Friday, June 27, 2014

Huggulegt uppátæki hjá Silver og NBA-mönnum


Einhver ykkar hafa eflaust frétt af ógæfu Isaiah Austin frá Baylor-skólanum. Aðeins fjórum dögum fyrir nýliðavalið, greindist miðherjinn með alvarlegan sjúkdóm, sem þýðir að hann mun líklega aldrei spila körfubolta framar.

Þetta eru auðvitað skelfileg tíðindi fyrir þennan unga mann, sem var nokkrum dögum frá því að öðlast fjárhagslegt frelsi til æviloka. Flestir hölluðust að því að Austin yrði tekinn seint í fyrstu umferðinni eða snemma í þeirri annari, en þarna var ljóst að ekkert yrði af því. Við erum ekki læknar, en sumir segja að pilturinn megi þakka fyrir að veikindi hans hafi komið í ljós núna, því þau eru lífshættuleg.

Þrátt fyrir þetta mótlæti, var Austin samt mættur á nýliðavalskvöldið í Brooklyn í nótt. Hafi einhver furðað sig á því af hverju, fékk sá hinn sami svör við því þegar kom að því að velja fimmtánda leikmanninn í valinu.

Þá gerði Adam Silver forseti deildarinnar hlé á dagskránni, kynnti Austin til leiks og "valdi hann" svo fyrir hönd allrar NBA deildarinnar. Miðherjinn ungi fékk því að stíga á sviðið og taka í höndina á Silver eins og hann hafði dreymt um að gera síðan hann var barn.

Það má vel vera að einhverjum finnist þetta vera full tilfinningaklámfengið atriði, en okkur þótti þetta fallegur virðingarvottur af hálfu deildarinnar. Það er áberandi betri tilfinning að fylgjast með Adam Silver sinna starfi forseta NBA deildarinnar en hrokafullum forvera hans David Stern. Silver gefur af sér jákvæðan þokka og er í alla staði mannlegri og geðþekkari náungi.

Já, það var gaman að sjá hann Austin fá þarna smá móment til að nota sem hvatningu í baráttunni sem fram undan er hjá honum. Hérna fyrir neðan sérðu myndband af þessu skemmtilega augnabliki. Eftir seremóníuna er svo tekið viðtal við Austin, en það var einmitt framkvæmt af Jay Williams, manni sem veit allt um það hvernig er að sjá NBA ferlinum sópað í burtu á einu augnabliki.