Þetta einvígi heldur bara áfram að gefa...
San Antonio og LA Clippers buðu upp á enn einn naglbítinn í nótt og aftur var boðið upp á skemmtilegt tvist, sem fáir áttu kannski von á að sjá. Clippers náði að vinna í San Antonio 102-96 og jafna metin í seríunni í 3-3. Við erum því að fara í oddaleik á miðnætti á laugardagskvöldið, sem verður talsvert stærri viðburður en Bardaginn sem hefði átt að fara fram fyrir sjö árum.
Eins og þessi sería hefur verið frábær, á það eftir að koma okkur þráðbeint í þunglyndi þegar annað þessara liða fellur úr keppni á laugardaginn. Það er af því við vitum upp á hár hvaða stefnu umræðan tekur varðandi tapliðið.
Ef San Antonio tapar, öskra menn ÞEEEEETT´ERBÚIÐ! - og byrja að skrifa minningargreinar um San Antonio í fjögurhundruðasta skipti, til þess eins að fá þær í andlitið árið 2021 þegar liðið vinnur næsta titil með 45 ára gamlan Tim Duncan í miðjunni.
Þessi skrif verða óhjákvæmilega blanda af nostalgíu og þunglyndi. Var þetta síðasti dansinn hjá Spurs? Hætta Duncan og Manu (og Pop)? Þið vitið, eintóm leiðindi, þannig séð.
Á meðan San Antonio gæti svo sem alveg riðið inn í sólarlagið með alla sína titla og lokið keppni með sæld, er ekkert slíkt uppi á teningnum hjá Clippers.
Þar á bæ verður engin rómantík, bara aftökur og frussu-drull í allar áttir frá öllum mögulegum pennum, hvort sem þeir skrifa um körfubolta, hestaíþróttir eða hokkí. Eins vel og þeir eru búnir að spila, verða Chris Paul og Blake Griffin teknir af lífi til skiptis. Þeir verða svona eins og vankaða sæljónið sem háhyrningarnir nota sem tennisbolta í tíu mínútur áður en þeir éta það lifandi.
Það verður ekki vottur af sanngirni í því frekar en öðru á Twitter-öldinni, þar sem ekkert kemst að nema skyndiaftökur, alhæfingar og gífuryrði - þú ert annað hvort Michael Jordan eða mesti aumingi í heimi.
Sko...
Það getur vel verið að Clippers hafi einhvern tímann átt skilið smá drull, við gagnrýndum liðið t.d. nokkuð harðlega í fyrra ef við munum rétt. En fari svo að liðið tapi á laugardaginn (fyrir meisturunum), er ekki sanngjart að ætla að taka fram sveðjuna og byrja að höggva leikmennina niður.
Jú, jú, það getur vel verið að Clippers sé með versta bekk síðan... ever... og það getur vel verið að menn eins og Jamal Crawford séu mestmegnis búnir að drulla á sig í seríunni og vissulega getur verið að DeAndre Jordan sé með skarð á stærð við Þistilfjörð í leik sínum þegar hann getur ekki drullast til að hitta úr öðru hverju vítaskoti sem hann tekur.
En munurinn á Clippers núna og undanfarin ár hjá okkur, er að liðið var miklu þéttara í ár en fyrri ár. Það er betra varnarlega og stjörnurnar hafa verið að spila af sér anusana.
Chris Paul hefur oftast leikið mjög vel í úrslitakeppninni en það er alltaf eitthvað sem kemur í veg fyrir að hann fari áfram í keppninni.
Í fyrra átti hann sjálfur þátt í skitu Clippers, en að þessu sinni er ekkert svoleiðis í boði. Gaurinn er búinn að vera í lás í allt vor og klórar úr þér augun og hoppar ofan á þeim í takkaskóm ef þú ætlar að standa í vegi fyrir honum.
Helsta ástæðan fyrir auknum styrk Clippers er svo ungstirnið Blake Griffin, sem hefur farið hamförum á móti Spurs.
Hann bauð upp á smá prump í 4. leikhluta í fimmta leiknum, en þið megið ekki gleyma því að hann er kraftframherji en ekki bakvörður.
Hann getur ekki bara tekið boltann og gert hvað sem hann vill við hann, þó hann geri það stundum í hraðaupphlaupum. Það hefði einhver mátt reyna að segja okkur að Griffin ætti eftir að bjóða upp á 24 stig, 13 fráköst, 7 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 2 varin skot að meðaltali í leik í fyrstu sex leikjunum við Spurs. Og gaurinn er með flensu...
Við vitum að mörg ykkar þola manninn ekki og hafið eflaust góðar og gildar ástæður fyrir því, en mikið fjandi er hann orðinn góður í körfubolta. Því er ekki hægt að neita.
Stóra fréttin við leik sex hjá Spurs var að gömlu góðu stjörnurnar hjá liðinu voru bara farþegar í þessum leik. Þeir gerðu nánast ekki neitt og létu þess í stað menn eins og Marco Belinelli og Boris Diaw bara sjá um þetta fyrir sig. Og það var næstum því nóg. En samt ekki.
Við vitum alveg að Parker og Splitter eru ekki heilir, en hversu góða möguleika haldið þið að Spurs eigi í sjöunda leiknum ef Tim Duncan, Manu Ginobili og Tony Parker skora ekki meira en 23 stig á milli sín. Nú eða að Duncan, Ginobili, Parker og Leonard (3 af 15 fg) verði ekki með nema 35 stig samtals. Það er mjög góð breidd í liði Spurs, en ef fernan þeirra frækna spilar ekki betur en þetta, er einvígið búið.
Okkur gæti faktískt ekki verið meira sama um hvernig þetta einvígi fer, við viljum bara fá áframhaldandi gæði í einn leik í viðbót.
Sigurvegarans bíður svo deit við Houston, sem hefur verið að spila ofar væntingum má segja, en sú sería byrjar strax á mánudaginn.
Það verður ekki létt dæmi fyrir eldgamla Spurs-ara eða Clippers með enga breidd (ekki eykst hún í fjarveru Tröllabarnsins sem fékk meiddi í kvöld eins og allir hinir).
Við segjum bara hallalúja yfir þessu einvígi. Þetta er botnlaust festival og flottheit og sama hvernig serían fer, eiga bæði lið skilið tröllakúdós fyrir frábæra rimmu. Sjáumst á laugardagskvöldið!