Sunday, May 3, 2015
Clippers áfram - Spurs í frí
Ef við eigum að vera alveg hreinskilin, bjuggumst við ekki við þessu. Við áttum frekar von á því að þurfa að skrifa um það af hverju Clippers væri dottið snemma út úr úrslitakeppninni enn eitt árið. Spá í það hvernig dóma Chris Paul og restin af liðinu fengju ef þeir féllu úr í fyrstu umferð.
En annað kom á daginn. Það er Clippers sem varð í nótt síðasta liðið til að tryggja sér sæti í annari umferð úrslitakeppninnar með 111-109 sigri á San Antonio og setja þar með punktinn aftan við eina bestu seríu sem háð hefur verið í fyrstu umferð. Sumir segja þá bestu, t.d. Zach Lowe á Grantland.
Það var alveg í takt við annað í þessu einvígi að úrslitin skuli hafa ráðist einni sekúndu fyrir leikslok og við slík tækifæri verður ekki hjá því komist að finna hetjur og jafnvel skúrka. Látum það eiga sig að tala um skúrka og setjum fókusinn frekar á það jákvæða - á hetjuna Chris Paul.
Það var jú Chris Paul sem tryggði Clippers sigurinn með undrakörfu einni sekúndu fyrir leikslok, þrátt fyrir að vera haltrandi um á annari löppinni vegna meiðsla á aftanverðu læri. Hvernig drengurinn kom þessu skoti framhjá Tim Duncan er okkur hulin ráðgáta, hvað þá hvernig í ósköpunum hann fór að því að koma þvi ofan í körfuna.
Þetta einvígi er búið að vera lygilegt. Við vorum undir það búin að sjá Clippers detta út, því okkur fannst San Antonio stýra því lengst af, þó margir séu ósammála því.
Chris Paul (27 stig) var ekki á því að tapa þessu. Hann er búinn að fá nóg af því og ætlar sér lengra. Líka Blake Griffin, sem bauð upp á aðra þrennuna sína í einvíginu: 24/13/10. Þessir tveir eru í hópi allra bestu körfuboltamanna heims og það sem meira er, þeir eru búnir að sýna það í úrslitakeppninni.
Allt pískur um að Chris Paul skreppi eitthvað saman þegar spennan eykst í mikilvægum leikjum hefur væntanlega verið kæft með frammistöðu hans í síðustu tveimur leikjum.
Sá hefur andað léttar þegar ljóst var að þeir færu áfram, pressan á honum er alltaf að aukast. Raunar andaði hann svo mikið léttar að hann felldi tár.
Svona var mikið undir hjá honum og það bara kom ekkert til greina að tapa þessu. Þá er bara næsta mál á dagskrá, að vinna Houston Rockets og koma sér í úrslit Vesturdeildarinnar í fyrsta skipti á ferlinum.
Við bjuggumst ekki bara við sigri Spurs í þessu einvígi, við vorum satt best að segja að vona að Duncan og félagar færu áfram, því okkur fannst San Antonio líklegra til afreka í næstu umferðum. Þetta varð allt líklegra eftir að Chris Paul tognaði aftan á læri og var haltrandi út um allt.
Doc Rivers er strax búinn að gefa það út að Chris Paul verði sennilega ekki með í fyrsta leik Clippers í Houston í annari umferðinni. Sú rimma hefst strax á mánudagskvöldið og því er lítill tími fyrir Clippers að sleikja sárin og enn minni tími fyrir Paul að jafna sig.
Við vitum öll að svona aftanílærisvesen tekur alltaf nokkrar vikur og við vitum líka að Clippers - með alla sína ENGA breidd - á engan möguleika í framhaldinu án besta leikstjórnanda heims.
Hann er alfa og ómega í öllum aðgerðum liðsins, fyrir svo utan það að hann er eini hreinræktaði leikstjórnandinn í leikmannahópnum. Framkvæmdastjóra-Doc fær litlar þakkir frá þjálfara-Doc vegna þessa.
Þið vitið kannski að við höfum enga óbilandi trú á liði Houston og hefðum mjög líklega tippað á Clippers í þeirri rimmu.
Nú er hinsvegar ljóst að Chris Paul verður mjög takmarkaður á næstunni. Hann missir af fyrsta leiknum og kannski fleirum og okkur sýnist útséð með það að hann verði heill það sem eftir er af úrslitakeppninni.
Paul er nýjasta fórnarlamb meiðslabölvunarinnar í NBA. Hún verður ekki stöðvuð (Curry og Bogut hjá Warriors eru næstir). Eins og við erum búin að segja sexhundruð sinnum áður: Þessi meiðsli hættu að vera fyndin fyrir jól, en núna er þetta bara orðið asnalegt. Þetta er langstærsti meiðslafaraldur sem riðið hefur yfir deildina á síðustu 30 ár og er bókstaflega að eyðileggja tímabilið.
En hvað verður nú um San Antonio?
Þeir voru alveg sorglega nálægt því að fara áfram, lærisveinarnir hans Pop, en þetta datt ekki með þeim að þessu sinni.
Og við vorum löngu búin að segja ykkur af hverju þetta er ekki ár Spurs. Þetta lið stoppar aldrei lengi við í úrslitakeppninni ef lykilmennirnir eru ekki heilir, það hefur sýnt sig aftur og aftur á undanförnum árum. Meiðsli Tiago Splitter og Tony Parker voru víst meira en liðið réði við.
Nú fara leikmenn San Antonio bara á Benidorm og chilla í smá tíma, en nokkrir þeirra þurfa líka að fara upp á kontór og skrifa undir nýja samninga við félagið.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig það gengur, en forvitnilegast af þessu öllu er hvort þeir Tim Duncan og Manu Ginobili ætla yfir höfuð að halda áfram að spila körfubolta, 39 og 37 ára gamlir.
Þeir eru á ólíkum stað gömlu félagarnir. Ginobili (8 stig, 35% skotnýting gegn Clippers) virkaði frekar andlaus og mistækur í seríunni við Clippers, en Duncan var mjög traustur (18/11meðaltal og 59% skotnýting gegn Clippers). Það magnaða við Duncan er að hann er að skila mjög svipaðri tölfræði í deildarkeppninni í vetur og hann gerði fyrir tíu árum per 36 mínútur. Stórmeistari og galdramaður.
Af því Duncan spilaði svona vel í vetur, væri eiginlega synd ef hann gæfi bara skít í þetta og hætti. Hann er nefnilega betri en enginn. Sumum finnst kannski gert of mikið úr hæfileikum Duncan, en það er bull og vitleysa, hann er búinn að spila eins og engill í vetur og gerir hellings gagn ennþá. Þess vegna á hann ekkert að hætta. Taktu eitt tímabil í viðbót, gamli! Þú hefur bara gaman af því!
Efnisflokkar:
Blake Griffin
,
Chris Paul
,
Clippers
,
Manu Ginobili
,
Spurs
,
Tim Duncan
,
Úrslitakeppni 2015
,
Veiðiferðir