Sunday, February 7, 2016

Warriors stóðst enn eitt prófið - Oklahoma ekki


Fólk sem fylgist með boltaíþróttum á það til að fullyrða eitt og annað - senda frá sér eins konar yfirlýsingar - sem það svo leggur fyrir félaga sína eða hvern sem vill eða vill ekki heyra þær. Margir finna reglulega hjá sér sérstaka þörf á að gefa frá sér svona yfirlýsingar.

"Þetta lið er fallið!" "Þetta lið verður meistari! "Þessi verður markakóngur!" Eitthvað í þessum dúr. Við gerum þetta stundum, eins og þið vitið væntanlega ef þið hafið lesið NBA Ísland lengur en í mánuð. 

Já, við erum með þessa tendensa, en þeir eru líka fastur partur af því að skrifa um íþróttir. Það væri ekkert gaman af þessu ef enginn tæki nokkru sinni áhættu á því að líta illa út með því að fullyrða um eitthvað (eins og fífl). Sjáið bara öll eggin sem við höfum fengið í andlitið og alla hattana sem við höfum étið, bara út af San Antonio Spurs.

Þið áttið ykkur líklega á því hvert við erum að fara með þessu. Golden State var aftur á ferðinni í nótt sem leið. Meistararnir voru aftur að spila við eitt af liðunum sem eiga að geta gert þeim lífið leitt í úrslitakeppninni í vor. 

Það var Oklahoma sem var á matseðlinum hjá þeim í nótt.

Eini munurinn á viðureign Golden State og Oklahoma annars vegar og Golden State og Cleveland og San Antonio hins vegar, er að Warriors-menn náðu ekki yfir 30 stiga forystu á neinum tímapunkti í þessum. 

Golden State drullaði yfir Cleveland og San Antonio með samanlögðum 64 stigum fyrir stuttu, en vann þennan ekki nema 116-108 þrátt fyrir að hafa náð 20 stiga forskoti á tímapunkti. Það getur sumsé vel verið að margir yfirlýsinga- og fullyrðingaglaðir menn hafi notað þennan leik til að hjóla af stað - og sjái nú titilinn ekki annað en formsatriði fyrir Warriors. Það þurfi hreinlega ekki að spila restina af tímabilinu.

Við skulum nú róa okkur alveg á því, en við neitum því ekki að Golden State er búið að taka öll próf sem fyrir það hafa verið lögð í vetur, fá tíu á þeim, krumpa þau saman í kúlu, henda þeim upp í loftið og sparka þeim beint ofan í ruslafötuna með hælspyrnu af sjö metra færi - án þess að horfa.

Það var rétt sem Stephen Curry sagði eftir leikinn, hann minnti á leik í úrslitakeppni, sérstaklega í síðari hálfleiknum. Fyrri hálfleikurinn minnti reyndar alls ekki á leik í úrslitakeppni af því þá spilaði hvorugt liðið vörn, sérstaklega gestirnir, sem voru átakanlegir á þeim endanum.

Þriggja stiga skotin duttu ekki hjá þeim Stephen Curry og Klay Thompson í nótt og það er stundum frekar alvarlegt mál fyrir Warriors, því liðið treystir jú talsvert á frábæra hittni þeirra fyrir utan. 

En Golden State væri auðvitað ekki meistar ef það stæði og félli með einhverjum einum hlut í sókninni og í gær voru það varamennirnir sem tóku upp hanskann í staðinn. 

Þeir Andre Iguodala, Shaun Livingston, Marreese Speights og Leandro Barbosa skoruðu 42 stig í leiknum og skutu 60%. Kaupir það ekkert í Krónunni.

Oklahoma fékk ekkert svona af bekknum ef Enes Kanter er undanskilinn. Tyrkinn nær alltaf að búa sér til fullt af tölum af bekknum, alveg sama hvað hann spilar lítið. Í nótt náði hann að dæla upp 14 stigum og 15 fráköstum á aðeins 20 mínútum, sem er auðvitað lygilegt. 

Kanter spilaði svo vel í sókninni að hann náði að réttlæta veru sína inná vellinum á meðan, sem hann gerir mjög sjaldan, þar sem hann er vanur að kosta Oklahoma jafn mörg stig í vörninni og hann skorar í sókninni. 

Dion Waiters passar ekki inn í Oklahoma City frekar en nokkuð annað körfuboltalið og við efumst um að hann eigi eftir að fá annan samning í NBA deildinni. Og talandi um samninga. Ætli Billy Donovan sé pabbi hans Kyle Singler?  

Það er eina ástæðan sem við sjáum fyrir því að Singler sé bæði með samning í NBA deildinni OG fái actually að spila þrettán mínútur í leik! Singler er lélegasti leikmaður deildarinnar - og það með yfirburðum... eða undirburðum - leirburðum. Fokk it, hann er bara lélegur. Öskrandi, æpandi lélegur.

Oklahoma er vissulega með Kevin Durant og Russell Westbrook og Serge Ibaka og svona, gott, gott, en það er líka að útdeila mínútum á Enes Kanter sem mun aldrei spila vörn í NBA deildinni af því hann kærir sig ekki um það, lélegasta leikmann deildarinnar í Kyle Singler, nýliða (nýliðar kunna ekkert og geta ekkert), mann með klíníska skotfælni (Roberson) og síðast en ekki síst, þann einstakling sem lifir í stærstu blekkingu allra leikmanna NBA deildarinnar (Dion Waiters).*

Annars var ekkert í þessum leik í gær sem kom á nokkurn hátt á óvart. Golden State komst 20 stigum yfir, Westbrook og Durant skutu Oklahoma aftur inn í leikinn og gerðu hann áhugaverðan í lokin, en Warriors-liðið lokaði honum þegar á reyndi. Hó-humm.

