Friday, June 27, 2014

NBA Ísland rennir yfir nýliðavalið í nótt


Nýliðavalið í NBA deildinni er eiginlega júróvisjón körfuboltaáhugamanna, nema hvað draftið er auðvitað ekki glórulaus og rándýr rúnkseremónía fyrir plebba þar sem mestmegnis hæfileikalaust og athyglisjúkt pakk keppir í klisjugangi og væli.

Við höfum oftast frekar lítinn áhuga á nýliðavalinu, en við létum blekkjast í ár þar sem fjölmiðlar og þeir sem pína sig í að horfa á háskólaboltann að staðaldri lofuðu okkur að í ár gætu mögulega komið upp strákar sem raunverulega kynnu að spila körfubolta.

Þetta var of gott til að vera satt.

Menn hafa talað um nýliðavalið 2014 sem bombu í nokkur ár og þó mjög margir hafi dregið í land með yfirlýsingarnar um að þetta sé besti árgangur síðan sautjánhundruð og sjö, hefur skrumið og spennan í kring um hann verið með ólíkindum.

Og við létum auðvitað blekkjast af þessu skrumi öllu, eins og vitleysingarnir sem við erum. Það má vel vera að megnið af strákunum í þessu nýliðvali verði drasl, en við höfum nú samt haft lúmskt gaman af að fylgjast með þessu síðustu vikur. 

Ekki hefur vantað dramatíkina í þetta.

Nýliðahópnum í ár er best lýst með orðinu "en."

Það er fullt að mjög spennandi strákum að koma inn í NBA deildina, en hver einn og einasti þeirra er með stórt - og oft á tíðum risastórt - "en" á bakinu á sér. Það er stærsti gallinn við þetta.

Um það bil 78% leikmanna í 2014 árgangnum eru sem sagt: "Frábærir íþróttamenn með ógurlegan faðm, góðan slatta af Tremendous Upside Potential, flottir spilarar, góðir strákar, baráttumenn - EN - geta ekki skotið til að bjarga lífi sínu.

Af því við erum í góðu skapi, ætlum við sem sagt að segja ykkur stuttlega frá því hverju við mættum eiga von á frá strákunum sem teknir voru í fyrri hluta fyrstu umferðarinnar. Eins og við höfum oft sagt ykkur, höfum við takmarkaða vitneskju til að deila um þessa menn af því við þolum ekki háskólaboltann, en það þýðir ekki að við getum ekki blaðrað eitthvað út í loftið eins og venjulega. Hérna eru sem sagt nokkur óábyrg orð um nýliðaárganginn 2014:

Við sögðum ykkur frá óláni kamerúnska miðherjans Joel Embiid fyrir skömmu, en menn voru almennt sammála um að hann hefði farið númer eitt í þessu nýliðavali ef hann hefði ekki meiðst á 87. staðnum korter í draft. 

Þannig voru tveir piltar eftir sem 99% öruggt var að færu númer eitt og tvö - þeir Andrew Wiggins og Jabari Parker. Það gekk enda eftir, Wiggins fór til Cleveland nr. 1 og Parker endaði hjá Milwaukee eins og hann hafði óskað sér (?), þar sem hann var aðeins 80 mínútna akstri frá skúffukökunni hennar mömmu.

Wiggins er ekki eins tilbúinn að koma inn í NBA deildina og byrja að skora eins og Parker, en hann er sagður hafa hæfileika til að verða enn betri leikmaður. Hann er ógurlegur íþróttamaður og fínn varnarmaður, en á sitt hvað eftir ólært í sókninni, ekki síst að fínpússa skotið sitt.  Hann gæti orðið Tracy McGrady eða vonda útgáfan af Larry Hughes, enginn getur spáð fyrir um það. Nema kannski forráðamenn Cleveland, sem eru handvissir um að pilturinn verði osom. 

Það sem er kannski einna neikvæðast við Wiggins, er að menn hafa sett spurningamerki við grimmdina hjá honum. Hún er víst ekki alltaf til staðar, en hún verður að vera það ef þú ætlar að gera eitthvað í NBA deildinni.

Jabari Parker er skorari númer eitt tvö og þrjú og þó stuðningsmenn Milwaukee Bucks séu ógurlega spenntir fyrir því að vera kannski að fá nýja útgáfu af Glenn "Big Dog" Robinson, erum við það ekki. 

Við erum bara ekki hrifin af leikmönnum sem gera lítið annað en að skora, en slappur klúbbur eins og Milwaukee þarf á öllu góðu að halda - líka skorara og stjörnu - og það ætti Parker að skaffa. 

Þá er bara að sjá hvort hann skaffar sigra líka, það hefur ekki verið mikið af svoleiðis hjá Bucks síðustu ár. 

