Wednesday, February 10, 2016

Fátt er svo með öllu illt...


Stjörnuleikurinn í NBA deildinni fer fram í Toronto klukkan eitt á sunnudagskvöldið og verður að venju sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þessi árlegi leikur er sannarlega ekki allra og sennilega er löngu kominn tími til að hrista aðeins upp í prógramminu, svo það líkist meira körfubolta en þeim skrípaleik sem hann hefur því miður átt það til að vera undanfarin ár.

Neikvætt fólk fær mikið kikk út úr því að hrauna yfir Stjörnuleikinn og er fljótt að finna neikvæðu hliðarnar á öllu dæminu, hvort sem það er skotkeppnin, troðkeppnin eða leikurinn sjálfur. Við hérna á ritstjórninni erum sannarlega ekki saklaus af svona væli, en það er vegna þess að þegar við byrjuðum að fylgjast með NBA á ofanverðum níunda áratugnum, var næstum því spilaður hefðbundinn körfubolti í Stjörnuleiknum.

Við segjum næstum því hefðbundinn, því auðvitað spiluðu menn litla sem enga vörn í þrjá leikhluta, en við munum vel eftir því hvernig keppnisskapið í mönnum tók svo völdin þegar leið á lokaleikhlutann og þá fóru að sjást einstaka varnartilþrif líka.

Það sem þessir leikir höfðu þó langmest fram yfir Stjörnuleiki dagsins í dag, var að þeim var stýrt af alvöru leikstjórnendum - mönnum sem leituðust fyrst og fremst við að gera meðspilara sína betri.

Menn eins og Magic Johnson, John Stockton og Isiah Thomas sáu til þess að blússandi hraður sóknarleikurinn fór nokkuð stílhreint fram - það var method í því madnessi eins og sagt er.

Ætli það hafi ekki verið í kring um aldamótin sem Stjörnuleikirnir sjálfir hættu að vera þessi fagurfræðilega skemmtun sem þeir voru á árum áður, en það var að okkar mati fyrst og fremst vegna þess að leikmennirnir sem stýrðu spilinu í leiknum voru orðnir skorarar fyrst og fremst - ekki hreinir og klárir leikstjórnendur.

Við Magic, Stockton og Thomas tóku menn eins og Allen Iverson, Stephon Marbury og Steve Francis, fínir leikmenn, en undir þeirra stjórn breyttist leikurinn árlegi í langskotakeppni og röð af átakanlega lélegum sendingum sem áttu að búa til viðstöðulausar troðslur en þessar sendingar enduðu oftar en ekki uppi í þrettándu röð en ekki á Vince Carter eða Tracy McGrady.

Stjörnuleikurinn í dag minnir vissulega meira á aldamótahefðina en leikina á níunda áratugnum, en þó við tökum undir og viðurkennum fúslega að stundum sé leikurinn meiri vitleysisgangur en körfubolti, gætum við þess alltaf að muna hvaðan við erum að koma - hvar þetta byrjaði allt saman.

Það var nefnilega svo að það var Stjörnuleikur sem átti mjög stóran hlut í að koma okkur á NBA-bragðið á sínum tíma og fyrir það verðum við ávallt þakklát.

Við megum nefnilega ekki gleyma því að þó lengra komnir NBA-pjúristar fussi og hristi höfuðið yfir Stjörnuleiknum og horfi yfir höfuð ekkert á hann, eru þeir ekki einu NBA áhugamennirnir á jörðinni.

Það eru nefnilega alltaf að bætast við ungir áhugamenn um fallegustu íþrótt og bestu deild í heimi, NBA deildina, og þessu unga fólki verður að gera til hæfis líka.

Hvað er það jú sem yngstu áhorfendurnir vilja sjá? Laukrétt, þeir vilja sjá þrista, troðslur og tilþrif, þeir vilja sjá stjörnurnar sínar spila hraðan og skemmtilegan leik og jafnvel kynnast nýjum stjörnum sem þeir hafa aldrei séð áður.

Þannig var það þegar við sáum Stjörnuleikinn 1989 á Stöð 2 í gamla daga, undir styrkri stjórn goðsagnarinnar Einars Bollasonar.

Í þá daga var NBA boltinn á dagskrá vikulega á stöðinni, en þá var alltaf um að ræða gamla leiki þar sem stiklað var á stóru yfir fyrri hálfleik en svo var síðari hálfleikurinn sýndur "í beinni" - eða það höfðum við á tilfinningunni.

Það var sama hvort það var þessi ákveðni Stjörnuleikur eða hvort það var leikur með þá nýtilkomnu liði Minnesota Timberwolves, alltaf náði Einar að glæða þessa leiki lífi, spennu og drama.

Einar vissi allt um alla leikmennina og útskýrði fyrir okkur hvernig reglurnar virkuðu með reglulegu millibili líka, enda var NBA deildin hálfgerður nýliði fyrir Íslendingum, þó fólk hafi fengið að kynnast deildinni nokkrum árum áður - fyrst í Ríkissjónvarpinu ef við munum rétt.

