Thursday, March 5, 2015

Russell Westbrook í sögulegu samhengi


Ef þú heldur að það sé okkur að kenna að þú sért að reka augun í enn einn Westbrook-pistilinn, veður þú um í villu og svíma. Við höfum ekkert með þetta að gera, það er Russell Westbrook sem er að þvinga okkur að lyklaborðinu.

Það er leitun að öðrum eins Westbrook-aðdáendum og okkur, en spilamennska drengsins undanfarinn mánuð er að þvinga æ fleiri efasemdamenn og konur inn á málstað hans. Málstað hins óbeislaða atmennis.

Það er gaman að standa hérna núna og fylgjast með öllum nýliðunum í aðdáendaklúbbi Westbrook, sem sumir hverjir hafa ekki gert annað en drulla yfir hann allar götur síðan hann kom inn í deildina. Hann var jú bara óagaður og skotglaður hrokagikkur sem kunni ekki að leika við hina krakkana og vissi ekki hvenær hann átti að hætta. Jú, jú, þetta passar allt við Westbrook.

Þið vitið það ósköp vel að við erum búin að vera að blása í Westbrook hornið lengi og því er það okkur sérstök ánægja að sjá alla hræsnarana sem eru að hrinda hvor öðrum úr vegi núna til að komast um borð í Russ-vagninn. Nú þegar drengurinn er að sprengja alla skala á körfuboltavellinum. Ætli sé ekki best að segja það bara. Við sögðum ykkur þetta! Og hana nú.

Við ætlum ekki að eyða sérstökum tíma í að fara yfir tölfræðina hans Westbrook, fólk sem fylgist á annað borð með NBA deildinni veit að drengurinn er nokkurn veginn búinn að vera í 30/10/10/2 meðaltali síðan í byrjun febrúar og var að klára fjórðu þrennuna sína í röð með gat á hausnum þegar þetta er skrifað. Með gat á hausnum, já.

Þegar NBA-leikmenn fara á svona rosalegt flug, verðum við að koma ykkur til aðstoðar, skilgreina geðveikina, hjálpa ykkur að lesa út úr henni og setja hana í samhengi.Russell Westbrook er að spila nokkurn veginn eins vel og hægt er að spila körfubolta á síðasta rúma mánuðinum og hann er að gera það algjörlega á sinn hátt.

Eini gallinn við þetta hjá honum er að Oklahoma er ekki búið að vinna nógu marga leiki og mun ekki vinna nógu marga leiki til að hann geti komið til greina sem leikmaður ársins, en bæði honum og okkur er alveg sama um það. Hann er með í MVP-umræðunni og það er út af fyrir sig nóg.

Oklahoma má samt ekki tapa nema 2-3 leikjum til vors ef hann á að eiga raunhæfa möguleika á nafnbótinni og það er ekkert að fara að gerast. Látum það samt ekki hafa áhrif á þetta fallega dæmi um íþróttafræðilegan exelans.

Þessi rispa hjá Westbrook núna er endanlega að knýja okkur til að setja hann í sögulegt samhengi sem leikmann, löngu áður en hann er hættur að spila, sem er alveg sérstakt. Þú setur leikmenn ekkert í endanlegt samhengi fyrr en nokkrum árum eftir að þeir hætta að spila. Þannig erum við búin að setja Larry, Magic og MJ í samhengi, en eigum enn nokkuð í land með að setja menn eins og Dirk, Nash, Duncan og Kobe í samhengi þó þeir séu á síðustu metrunum.

Sumir leikmenn eru hinsvegar svo sérstakir og láta svo dólgslega að þeir neyða okkur til að setja sig í einhvers konar samhengi meðan þeir eru enn á hátindi ferils síns eða þar um bil. Fólk er til dæmis að gera það með LeBron James á hverjum degi, sem er ekki óeðlilegt, því menn eins og hann koma fram á áratuga fresti. Skilgreiningarnar sem við erum að vísa í eru ekki endilega pælingar um hvar eigi að setja þessa leikmenn á lista bestu körfuboltamanna allra tíma eða þess háttar.

Við vitum að LeBron James á eftir að fara hátt á þeim lista áður en yfir lýkur, en við þurfum líka að skilgreina hann sem íþróttamann og skoða hvernig hann kemur út í samanburði við aðra leikmenn sem spila/spiluðu sömu leikstöðu. Það gefur augaleið að James fer á lista mjög sérstakra leikmanna hvað þetta varðar af því hann er fyrirbæri sem getur spilað flestar stöður á vellinum.

