Monday, February 8, 2016

Betri án Blake eða hvað?


Veistu hver munurinn er á þversögn og mótsögn? Það skiptir ekki öllu máli akkúrat núna, því bæði hugtökin eiga við körfuboltaliðið Los Angeles Clippers í dag.

Það hlýtur að segja sig sjálft að þegar þú kippir Stjörnuleikmanni sem skilar 23 stigum og 9 fráköstum út úr hvaða liði sem er, þá finni það fyrir því og veikist talsvert. Auðvitað er Clippers-liðið ekki eins sterkt þegar Blake Griffin er ekki með. Auðvitað er liðið ekki betra án hans...!

Víst! 

Við höfðum orð á þessu í Clippers/Griffin pistli fyrir nokkrum dögum, en nú er mælirinn fullur. Clippers-menn halda bara áfram að vinna og vinna og vinna án handleggsbrotinnar stjörnu sinnar, svo mikið að það er orðið mjög áberandi. Skeddjúlið hjá þeim er ekki það erfiðasta í heimi en þið vitið alveg að það er ekkert mál að tapa leikjum í NBA deildinni.

Clippers var 18-13 þegar Griffin meiddist á jólunum en síðan hann datt út, er liðið búið að vinna sautján leiki og tapa aðeins fjórum! Vaddahell, þúst!

Sko, við vitum alveg að lið eiga það til að þjappa sér saman og spila aðeins fastar þegar menn detta svona út. 

Þá hóa menn sig saman og deila niður stigunum/skotunum sem upp á vantar og berjast 15-20 prósent meira en áður, til að brúa bilið. En þetta dæmi hjá Clippers er bara rugl.

Chris Paul er búinn að gefa í, enda er hann sá sem mest mæðir á hjá liðinu og það kemur einna helst í hans hlut að gera meira þegar Griffin er ekki með. Og hann stendur oftast undir því þessi smávaxni skaphundur, því fólk gleymir því nefnilega stundum að hann er alveg fáránlega góður í körfubolta.

En allt þetta er bara ekki viðunandi útskýring. Clippers á ekki að vera svona bleh eins og það var á fyrstu vikum tímabilsins, en það á líka alls ekki að verða skyndilega besta lið í heimi þegar Griffin meiðist.

Við erum búin að reyna, en allt kemur fyrir ekki. Spilamennska Clippers er bara í alla staði betri þegar Griffin er ekki með, þó okkur finnist þetta hálfgert guðlast að segja svona. 

Nú öskra sófaframkvæmdastjórarnir fyrir framan sjónvarpið á Doc Rivers og skipa honum að skipta Blake Griffin í burtu nú þegar hæsta mögulega verðið fæst fyrir hann. Rólegir. Það er afar ólíklegt að Doc og félagar hafi kjark eða hreinlega áhuga á því að fara út í einhverja svona dramatík á þessu stigi málsins.

Ef við reynum að líta raunsætt og rökrétt á þetta vandræðalega mál - eins og hlutirnir séu ekki nógu vandræðalegir fyrir hjá aumingja Griffin - þá þýðir það sennilega það sem spekingarnir hafa verið að tala um á bak við tjöldin undanfarin ár: Partarnir í Clippers-bílnum passa bara ekki saman.

Við fyrstu sýn virðist þetta farartæki vera rosalega flott. Það lúkkar eins og gæjalegur sportbíll, er með flekklaust lakk og á nýjum dekkjum. En þegar þú rífur upp húddið og kíkir ofan í, er þar mótor úr 1982 módelinu af Caterpillar D-4 jarðýtu í staðinn fyrir hefðbundna sportbílsvél.*

Það er náttúrulega hægt að nota jarðýtuvélina í allan fjandann - til dæmis í jarðýtu eða eitthvað annað heví djútí dæmi - en það gefur augaleið að þú ert ekkert að fara að setja jarðýtumótor í sportbíl. Það væri eins og að ætla að setja vél úr Toyotu Tercel ´87 í fjögurra öxla MAN og spenna aftan í hann treiler. Einmitt. 

Þetta er rosalega vandræðalegt fyrir aumingja Blake Griffin, eins og hann var að spila vel aumingja karlinn. En svo fattar hann allt í einu að hann er að hjálpa liðinu sínu betur með því að berja vin sinn og handleggsbrjóta sig. 

Svo veit náttúrulega enginn upp á hverju deildin tekur þegar hún verður búin að rannsaka þetta mál hans. Kannski henda þeir honum í gott bann ofan á allar þessar meiðslavikur, eins og til að moka salti í opin sárin.
Amma hans Bigga löggu á eftir að fá fleiri atkvæði í MVP kjörinu í vor.

Þetta er ljóta andskotans vesenið. Hugsið ykkur, svo er liðið víst búið að vinna átján af tuttugu síðustu leikjum sínum eða eitthvað álíka, en samt saxar það ekkert á forskot Oklahoma í þriðja sæti vestursins, sem saxar ekkert á forskot San Antonio í öðru sæti vestursins, sem saxar ekkert á Golden State í fyrsta sæti vestursins. Þetta er þrepareglan svokallaða.**

Það er bölvað þunglyndi að vera Clippers-maður eða kona þessa dagana. Kannski eru það bara við, en okkur finnst hálfgerður deprímeringar skuggi hanga yfir þeim. Það er eins og hvað sem þeir gera, hversu vel sem þeir gera það, sé einfaldlega bara ekki nóg.

------------------------------------------------------------------------------------------------------

* -  Við gerum okkur grein fyrir því að þessi ímyndaði sportbíll okkar þyrfti að vera heeelvíti stór til að rúma mótor úr Caterpillar fjarka ofan í vélarrýminu. Það er bara svo þægilegt að grípa til vinnuvélaanalóga til að útskýra dílemmu Clippers-liðsins.

** - Hélstu virkilega að væri til eitthvað sem heitir þrepareglan? Plís.