Við vorum búin að fylgjast með öllu sem í boði var frá NBA deildinni á níunda áratugnum, en svo fengum við að sjá Stjörnuleikinn 1989 og vorum svo heppin að eignast hann á myndbandi. Áður en yfir lauk, var búið að horfa svo oft á þetta tiltekna myndband að það var orðið nánast ónýtt.

Við kunnum Stjörnuleikinn utan af, þar sem við fengum fyrst að sjá Seattle-skyttuna Dale Ellis skjóta Craig Hodges í kaf í skotkeppninni og Kenny "Sky" Walker frá New York vinna óvæntan sigur í troðkeppninni eftir að hafa komið inn í hana sem varamaður á síðustu stundu. Hér fyrir neðan sérðu mynd af liði Austurdeildarinnar:

(Efri röð frá vinstri: Charles Barkley - Philadelphia, Isiah Thomas - Detroit, Michael Jordan - Chicago, Dominique Wilkens - Atlanta, Mark Jackson - New York, Mark Price - Cleveland.
Neðri röð frá vinstri: Moses Malone (R.I.P.) - Atlanta, Kevin McHale - Boston, Brad Daugherthy - Cleveland, Lenny Wilkens, þjálfari - Cleveland, Larry Nance - Cleveland, Patrick Ewing - New York og Terry Cummings - Milwaukee).



Leikurinn 1989 hafði þá sérstöðu að hann var spilaður í Houston Astrodome höllinni og þar var sett aðsóknarmet þegar yfir 44 þúsund manns mættu á að fylgjast með snilldinni. Annað sem var sérstaklega eftirminnilegt við Stjörnuleikinn ´89 var að leikmannakynningarnar voru rappaðar af Ultramagnetic MC´s. Þetta þótti okkur um það bil það svalasta sem við höfðum nokkru sinni séð. Þið hljótið að vera sammála, því þetta rígheldur sér orð fyrir orð enn þann dag í dag:



Eins og við sögðum ykkur fyrr í pistlinum var þekking okkar á NBA deildinni á þessum tíma nokkurn veginn takmörkuð við Magic, Kareem, Bird, Jordan og Barkley - eitthvað í þá áttina - en Stjörnuleikurinn ´89 breytti þessu.

Þar fengum við að kynnast alls konar forvitnilegum leikmönnum sem spiluðu með liðum sem við vissum ekki að væru til, til dæmis lið eins og Utah Jazz! Hvað var það nú eiginlega?

Utah átti þrjá fulltrúa í Stjörnuleiknum þetta árið, þá Stockton og Malone og hinn risavaxna Mark Eaton.

Magic Johnson var meiddur þarna og því kom það í hlut John Stockton að stýra leik Vesturstrandarliðsins, sem gjörsamlega keyrði yfir andstæðinga sína.

Stockton gaf 17 stoðsendingar í leiknum (en hefur örugglega farið heim til sín og refsað sjálfum sér með gaddavír á Gamla Testaments-vísu af því hann tapaði 12 boltum í leiknum), megnið af þeim á þá Dale Ellis (26 stig) og samherja sinn Karl Malone (27 stig) sem fyrir vikið var valinn maður leiksins.

Annað sem gerði þennan leik nokkuð merkilegan var að þarna var á ferðinni nítjándi og síðasti Stjörnuleikur Kareem Abdul-Jabbar á ferlinum, en hann var tekinn inn í leikinn sem varamaður fyrir liðsfélaga sinn Magic Johnson sem var meiddur.

Jabbar kórónaði skemmtilegt kvöld með því að skora einu körfuna sína utan af velli með sveifluskoti rétt áður en leiktíminn rann út og vestrið fagnaði sigri. Já, hlutirnir voru sannarlega öðruvísi í þá daga. Sjáðu bara lið Vesturdeildarinnar á myndinni hérna fyrir neðan:

Í því var einn leikstjórnandi (Stockton #12), einn skotbakvörður (Clyde Drexler #22, Portland), þrír minni framherjar (Dale Ellis #3 - Seattle, Alex English #2 - Denver, James Worthy #42 - L.A. Lakers og Chris Mullin #17 - Golden State, tveir kraftframherjar (Karl Malone #26 - Utah og Tom Chambers  #24 - Phoenix) og svo FJÓRIR miðherjar (Kareem #33 - Lakers, (H)Akeem Olajuwon #34 - Houston, Mark Eaton #53 - Utah og Kevin Duckworth #00 (R.I.P.) - Portland).



Þið getið rétt ímyndað ykkur Stjörnuleik með fjórum miðherjum og einum leikstjórnanda í dag (þó Magic Johnson hafi auðvitað verið valinn í leikinn en ekki spilað vegna meiðsla - og miðherji komið inn í hans stað). Svona voru hlutirnir í þá daga.

NBA deildin er búin að breytast gríðarlega mikið síðan þessi skemmtilegi leikur fór fram þann 12. febrúar árið 1989, en þó gæðin í leiknum í Toronto á sunnudaginn verði eflaust eitthvað minni en þau voru fyrir aldarfjórðungi - er aldrei að vita nema séu einhverjir ungir og upprennandi körfuboltafíklar, vampíruvaktarmenn framtíðarinnar, sem fylgjast spenntir með og éta í sig hvert einasta augnablik.