Ætlun okkar með þessari stuttu hugleiðingu um Russell Westbrook er því ekki endilega að ákveða hvar við eigum að setja hann á lista bestu leikstjórnenda heimsins, þó hann sé vissulega að rífa dálítið kjaft hvað það varðar með þessari óguðlegu spilamennsku sinni. Okkur langaði meira að skoða Westbrook sem leikmann og íþróttamann og kanna hvort og þá hvenær við höfum séð annað eins apparat og hann á körfuboltavellinum áður.

Svarið við þessari spurningu er einfaldlega nei.

Og það er ekki bara hrokinn í okkur sem segir það. Við mönum ykkur reyndar til að finna jafnoka Westbrook í NBA sögunni, af því þið getið það ekki - og við vitum það ósköp vel.

En af því við erum ekki búin að fylgjast með NBA deildinni í nema aldarfjórðung eða svo, væri eðlilegra að heyra málstað eldri og reyndari manna í þessum efnum.

Og hann höfum við heyrt hundrað sinnum. Það er nefnilega þannig að Westbrook hefur dúkkað upp sem umræðuefni fyrr eða síðar í öllum NBA útsendingum síðustu vikur, ekki bara leikjunum sem hann hefur spilað, heldur öllum leikjum. Það er alveg sama hvort um er að ræða gamla hunda eins og Jim Barnett (aðstoðarlýsanda Warriors og fyrrum leikmann Celtics) og afa gamla Ralph Lawler (lýsanda LA Clippers til áratuga) eða leikmenn sem spiluðu í NBA deildinni á 9. og 10. áratugnum. Allir eru sammála um að þeir hafi aldrei séð annað eins.

Þetta "annað eins" sem við erum að tala um er í stuttu máli handsprengjan Russell Westbrook. Leikstíll hans, líkamlegir yfirburðir. úthald, tölfræði, at og grimmd.

Áður en þið fáið Jordan-flogið ykkar, er best að taka fram að það fór ekkert framhjá okkur hvernig Michael Jordan, Kobe Bryant og Allen Iverson spiluðu körfubolta.

Þeir voru hvor um sig algjör náttúrufyrirbæri, ekki síst í stigaskorun. Allir eru þeir mjög grimmir og heimsklassa íþróttafræðileg eintök. Enginn þeirra spilaði samt með sömu blöndu af heift og hömluleysi og Russell Westbrook.

Við erum ekkert búin að gleyma því hvernig Jordan vildi rífa hausinn af mótherjum sínum, en þó hann hafi verið magnaður, var alltaf ákveðin ljóðræna, mýkt og útsjónarsemi í leik hans. Svipaða sögu er svo auðvitað að segja af Kobe Bryant, því hann apaði jú allt sem virkaði eftir Michael Jordan.

Iverson var ekki jafn ljóðrænn, en hann er tvímælalaust sá leikmaður sem kemst næst Westbrook í atferli. Það var meiri reiði og meira Breiðholt í Iverson, meiri hrein sprengja og minni ballett. Iverson var enda allt öðruvísi leikmaður en Jordan og Bryant, þó hann spilaði tæknilega sömu stöðu og þeir.

Eini leikmaðurinn í NBA deildinni í dag sem kemst nálægt Westbrook er Derrick Rose. Kannski ekki Derrick Rose "í dag" - meira Rose frá MVP-árinu sínu forðum. Rose er ekki bara hæfileikaríkur leikmaður, heldur er hann partur af eina prósentinu - mestu íþróttamönnum sem spilað hafa í NBA frá upphafi. Sjáðu þetta bara - þetta er ekkert eðlilegt:Stuðningsmenn Chicago segja þér að Rose sé ekkert síðri íþróttamaður en Westbrook og það má alveg þræta um það, en aumingja Rose stoppaði stutt við í elítunni og virðist aldrei ætla að jafna sig af þrálátum meiðslum. Menn hafa hreinlega kastað því fram að burðarkerfi Rose hafi ekki þolað sprengikraftinn í honum og það er alls kostar ógalin kenning.

Það er hinsvegar ekki nóg að hoppa rosalega hátt og setja niður sæt sniðskot. Það geta margir. Það sem tryggir Westbrook stöðu feti fyrir ofan áðurnefnda leikmenn er þessi stórhættulega blanda af rosalegum líkamlegum styrk, snerpu og úthaldi í bland við leikstíl sem er knúinn áfram af sífelldri og óbeislaðri heift og fullkomnu samviskuleysi.

