Saturday, May 2, 2015

Af áratugalangri ógæfu LA Clippers


Rákumst á þessa ljómandi skemmtilegu mynd þegar við vorum á rúntinum um töfraheima internetsins. Í minningunni var þetta Clippers-lið alveg þokkalegt, en við hefðum átt að vita betur. Það var náttúrulega skelfilegt eins og öll Clippers-lið fram til dagsins í dag.

Síðast þegar Clippers gat eitthvað, var það undir stjórn Sam Cassell um miðjan síðasta áratug. Ætli það hafi ekki verið eitt mesta afrek Cassell á ferlinum að fara með Clippers í úrslitakeppnina, svona eftir á séð. Þar áður hafði liðið ekki unnið leik í úrslitakeppninni síðan árin 1992 og 1993 (þar sem það féll úr leik í fyrstu umferð bæði árin).

Myndin hérna fyrir ofan er frá því veturinn 1989-90 og á henni eru Ron Harper (4), Danny Manning (5), Charles Smith (54), Benoit Benjamin (00) og Ken Norman (33). Allir þessir piltar höfðu ljómandi hæfileika og því hefði fólk væntanlega reiknað með að það ætti eftir að standa sig þokkalega.

Ekkert slíkt var þó uppi á teningnum þennan vetur og liðið vann aðeins 30 leiki. Það var kannski skárra en 21 sigurinn árið áður, en engan veginn gott og miklu minna en þessi mannskapur hefði átt að ráða við, því Vesturdeildin var ekki eins sterk þá og hún er í dag.

Þegar við skoðuðum málið nánar, komu hinsvegar tveir hlutir í ljós sem útskýrðu vandræðaganginn á Clippers veturinn 1989-90.

Annar hluturinn var meiðsli, en svo virðist sem menn hafi líka meiðst á 20. öldinni, þó það væri ekkert í líkingu við faraldurinn í dag. Mestu munaði þarna um að hinn frábæri Ron Harper spilaði ekki nema 28 leiki yfir veturinn og raunar spiluðu bara sex menn 70 leiki eða meira.

Hitt atriðið er enn augljósara eftir á að hyggja og það var aldurinn á leikmönnum liðsins. Helsta ástæðan fyrir því að þetta Clippers-lið gat ekki drasl, var að það var nákvæmlega engin reynsla í hópnum. Tveir leikmenn liðsins (annar þeirra Benoit Benjamin) höfðu fjögurra ára reynslu, þrír þriggja ára reynslu og restin eins, tveggja eða enga reynslu.

Ekki gekk liðinu betur árið eftir, þegar það vann aðeins 31 leik, en það náði loksins 50% vinningshlutfallinu á áðurnefndum tímabilum þegar það komst í úrslitakeppnina 1992 og ´93.

Þá var líka komin talsvert meiri reynsla í hópinn en var þremur árum áður.

Árið 1992 voru þeir Harper, Manning, Norman og Charles Smith allir enn hjá Clippers, en þeim til aðstoðar voru komnir menn á borð við miðherjann Olden Polynice (í stað Benjamin) og leikstjórnandinn knái Doc Rivers frá Atlanta.

Þessi velgengni, ef velgengni skyldi kalla (liðið tapaði 3-2 í fyrstu umferð bæði árin), entist auðvitað stutt. Við erum jú einu sinni að tala um LA Clippers. Liðið vann 27 leiki árið 1994 og hrundi niður í 17 sigra árið 1995.

Þegar Clippers komst í úrslitakeppnina árið 1992, hafði það ekki komist í úrslitakeppnina síðan árið 1976 þegar það hélt Buffalo Braves. Það hét meira að segja San Diego Clippers í sex tímabil eftir að það var í Buffalo, en komst sjaldnast nálægt því að komast í úrslitakeppnina.

Það verður bara að segjast að það er dálítið lélegt að lið komist ekki úrslitakeppnina á þeim tíma sem það tekur það að flytja tvisvar í nýja borg og skipta einu sinni um nafn (Braves => Clippers).

Og ekki tók betra við eftir tímabilin ´92 og ´93, því þá fylgdi annað þurrkatímabil í kjölfarið. Clippers komst nákvæmlega tvisvar í úrslitakeppnina frá 1993 til 2012.

 Árið 1997 slefaði það óvart inn í úrslitakeppnina þrátt fyrir að vera með hræðilegan árangur í deildinni og við vorum áður búin að segja ykkur frá Spútnikliði félagsins með Sam Cassell árið 2006.

2006-liðið var eina Clippers-liðið sem komst í aðra umferð úrslitakeppninnar frá árinu 1976 til ársins 2012! Það er svo afleitur árangur að það verður eiginlega að flokka hann sem afrek, því ekkert lið annað en Clippers hefði náð að geta ekkert áratugum saman þrátt fyrir að vera ALLTAF í lotteríinu og takandi menn mjög snemma í nýliðavalinu.

Já, það hefur aldrei verið tekið út með sældinni að vera stuðningsmaður LA Clippers.

Gott dæmi um það eru menn eins og Billy Crystal, sem fór frá því að vera gamanleikari yfir í að verða einn leiðinlegasti maður á jörðinni - alveg bókað út af öllum Clippers-leikjunum sem hann sá á þessum mögru árum.

Í dag er auðvitað allt annar bragur á félaginu eftir að það var keypt af manni sem var hvorki elliær mannhatari né nískupúki sem vildi bara eiga félagið til að moka út úr því peningum og vera drullusama um allt annað (en að níðast á öðru fólki, helst minnihlutahópum).

Samt er alveg spurning hvort það er ráðlegt fyrir stuðningsmenn liðsins að sleppa tökunum og treysta nýja eigandanum og örlögunum, vitandi hvernig saga félagsins er þyrnum (og jarðsprengjum) stráð.

Hvað sem því líður vonum við að þessari áratugalöngu þrautargöngu Clippers sé alveg lokið og ekkert nema sæti í úrslitakeppninni verði á döfinni hjá því á næstu árum. Þó ekki væri nema bara til þess að sýna okkur að meðaltalslögmálin séu ekki fallin úr gildi.