May 11, 2016

Atlanta er enn Atlanta


Við minntumst ekkert sérstaklega á það fyrir einvígi Cleveland og Atlanta, en hefðum kannski átt að gera það, bara til að rifja það upp fyrir ykkur. Kannski er líka ungt fólk þarna úti sem hreinlega veit þetta ekki. Einhver verður að upplýsa komandi kynslóðir.

Segja þeim, að sama hvað raular eða tautar, sé Atlanta alltaf Atlanta.

Þannig má segja að það eina jákvæða sem kom út úr þessari úrslitakeppni hjá Atlanta, var að líklega hefur Atlanta aldrei nokkru sinni verið Atlanta með jafn heiftarlegum hætti og það var Atlanta þegar það lét Cleveland sópa sér úr keppni í annari umferð 4-0 - annað árið í röð.

Leikmenn Atlanta hljóta að fá æluna í hálsinn þegar þeir heyra minnst á Cleveland, hafandi tapað fyrir því 4-0 í úrslitakeppninni í fyrra, 3-0 í deildarkeppninni í vetur og svo aftur 4-0 núna.

Þetta er yfirdrifið nóg mótlæti til að stúta móralnum í hvaða liði sem er og Atlanta er þar sannarlega engin undantekning.

Erfitt er að henda reiður á hvað hefur farið úrskeiðis hjá Atlanta Hawks, en því miður fyrir stuðningsmenn Haukanna er augljóst að liðið er á hægri niðurleið en ekki að bæta sig. Þetta er náttúrulega fúndamental vandamál. Í siglingafræðunum er þetta kallað að róa í öfuga átt.

Nú er svo komið að tveir af byrjunarliðsmönnum liðsins eru með lausa samninga í sumar. Þetta eru Kent Bazemore, sem kom skemmtilega á óvart í vetur - og miðherjinn Al Horford sem er einn sterkasti leikmaður liðsins. Horford góður körfuboltamaður og spilar oftast vel, inn á milli þess sem hann hverfur eins og Don Draper.

Það er ákaflega freistandi að grípa til gífuryrða og halda því fram að Atlanta ætti bara að sprengja þetta upp og byrja upp á nýtt. Það er alltaf í ákveðinni tísku í NBA umfjöllun og við gerum það reglulega.

Það er þó sennilega aðeins of gróft í tilviki Atlanta eins og Zach Lowe benti skemmtilega á í hlaðvarpi þann 9. þessa mánaðar. Hyggilegra væri að reyna að breyta eitthvað til.

Eitt er þó alveg á hreinu. Atlanta getur gert allar þær breytingar sem það vill - það er ekki að fara að slá LeBron James neitt út úr úrslitakeppni Austurdeildarinnar á næstunni.

Þú þarft að fara í gegn um hann til að komast í úrslit og það er engin hætta á að Atlanta geri það á næstunni,
nema það myndi kannski vinna í víkingalottóinu
og fá stórstjörnu gefins einhvers staðar.

Atlanta er því dálítið fast í þessu einskismannslandi sem það er að vinna 50 leiki og detta út í annari umferð úrslitakeppninnar.

Ef draumar þínir og væntingar snúast um að vinna meistaratitil eða titla, er þetta ákaflega erfiður staður til að vera á. En ef þú setur þetta í stóra samhengið, er þetta hreint ekki svo slæmt.

Atlanta er ekki stór markaður, Atlanta fær ekki til sín stórstjörnur, Atlanta er með hörmulega stuðningsmenn og er staðsett í bæ sem er skítsama um körfubolta, en fimmtíu sigrar og úrslitakeppni er meira en mörg önnur félög af sama kalíberi í NBA deildinni geta sagt.

Við skulum sjá hvað forráðamenn Atlanta gera á leikmannamarkaðnum í sumar. Okkur þykir átakanlega líklegt að félagið muni framlengja samning Al Horford og gera hann að einum launahæsta leikmanni deildarinnar á langtímasamningi sem á eftir að verða hræðilegur á lokaárunum.

Atlanta veit að það getur ekki betur og það læðist að okkur sá grunur að Horford sé fullkomlega sáttur við að vera bara stjarna í liði sem kemst í aðra umferð úrslitakeppninnar og lætur það gott heita.

Hvað svo sem verður í sumar, er eitt alveg á hreinu.

Atlanta hefur alltaf verið, er, og mun líklega alltaf verða, nákvæmlega Atlanta.