Við vitum ekki hvort myndir segja endilega meira en þúsund orð, en við vorum samt að fatta að það er mögulegt að lýsa þessum ævintýralega vetri sem Stephen Curry átti með nokkrum myndum.
Líf NBA-leikmannsins snýst mikið um rútínu, ekki síst hjá skyttum eins og Curry. NBA leikmenn halda flestir fast í að gera sömu hlutina fyrir leiki, borða eins, æfa eins, hita eins upp, skjóta eins og teygja eins.
Stephen Curry er með svona rútínu, en skrumið í kring um hann var orðið svo mikið í vetur að það fór að bera á því að fólk var að mæta klukkutíma fyrir leik bara til að sjá hann hita upp.
Skotrútínan hans er enda löngu orðin goðsagnarkennd, þar sem hann býður áhorfendum jafnan upp á skot frá miðju og utan af gangi áður en hann skokkar aftur inn í klefa. Það sem meira er, þá hittir drengurinn úr þessum skotum!
Þið munið kannski eftir því hvernig hann hafði þetta fyrir annan Oklahoma-leikinn á dögunum. Þá hitti hann meðal annars fimm skotum í röð frá miðjuhringnum á vellinum. Ef þú heldur að það sé eitthvað eðlilegt, eru allnokkrar líkur á því að þú kjósir Ólafíu Hrönn eða Unimog í forsetakosningunum í sumar.
Eitt er dálítið sérstakt við Curry, en það er hvað hann gefur sér extra langan tíma með bolnum - fólkinu sem vill fá eiginhandaráritanir eða myndir með goðinu sínu fyrir leik. Svona athafnir eru óhollar fyrir menn sem kunna ekki að höndla þær (t.d. ef þeir eru með viðkvæmt eða óstöðugt egó), en Curry er kurteis, tekur öllum vingjarnlega og er rígbundinn við jörðina þó að allur körfuboltaheimurinn sé að tala um hann.
Þegar leikurinn hefst, er kominn Curry-tími, tími til að skína bjart. Sumsé, skjóta allt í kaf, eða beisikklí skjóta allt til andskotans bara!
Það sem fylgir á eftir er er í 90% tilvika sigur - og oftast er það Curry sem hreppir fyrirsagnirnar og þá er alveg sama hvaða miðill er að fjalla um málið. Heimurinn er hægt og bítandi að kveikja á því hvað Curry er að gera.
Hann selur fleiri treyjur en nokkur annar leikmaður NBA deildarinnar og er vinsælasti leikmaðurinn í dag samkvæmt vísindalegum könnunum. Það er fjallað um hann í New York Times, á NBA Ísland, í Frankfurter Allgemeine og á heimasíðu Álnabæjar.*
Sumir leikmenn eru svo heppnir að losna snemma í burtu þegar leikjunum lýkur. Hoppa bara í sturtu, svara tveimur spurningum og stinga af heim til sín, hendast í Húsasmiðjuna eða detta beint á djammið. Þetta er smekksatriði.
Curry getur ekki leyft sér þennan munað og þarf alltaf að gefa sér góðan tíma með fjölmiðlum. Hann fékk sérstök verðlaun um daginn fyrir það hvað hann gefur mikinn kost á sér og er yfir höfuð þægilegur við fjölmiðla.
Og til að trompa þetta allt saman, tekur hann hana Riley litlu dóttur sína stundum með á fjölmiðlafundi, þar sem hún er jafnan fljót að stela senunni með því að krútta allt og alla í drasl.
En undanfarið hefur verið enn meira að gera hjá Curry, því hann hefur þurft að vera að fara á auka fjölmiðlafundi af því hann er alltaf að vinna einhver verðlaun.
Magic Johnson verðlaunin fékk hann um daginn og svo endurtók hann náttúrulega leikinn frá í fyrra þegar hann var aftur kjörinn leikmaður ársins í NBA. Þá er ekki annað en að halda smá ræðu og þakka öllum nema sjálfum sér fyrir nafnbótina og vera ógeðslega hógvær og krúttlegur á meðan. Tékk!
Þegar hann svo loksins, loksins, loksins fær að fara heim, bíður hans litla sæta, krúttlega og fallega fjölskyldan hans og það er þar sem honum líður best. Stephen Curry er ekkert svo mikið fyrir skemmtistaði, súludansstaði eða fjárhættuspil. Vill frekar vera í faðmi fjölskyldunnar, sem er mjög samheldin eins og þið hafið væntanlega séð á leikjum Golden State.
Til er fólk sem trúir því ekki að Stephen Curry sé svona flekklaus maður. Hann sé bara allt of mikið krútt og fyrirmyndar eiginmaður sem gerir aldrei neitt af sér hvorki innan né utan vallar. Það sé of gott til að vera satt fyrir NBA að nýjasti sendiherra deildarinnar sé einfaldlega fullkominn maður sem á
Það er alveg öruggt mál að það hafa margir blaðamenn reynt að grafa upp einhverjar gamlar syndir eða gömul leyndarmál sem tengjast Curry. Reynt að finna einhverja drullu. En það er augljóst að þeir hafa ekki fundið neitt.
Við veltum því fyrir okkur hvort Curry átti sig á því hvað það getur verið hættulegt að vera svona fullkominn, því það eru til mörg dæmi um að menn í þessum sporum hafi sprengt á sér hauskúpuna eða fengið allsherjar sprengigeðköst sem standa yfir í margar vikur.
Við vonum sannarlega að Curry eigi ekki eftir að vakna timbraður og minnislaus með kind í fanginu í baðkari á Blönduósi einn daginn. Það yrði ósanngjarnt fyrir svona vandaðan dreng, sem er svo mikið krútt að líklega væru flestir karlmenn til í að leyfa honum að fara á stefnumót með einkadætrum sínum ef hann væri á lausu.
Já, þvílíkur vetur hjá þvílíkum leikmanni.
-------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Við nánari athugun kom í ljós að það er víst engin umfjöllun um Stephen Curry á vefsíðu Álnabæjar akkúrat í augnablikinu. Beðist er velvirðingar á þessu.