Körfuboltamenn sem ná langt gera það jafnan út á íþróttamennsku, grimmd og sjálfstraust, en hjá Russell Westbrook er þetta ómennsk íþróttamennska, heift og samviskuleysi á við sýkópata.

Russ getur alltaf hlaupið hraðar en þú og hoppað hærra og hann verður aldrei þreyttur og það út af fyrir sig er alveg nóg fyrir hvaða mótherja sem er.

Það sem fer hinsvegar alveg með þetta er að drengurinn spilar eins og þú hafir sparkað í dóttur hans OG mömmu hans í Kringlunni og honum er gjörsamlega skítsama þó hann geri mistök, sem er annað atriði sem gerir hann svona hættulegan.

Hvað eftir annað sjáum við hann klikka illa á 8-10 skotum í röð í sókninni, en honum er SKÍT-sama. Þó hann kasti boltanum upp í þriðju röð og láti stela honum af sér fjórar sóknir í röð? SKÍT-sama. Hann bara setur undir sig hornin og heldur áfram að reyna að skrapa af þér húðina með bitlausu rifjárni og hella blásýru í sárin.

Hvernig á að vera hægt að dekka leikmann sem er með þennan líkamlega kokteil, fullt af hæfileikum, lífseigari en minkur og brjálaðari en Hulk að fá stöðumælasekt í Borgartúninu? Við skulum bara segja að það sé ekki uppskrift að neinu kósíkvöldi.

Nei, ungur Michael Jordan, ungur Kobe Bryant, Derrick Rose og Allen Iverson eru allir magnaðir á sinn hátt, en Westbrook er klikkaður og dýnamískur, eins og handsprengja í fuglabúri. Og ef við þurfum endilega að finna mann sem er með svipaðan pakka og hann, þurfum við að fara aftur á níunda áratuginn.

Okkur finnst ekki langt síðan, en samt er það nú þannig að mörg ykkar voru ekki einu sinni fædd þegar Mike Tyson var að rota fyrstu mennina sína sem atvinnumaður í hnefaleikum. Hann var svona eins og Westbrook, nema hann var auðvitað með bókstaflega lífshættulega blöndu íþróttamennsku, styrks og krafts, knúna áfram af blindaðri heift. Enginn þungavigtarhnefaleikari hefur komist nálægt Tyson hvað þetta snertir á þessum þrjátíu árum á sama hátt og enginn körfuboltamaður er með þessa sömu blöndu og Westbrook.

Mike Tyson var fyrirbæri. Og eins og þið vitið, förum við ekki frjálsleiga með hugtakið fyrirbæri. Til að geta kallast fyrirbæri (skv. okkar hugmyndafræði), þurfa íþróttamenn að uppfylla eitt þriggja skilyrða:

1. Vera svo góðir í sinni grein að þeir bylta henni - setja nýja staðla á sínu sviði eða í sinni stöðu. Jordan, Ali, Tiger og Diego Maradona.

2. Vera fyrirbæri á þann hátt að þeir leka á milli hólfa og fá fræðinga til að klóra sér í höfðinu, til dæmis vegna þess hve fjölhæfir eða einstakir þeir eru. Dæmi um þetta eru menn eins og Magic Johnson og LeBron James.

3. Vera hrein og klár fyrirbæri frá náttúrunnar hendi á líkamlegan og/eða andlegan hátt. Dæmi um svona menn eru Wilt Chamberlain, Shaquille O´Neal*, Mike Tyson og nú Russell Westbrook.

Aðeins tveir körfuboltamenn hafa þennan Tyson-faktór í sér og það eru Shaquille O´Neal og Russell Westbrook. Russ af ofangreindum ástæðum, Shaq af því að hann er líkamlegt fyribæri sem hefur ekki sést áður í sportinu (Wilt var fullkomlega í ruglinu á sínum tíma, en það voru aðrir tímar). Líkurnar á því að maður með íþróttafræðilega pakkann hans Westbrook skuli líka vera með fyrirbærafræðilega pakkann á andlega sviðinu eru stjarnfræðilegar, en hann er einn af hundrað milljónum með það.

Þér finnst kannski dálítið tæpt að setja Westbrook í hóp með svona goðsögnum, en þú verður líka að hafa í huga að þetta er ekki listi yfir bestu íþróttamenn sögunnar (þó margir þeirra séu þarna), heldur menn sem einhverra hluta vegna hafa unnið sér það inn að geta kallast fyrirbæri.

