Monday, May 4, 2015

Frá Kerr til Curry



Við erum alltaf að pæla í því annað slagið hvernig það hefði verið ef gömlu hetjurnar í NBA deildinni væru að spila í dag, sérstaklega skytturnar. Við minntumst á það hér fyrir ekki svo löngu að menn eins og Drazen Petrovic heitinn hefðu heldur betur blómstrað í NBA í dag, þar sem allir leikmenn eru með græna ljósið á að skjóta nær ótakmarkað fyrir utan. Menn eins og Drazen hefðu ekki látið sér nægja að skjóta boltanum - hann hefði sett hann ofan í líka.

Annað slagið rekumst við á sögur, staðreyndir eða statt sem fá okkur til að horfa um öxl. Dæmi um slíkt gerðist í kvöld þegar það lak út að Stephen Curry yrði kjörinn MVP í NBA í ár, sem kemur ekkert á óvart. Einn liðurinn í því sem gerir Curry svona góðan er náttúrulega þriggja stiga skotin hans, en hann bætti metið yfir flesta þrista á tímabili um daginn (gamla metið setti hann sjálfur árið áður).

Þá varð okkur hugsað til þjálfarans hans Stephen Curry, Steve Kerr. Þeir sem muna eftir seinni titlaþrennu Chicago Bulls frá 1996 til 1998 muna sannarlega eftir Kerr - gjarnan galopnum í horninu að taka skot eftir að Michael Jordan var þrídekkaður. Kerr lét ekki þar við sitja og flutti sig um set til San Antonio þegar Jordan hætti árið 1998.

Það var kannski ekki sami glans á Spurs og hafði verið á Bulls, en liðið vann nú samt meistaratitilinn á verkbannsárinu ömurlega árið 1999 og því vann Kerr meistaratitilinn fjórum sinnum í röð, sem er einstakt. Hann bætti meira að segja einum titli við með Spurs á lokaárinu sínu í deildinni árið 2003.

En þá að því sem við vorum að hugsa um. Steve Kerr var alltaf þekktur sem rosaleg þriggja stiga skytta og það var svo sem engin furða, hann er jú með bestu þriggja stiga nýtingu í sögu deildarinnar.



Það var hinsvegar sama hversu góðar skyttur menn voru, liðin í deildinni trúðu því ekki að það gæti verið gáfulegt að taka fleiri þriggja stiga skot undir ákveðnum kringumstæðum - sumir þjálfarar trúa því reyndar ekki enn (t.d. Byron Scott).

Í dag þykir hinsvegar ákaflega sniðugt að taka þriggja stiga skot og það ekki síst ef þú ert með eina bestu þriggja stiga skyttu allra tíma í liðinu þínu, mann eins og Stephen Curry.

Það magnaðasta við Curry er í raun og veru ekki nýtingin hans, þó hún sé frábær og dugi honum í þriðja sæti listans. Nei, það klikkaðasta er nýtingin hans miðað við það óguðlega magn af langskotum sem hann tekur.

Þetta er helsti munurinn á Curry og Kerr. Á meðan Steve Kerr var fyrst og fremst maður sem beið í hornunum og setti niður opin skot sem hann tók úr kyrrstöðu, hefur Curry komið með nýja vídd inn í þetta með því að skjóta á fullri ferð upp völlinn, sem gerir það að verkum að varnir fá taugaáfall um leið og hann kemur yfir miðju.

En hvað er Curry þá að skjóta mikið meira en Kerr? Fljótlegasta leiðin er að útskýra það með eftirfarand dæmi. Steve Kerr skoraði 726 þriggja stiga körfur á ferlinum í NBA sem spannaði hvorki meira né minna en fimmtán ár.

Curry er búinn að skora 819 þrista á síðustu þremur tímabilum.

Mætti halda að væru breytingar í gangi.