Allt byrjaði þetta undir lok annars leikhluta, sem getur verið hættulegur tími til að missa einbeitinguna í körfubolta. Þetta á ekki síður við þegar þú ert að spila við lið eins og Golden State Warriors, sem setur þig í fræsarann ef þú gerir mistök, ekki síst þegar það spilar á heimavelli.
Oklahoma var undir megnið af fyrri hálfleiknum í öðrum leik sínum gegn Golden State í úrslitum Vesturdeildarinnar í nótt. En Oklahoma-menn náðu góðri rispu upp úr miðjum 2. leikhlutanum og náðu að jafna leikinn þegar ein mínúta og 35 sekúndur voru til hálfleiks og staðan 49-49.
Það skrifast ekki allar körfur á einbeitingar- eða kæruleysi, en þessir tveir faktórar voru sannarlega við lýði þegar Warriors-menn breyttu stöðunni úr jöfnum leik í 57-49 á þessum 95 sekúndum. Safnast þegar saman kemur, svona kaflar verða mjög oft kveikjan að góðum rispum og þannig var það líka í nótt. Skólabókardæmi.
Heimamenn í Golden State héldu um það bil tíu stiga forystu fram í miðjan þriðja leikhlutann og ekki útlit fyrir annað en að Oklahoma ætti inni fyrir svo sem eins og einu áhlaupi líkt og í fyrsta leiknum.
Og áhlaupið kom. En það var bara úr hinni áttinni.
Mennirnir sem lýstu leiknum töluðu um það í hálfleiknum að Stephen Curry þyrfti að láta meira til sín taka í sóknarleiknum - reyna að búa eitthvað til fyrir sjálfan sig, þó hann eigi að heita í strangri gæslu vaskra varnarmanna hverja einustu sekúndu sem hann er inni á vellinum.
Ekkert vesen.
Curry tók sig til og skoraði 15 stig í röð á tveggja mínútna kafla um miðjan leikhlutann og kláraði leikinn, bara sí svona. Oklahoma gerði vel að halda muninum innan við tíu stigin lengi vel, en nú sprakk hann upp í 20 og eftir það varð fjandinn laus.
Örlög Golden State eiga það oft til að ráðast öðru hvoru megin við fimmtán stiga mun. Liðið vinnur nær alltaf ef það nær fimmtán stiga forystu á einhverjum tímapunkti í leik. Í fyrsta leiknum festist það í fjórtán stigunum og Oklahoma náði að koma til baka og vinna, en í nótt fór það á hinn veginn. Tíu stiga munur varð tuttugu stiga munur á meðan þú deplaðir augunum nokkrum sinnum og jókst bara eftir það. Leikurinn var búinn.
Oklahoma er búið að sýna okkur að það er talsvert sterkara en það gaf til kynna í deildarkeppninni í vetur, en leikmenn liðsins vissu að þeir væru fögt eftir leifturárásina frá Curry.
"Þeeett´er búið!"
Það sem hafði verið nokkuð jafn leikur breyttist fyrirvaralaust í blástur, sem Golden State kláraði að lokum 118-91 og jafnaði metin í seríunni í 1-1.
Eigum við ekki að segja að fyrstu tveir leikirnir hafi farið á besta veg úr því hærra skrifaða liðið tapaði heimaleik. Næstu tveir í Oklahoma verða tröllvaxnir og það er ljóst að Golden State verður að vinna amk annan þeirra.
Annað sem böggar og truflar eru allir töpuðu boltarnir hjá Kevin Durant (8). Það er alveg nóg að Westbrook sé að henda boltanum upp í stúku eða í hendurnar á andstæðingum sínum, svo KD fari nú ekki að gera það líka.
Klay var kaldur hjá Golden State (5 af 17) en þú ert í helvíti góðum séns ef stóru strákarnir á bekknum hjá þér skjóta 11 af 12. Hér vantar upp á varnarleik í teig, en annars fékk Golden State ljómandi framlag frá fullt af fólki.
En, eins og áður sagði, var það auðvitað Stephen Curry sem kláraði þennan leik og það er enn merkilegra þegar haft er í huga að hann gengur ekki alveg heill til skógar.
Hnéð á honum er enn ekki orðið gott eftir tognunina um daginn og svo er maðurinn ekki kominn í leikæfingu. Það sést líka, því hann er ekki að setja nema helminginn af þristunum sínum niður það sem af er í envíginu gegn Oklahoma, þar sem hann tekur 11 3ja stiga skot að meðaltali í leik.
Það er gaman að vita til þess að nú er mikið af fólki að klifra upp á Curry-vagninn. Jón og Gunna úti á götu eru að svara áskorunum og láta sig hafa það að horfa á Curry spila körfubolta, þó það væli reyndar um svefnleysi restina af vikunni. NBA körfuboltinn - og sérstaklega Steph Curry og Golden State eiga brýnt erindi til allra Íslendinga. Við erum búin að fara yfir þetta allt saman áður.
Þvílíkur munaður að vera með mann eins og Stephen Curry í liðinu sínu. Þú bara trekkir hann upp og hendir honum inná og hann breytir hnífjöfnum hörkuleik í blástur á tveimur mínútum!
Það eru engir smá skorarar sem við höfum fengið að fylgjast með í NBA deildinni frá því á dögum Jordans, en enginn leikmaður í sögu deildarinnar hefur verið jafn fljótur að koma stigum á töfluna og Stephen Curry.
Það er alveg sama hvort við tölum um Wilt Chamberlain eða Michael Jordan, þeir voru báðir magnaðir skorarar, en þeir stunduðu ekki að skjóta (næstum því) frá miðju og hitta 50% í þristum. Þett´er náttúrulega bara rugl og svindl og enn og aftur er þessi drengur að minna okkur öll svo rækilega á það að hvernig hann er að breyta leiknum með áður óséðum hæfileikum sínum.
Tapið í fyrsta leiknum sat ekki lengi í Golden State-mönnum. Þeir spiluðu raunar eins of fyrsti leikurinn hefði aldrei farið fram, ef undan er skilið hvernig þeir hentu frá sér nokkrum boltum líkt og þeir gerðu á mánudagskvöldið. Þeir þurftu náttúrulega að vinna þennan leik í nótt til að forðast að koma sér í vandræði og gerðu það stórvandræðalaust.
Nú verða næstu tveir leikir í þessari rimmu í Oklahoma, þar sem allir hvítu ellilífeyrisþegarnir ná að búa til alveg ógurlegan hávaða og stemningu. OKC mun sennilega ekki veita af þessum stuðningi í ljósi þess hve vel Golden State svaraði tapinu í fyrsta leiknum.
Við vitum ekki með ykkur, en við höfum það á tilfinningunni að Golden State sé að leggja upp fyrir sig smá árás núna.
Við höfum séð það áður frá þeim. Þeir byrja rólega í seríum og lenda jafnvel undir (2-1 gegn Memphis og Cleveland í fyrra) á meðan þeir eru að gefa sér tíma til að lesa andstæðinginn.
Síðan er eins og einhver ýti bara á takka hjá þeim sem á stendur "hakkavél" og eftir það ræður enginn við eitt eða neitt. Þá er ekkert eftir nema hreinsa upp sletturnar og fara heim.
Vonandi reynist þessi tilfinning ekki rétt og vonandi verður þessi rimma í járnum sem lengst af því hún er svo ógeðslega skemmtileg og vel spiluð. Næsti leikur í þessu einvígi fer fram í Oklahoma og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport á miðnætti á sunnudaginn.
Við skorum á alla, konur og kalla, að gæta þess að missa ekki af því.