Það tók Westbrook góðan tíma að komast inn fyrir íhaldssama fagurfræðiskel okkar sem vill helst að körfuboltamenn spili leikinn "eins og á að gera það" en Russ gerði það sama og menn eins og Allen Iverson og Zlatan Ibrahimovic gerðu á undan honum. Hann neyddi okkur á vagninn sinn með því að vera sá sem hann er. Vera Russ.

Gagnrýnendur Russell Westbrook í gegn um árin hafa alltaf haft nóg af skotfærum á hann eins og við komum inn á áðan. Það er alltaf hægt að benda á lélega þriggja stiga nýtingu, lélegt (stundum glórulaust) skotval, tapaða bolta, skapsveiflur og atferli sem gagnast liði hans illa, en þessi umræða endar oftast á sama stað.

Það er ekki hægt að gera keppnismann úr körfuboltamanni sem er ekki víraður þannig, en með mikilli smá vinnu er hægt að stýra eldingum eins og Westbrook og beina þeim á rétta braut.

Neikvæða liðið - the haters - segja að Russell Westbrook verði aldrei NBA meistari af því hann sé allt of villtur og agalaus. Það getur meira en verið, en vitið þið hvað?

Okkur er skítsama.

Þessi pistill fjallar ekki um meistaratitla, hann fjallar um fyrirbæri. Við værum sannarlega til í að Russell Westbrook fengi að upplifa að vinna meistaratitil, en það er í alvörunni bara aukaatriði. Í stað þess að vera með svona bölvaða neikvæðni og hatast út í Russ, væri nær að halda kjafti og njóta þess að horfa á hann spila. Á hverju einasta kvöldi.

Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni sem fá fólki til að kveikja á Sixers-leikjum í sjónvarpinu, en Russ er einn þeirra. Leikur Oklahoma og Philadelphia í gær er gott dæmi um þetta. Twitter var á kafi í þeim leik þó væri fjöldi annara leikja í gangi og margir þeirra talsvert áhugaverðari á pappírunum en Sixers-ruslið.

Og Westbrook olli engum vonbrigðum frekar en venjulega. Hann skemmti áhorfendum með glæsilegum tilþrifum og fyllti tölfræðiskýrsluna út með vélbyssu. Og þess vegna elskum við Russ.

Við elskum Russ af því hann er svo hrottalega mikill Russ. Undanfarið hefur hann verið meira Russ en nokkru sinni fyrr og við vonum að hann Russ-i áfram um ókomna tíð, þessi dýnamískasti skemmtikraftur NBA deildarinnar.

Megi Russ verða Russ,
að eilífu,
#Russ

-----------------------------------------------------------------------

Það er dálítið skrítið að fjölmiðlar og körfuboltaaðdáendur séu enn ekki búnir að finna viðurnefni á Russell Westbrook - mann með jafn afgerandi og áberandi leikstíl og lundarfar og hann. Eina viðurnefnið sem við höfum heyrt mátað á hann kemur frá Jalen Rose, sem kallar hann Furious Styles. Nafnið sjálft passar nokkuð vel á Russ, en hann á ekkert sameiginlegt með manni með sama nafni sem Larry Fishburne lék í kvikmyndinni Hverfisdrengirnir forðum.

Bandarískir fjölmiðlar láta það kannski flækjast fyrir sér að finna gott nikk á Russ, en við vorum enga stund að því. Það liggur náttúrulega þráðbeint við að kalla hann The Viper, enda á hann mjög margt sameiginlegt með þeirri ágætu tegund skriðdýra.Við munum ekki betur en að viper sé þýtt sem naðra á íslensku, sem gengur reyndar alls ekki, því naðra er undirförul manneskja í íslensku en ekki snákur sem enginn hefur séð með berum augum. Skítt að geta ekki notað nafnið á íslensku, því þið vitið að við kjósum helst að hafa hlutina á tungunni okkar ef við getum  - samanber viðurnefni eins og Ástþór (Kevin Love) og Brúnar (Anthony Davis).

Það getur vel verið að Kobe Bryant hafi verið Black Mamba á sínum tíma, en ekki taka því svo að við séum að herma eftir því með því að finna slöngunafn á Russ. Þetta nafn fer honum mjög vel og það er meira að segja svipur með þeim ef þú pælir í því.

Hérna er snákasérfræðingurinn Austin Stevens að vinna með Lensunöðruna, stærstu og skæðustu eitruðu slöngu í Mið- og Suður-Ameríku.Það fyndnasta við þessa líkingu er svo að það er meira að segja til naðra sem heitir Russell´s viper, sem er skaðræðiskvikindi í alla staði og kostar fjölda manns lífið árlega. Þetta gæti ekki verið meira borðleggjandi. Látið það ganga.