Það eru ekki mörg dæmi um það í sögu NBA að lið sem ætlaði að slá í klárinn og komast í úrslitakeppnina eins og Milwaukee í fyrra, hafi verið lélegra heldur en lið sem höfðu engan mannskap og voru viljandi að reyna að tapa leikjum. Þetta tókst Bucks samt á síðustu leiktíð. 

Andinn hjá Bucks er dálítið eins og hann var hjá Spud þegar hann vaknaði heima hjá tengdó eftir djammið. Vonandi nær Jabari Parker eitthvað að mormóna það upp með brandinu sínu, hvur andskotinn sem það nú er. Verðum samt að gefa drengnum það - hann er með milljón dollara bros. Sjáðu bara myndina.

Forráðamenn Philadelphia halda áfram að ögra stuðningsmönnum Sixers með því að reyna kerfisbundið að halda áfram að vera lélegir. Flestir voru hinsvegar sammála um það að í þessu nýliðavali væri eina vitið að drafta Joel Embiid, því hann væri ÞAÐ góður að hann væri áhættunnar virði. Þessu trúir Philadelphia og því tók félagið Kamerúnmanninn brothætta og heldur bara áfram að sanka að sér púslum fyrir framtíðina. Ársmiðahafar Sixers eru sannarlega þolinmóður ættbálkur.

Orlando setti fyrsta strikið í reikninginn í nótt þegar það ákvað að velja framherjann Aaron Gordon númer fjögur. 

Gordon er einn af þessum spes leikmönnum og gæti orðið frábær eða hræðilegur NBA leikmaður. Sennilega verður hann nú nothæfur, en hann er einn af þessum A+ íþróttamönnum sem kann ekki að skjóta. 

Við verðum að viðurkenna að við erum óhemju hrifin af leik hans engu að síður, því hann er flottur frákastari, varnarmaður og svo er hann með fína boltameðferð og sendingagetu af stórum manni að vera. 

Það verður kannski erfitt að finna honum stöðu á vellinum, en ef hann verður eitthvað í ætt við Shawn Marion eins og margir spá, verður ekki erfitt fyrir hann að fá vinnu.

Ástralska undrið Dante Exum rann í greipar Utah Jazz númer fimm, við mikla gleði Jazzara virðist vera. Exum þessi er Ermolinski-hávaxinn leikstjórnandi með fína hæfileika á íþróttasviðinu, en hann er búinn að spila körfubolta í Ástralíu alla sína hunds og kattar tíð og því hefur enginn hugmynd um hvort drengurinn getur spilað eða ekki. 

Það verður eitthvað undarlegt ef þessi spræki bakvörður verður minna en þrjú ár að læra að spila í NBA deildinni og einhver hljóða viðbrigðin að vera þegar hann fer frá því að spila við umferðarkeilur á menntaskólaaldri yfir í að dekka Russell Westbrook. Hellingur af flopp-möguleikum þarna, en bjartsýnustu skátar líkja honum við Kobe Bryant og Penny Hardaway á sínum yngri árum. Einmitt.

Boston nældi sér í bakvörðinn Marcus Smart og það teljum við afar jákvætt, enda erum við gríðarlega hrifin af þeim leikmanni, það litla sem við höfum séð af honum. 

Flestir eru líklega sammála um að Celtics hafi meira þurft á því að halda að taka stóran mann og eðlilegt er að menn lesi það út úr þessu að nú sé Rondo jafnvel á útleið. 

Hvað sem því líður ætti Smart alveg að geta spilað með Rondo og Avery Bradley. Hann er dálítið Westbrook-klikkaður og er tilbúinn til að hlaupa í gegn um veggi og bryðja glerbrot til að vinna leiki. 

Maður að okkar skapi.

Auðvitað getur hann ekki skotið frekar en aðrir menn í þessu drafti, en hann gerir nánast allt annað mjög vel. Ætti að vera kíper.

Los Angeles Lakers náði sér í Julius Randle númer sjö. Þar er á ferðinni kraftframherji með nokkuð skemmtilegan sóknarleik sem hefur verið líkt við Zach Randolph - kannski ekki síst af því hann er örvhentur og veldur skaða í teignum. 

Eitthvað hefur verið pískrað um að heilsan á honum sé ekki eins og best verður á kosið, en umboðsmenn hafa reynt að þagga það niður. Randle ætti að geta hjálpað Lakers strax, því hann er kallaður einn af þeim leikmönnum í þessu nýliðvali sem er hvað best tilbúinn til að spila í NBA deildinni.

Sumir hafa gagnrýnt ákvörðun Sacramento Kings að eyða áttunda valréttinum í Nik Stauskas, en þeir vildu fá skyttu og skyttu fengu þeir. 

Stauskas þessi á reyndar að vera fjölhæfari skorari en svo að hann geti bara staðið úti í horni og tekið þriggja stiga skot, en hann á auðvitað eftir að svara þessum klassísku skoraraspurningum þegar hann kemur inn í NBA - hvort hann geti frákastað, gefið og spilað vörn. Hvað svo sem því líður, ku drengurinn sannarlega geta skotið.