Í gegn um tíðina hefur okkur stundum fundist sóknarleikur Oklahoma hræðilega einhæfur og fyrirsjáanlegur, þar sem hann hefur ekki gengið út á neitt annað en að Westbrook og Durant skiptast á að fara einn á þrjá eða eitthvað í þeim dúr. Sem sagt ENGIN strategía, engin kerfi, engin hlaup, ekkert gert til að einfalda sóknarmönnunum lífið eða villa um fyrir andstæðingnum.

Billy Donovan átti að breyta þessu, var það ekki? 

Var Scott Brooks ekki rekinn af því hann var kominn á endastöð með liðið sóknarlega? 

Átti Donovan ekki að koma með ferskt fleivor inn í liðið bæði í vörn og sókn? Við hefðum haldið það.

Við vitum alveg að Donovan er ekki búinn að stýra liðinu nema í nokkra mánuði, en vitið þið hvað? 

Hann er samt búinn að stýra þessu liði í meira en 60 körfuboltaleikjum þegar allt er talið og því er andskotinn hafi það ekki til of mikils mælst að sjá einhverjar breytingar til góðs hjá liðinu!

Eiga Westbrook og Durant það til að hreyfa sig eitthvað aðeins án bolta í sóknarleik Oklahoma? Já, já, eitthvað aðeins, en þeir gerðu það ekki á móti Golden State í gær og það er ekki einu sinni stærsta vandamálið. Stærsta vandamál Oklahoma í dag er varnarleikurinn. Við erum búin að fylgjast nokkuð vel með Oklahoma í nokkur ár og með þeim fyrirvara að við höfum ekkert vit á körfubolta, finnst okkur liðið aldrei hafa spilað eins lélega vörn og í ár.

En ætli tölfræðin bakki þetta upp? Auðvitað gáðum við að því - og jú, tölfræðin segir okkur líka að vandamál Oklahoma sé varnarleikurinn, þó sóknarleikurinn sé einhæfur. 

Það er nefnilega þannig að þessi einhæfi og stundum ljóti sóknarleikur Oklahoma, er nógu góður til að skila liðinu í eitt af efstu sætum sóknartölfræðinnar á hverju einasta ári.

Og Oklahoma var um árabil með nokkuð sterka vörn - og það var þess vegna sem liðið var svona ógeðslega gott - talsvert betra en það er í dag. 

Vörn OKC náði hámarki leiktíðina 2013 þegar liðið fékk ekki á sig nema 99,2 stig á hverjar 100 sóknir, sem var þriðji besti árangurinn í NBA það árið (ásamt San Antonio, sem var með nákvæmlega sömu tölfræði).

Við verðum náttúrulega að setja smá * aftan við síðustu tvö ár hjá Oklahoma vegna meiðsla þeirra Durant og Westbrook, sérstaklega á síðustu leiktíð, þar sem Durant spilaði ekki nema 27 leiki og Westbrook 67. 

En eins og þið sjáið á töflunni hérna fyrir ofan (sem við föndruðum af fullkomnu kunnáttuleysi en biðjum ykkur samt að gefa gaum af því það tók okkur aðeins of langan tíma að setja hana saman), hefur varnarleikurinn frekar verið á niðurleið en uppleið.

Í dag er Oklahoma með elleftu bestu vörnina í NBA deildinni samkvæmt tölfræðinni og næstbesta sóknarleikinn á eftir Warriors. Þetta myndi nægja einhverjum, en þetta er ekki nógu gott fyrir okkur. 

Þetta lið getur miklu betur og verður að spila betur en þetta ef það ætlar sér að gera einhverja hluti. Og þið vitið að það er náttúrulega bara hægt að gera einn "hlut" í NBA deildinni - vinna meistaratitilinn. Það gerist ekki með svona spilamennsku - og það langt í frá.

Já, svona er erfitt að gera okkur til geðs, en við trúum því ekki að það séu bara við sem erum í gremjukasti yfir þessum aulagangi hjá Oklahoma. Við þykjumst vita að stuðningsmenn liðsins og þeir sem vilja sjá þetta lið vinna titil séu allt annað en sáttir við stöðu mála.

Hugsið ykkur bara þegar við horfum til baka eftir tíu, tuttugu eða þrjátíu ár, þegar fólk verður búið að setja það í endanlega rétt samhengi hvað menn eins og Durant og Westbrook voru góðir körfuboltamenn á sínum tíma og hvar og hvernig þeir ránka miðað við aðra snillinga NBA deildarinnar. 

Haldið þið að menn eigi eftir að dásama og ausa hrósi, tvo menn sem voru svona góðir í körfubolta en náðu kannski að komast bara einu sinni í lokaúrslitin þó þeir hafi spilað saman í mjög sterku liði með nánast sama kjarna í fjölda ára?

Ekki aldeilis. Og þó það sé ósanngjarnt, eiga þeir félagar á hættu að enda bara í sama kassa og Carmelo Anthony á skjalasafninu þegar allt er talið. Rykuga kassanum sem er úti í horni á lagernum og enginn skoðar. Kassanum sem allt eins gæti verið merktur "bleh" með þykkum svörtum túss.

Þetta er skelfileg tilhugsun.

---------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Blekking Dion Waiters lýsir sér þannig að hann er með þá meinloku fasta í höfðinu á sér að hann sé hæfasti leikmaðurinn inni á hvaða körfuboltavelli sem hann stígur inn á og það er alveg sama hvað hann gerir sig að miklu fífli, hann mun aldrei horfast í augu við það að hann er ekki stórstjarnan sem hann heldur að hann sé - heldur þvert á móti frekar lélegur körfuboltamaður, hvers dagar verða mjög líklega taldir í deildinni þegar samningur hans rennur út á næsta ári.