Noah Vonleh var einn af þessum leikmönnum sem runnu niður töfluna í nótt og enginn getur útskýrt af hverju. Michael Jordan er eflaust yfir sig ánægður með að hana krækt í Vonleh með níunda valréttinum, því þar er hann að fá kraftframherja með ógurlegar hendur og vænghaf sem getur bæði skorað og frákastað nokkuð vel. 

Eitthvað hefur verið kvartað yfir óstöðugleika hjá leikmanninum, en hann verður ekki nítján ára fyrr en í lok sumars, grátandi upphátt! Varst þú svona stöðugur þegar þú varst átján? 

Einmitt.

Tíundi valrétturinn hafnaði hjá Orlando í gegn um Fíladelfíu í formi leikstjórnandans Elfrid Payton. 

Þar er á ferðinni hörku varnarbakvörður sem hefur merkilegt nokk verið líkt dálítið við nafna hans Gary Payton, nema hvað nafn Seattle-bakvarðarins hljómaði auðvitað ekki eins og það væri nafn á sögupersónu úr einni af bókum Ástríðar Lindgren. 

Líkurnar á að þessi ungi maður fari í hanska Hanskans eru stjarnfræðilegar, en Payton þessi ku engu að síður vera flottur leikmaður. 

Hann gæti átt eftir að mynda óárennilegt og lipurt bakvarðapar með Victor Oladipo í framtíðinni, en það sem menn finna helst að Payton er (þú lýýýgur því!) hvað hann er lélegur skotmaður og nokkuð gjarn á að missa boltann of oft. Þeir sögðu nú líka að Gary Payton gæti ekki skotið þegar hann kom inn í deildina, en hann var með metnað til að bæta það stórlega. Þá er bara að sjá hvort hann Elfrid frændi þinn er með eitthvað álíka í pokahorninu.

Númer ellefu endaði skorunarmaskínan Doug McDermott hjá Chicago Bulls (frá Denver). 

Tjásunum sem eftir eru á höfðinu á Tom Thibodeau á eflaust eftir að fækka enn meira þegar hann fer að reyna að koma McDermott inn í varnarleikinn hjá Bulls, en þessi strákur ætti að hjálpa liðinu að teygja eitthvað á vörnum andstæðinganna. 

McDermott er skemmtilega hvítur og asnalegur framherji, en hann er einn samt sem áður einn atkvæðamesti skorari í sögu háskólaboltans og er með allan pakkann þegar kemur að sóknarleik. Hann var t.d. með 27/7 og 53% og 45% í þristum á síðustu leiktíð. Það ætti að geta komið að notum hjá liði sem er stundum eins og beltalaus jarðýta í drullupolli í sóknarleiknum.

Philadelphia endaði með króatíska framherjann Dario Saric númer tólf eftir viðskiptin við Orlando, en rétt eins og annað hjá Sixers þessa dagana, verður hann settur í salt. Saric er að spila í Tyrklandi og verður líklega þar í að minnsta kosti tvö ár í viðbót, sem er mesta synd. Þessi lipri leikmaður er með gott auga fyrir sóknarleik og hefur verið líkt við Tony Kukoc, nema hvað Saric er kraftmeiri og með aðeins meiri Ginobili í sér.

Númer þrettán ákváðu Úlfarnir að leita á náðir leikstjórnandans Zach LaVine. 

Þar er á ferðinni dálítið einkennilegt eintak, þar sem hann er sagður leikstjórnandi sem er ekki með sérstaka hæfileika sem leikstjórnandi. Einmitt.

Það góða við hann er að hann er næstum tveir metrar á hæð og býr yfir íþróttamennsku og sprengikrafti sem 99% jarðarbúa geta ekki látið sig dreyma um. 

Við værum að ljúga ef við segðum ykkur að við hefðum hugmynd um hvað þessi drengur á eftir að gera í NBA deildinni, en ef hann fær eitthvað að spila, verður ekki leiðinlegt að sjá hann taka nokkrar viðstöðulausar í hraðaupphlaupnum með Ricky Rubio. Svo mikið er alveg víst.

Þá fær Phoenix til sín öflugan skorara með 14. valréttinum í formi T.J. Warren, sem ætti að passa skemmtilega inn í frískan leikmannahóp Jeff Hornacek sem kom svo skemmtilega á óvart á síðustu leiktíð. Warren þessi er minni framherji og er skorari af guðs náð. Hann er með öflugt vopnabúr þegar kemur að því að skora í kring um körfuna, en hann er hingað til vonlaus langskytta (26%). Hornacek á samt örugglega eftir að ná að kreista nokkrar gæðamínútur út úr þessum pilti ef við þekkjum hann rétt.

Jæja, þá erum við búin að prófa að skrifa um nýliðavalið í NBA. Það var spes. Vonum að þið hafið haft gaman af elskurnar, þetta er nú einu sinni gert fyrir ykkur.