Monday, June 16, 2014

Fimmti titillinn í hús hjá San Antonio Spurs


Já, þeir kláruðu dæmið gömlu refirnir. Auðvitað gerðu þeir það. Miami beit ekki frá sér nema í um það bil einn fjórðung og náði reyndar 16 stiga forskoti, en um leið og San Antonio náði að stilla spennustigið af og fór að spila af eðlilegri getu, var eftirleikurinn alveg jafn auðveldur og hann var í síðustu tveimur leikjum.

San Antonio er NBA meistari í fimmta skipti í sögu félagisns eftir öruggan 104-87 sigur á Miami Heat í Texas í nótt. Miami náði að klóra fram einn sigur í einvíginu, en San Antonio vann hina fjóra - alla með fimmtán stiga mun eða meira. Liðið setti fullt af metum í leiðinni, meðal annars yfir skotnýtingu í lokaúrslitaeinvígi og heildar stigamun.

Við höfum í sjálfu sér ekkert rosalega mikið að segja um þetta annað en að óska stuðningsmönnum Spurs á Íslandi til hamingju með titilinn.

Aðeins fyrsti titillinn í sögu félagsins (´99) á séns í að vera svipað sætur og þessi fyrir Spurs, en Tim Duncan sagði reyndar að þessi nýjasti væri sá sætasti af þeim öllum og þið vitið auðvitað að Tim Duncan segir aldrei ósatt.

Við sögðum flest það sem við höfðum að segja um Spurs í sexhundruð síðna og fimmtíu læka pistlinum í gær og litlu við það að bæta svo sem. Nú væri ráð að doka aðeins við og leyfa þessum tíðindum að taka sig áður en við pælum í framhaldinu.

Þú þekkir okkur illa ef þú heldur að við ætlum að sleppa því að dásama Spurs aðeins meira og drulla í leiðinni aðeins meira yfir Miami.

Sko, það er allt í lagi að Miami hafi tapað þessu einvígi - liðið var búið að fara í lokaúrslitin fjögur fjandans ár í röð og það er mjög vel gert.

Þó leið Miami í gegn um austrið hafi kannski ekki alltaf verið þyrnum stráð, verðum við að gefa LeBron og félögum það að þeir hafa alltaf veitt fulltrúum vestursins verðuga og öfluga keppni um titilinn.

Þangað til núna.

Hrakspár manna eins og Steve Kerr stóðu eins og stafur á bók. Lið sem fer svona djúpt í úrslitakeppninni fjögur ár í röð verður óhjákvæmilega orðið ansi lúið. Og bættu við það þeirri staðreynd að breiddin hjá Miami hefur oft verið það lítil að stjörnurnar - lykilmenn liðsins - hafa oftast þurft að spila óguðlega margar mínútur.

Þeir voru bara bensínlausir í þessu einvígi, leikmenn Miami. Þeir áttu séns þangað til skömmu eftir að flautað var til leiks í þriðja leiknum í einvíginu, en eftir það tók San Antonio þá á lærið, reif niður um þá og kaghýddi á þeim anusinn þar til fossblæddi úr öllu saman.

Við eigum enn eftir að mynda okkur skoðun á þessu. Eins og áður sagði, verða menn alltaf að leyfa rykinu að setjast aðeins eftir lokaleik vetrarins og hugleiða í smá stund áður en þeir byrja að skrifa um framhaldið hjá klúbbunum sem komust í úrslit. Þetta eru stundum ansi ólíkar pælingar eftir því hvort liðið á í hlut, jafnvel þó rimman hafi verið hnífjöfn eins og hún var í fyrra.

Án þess að fara dýpra í þessa hluti í bili, er ljóst að Miami þarf að gera einhverjar smá breytingar hjá sér ef það ætlar að vinna fleiri meistaratitla - sérstaklega ef meintar stórstjörnur eins og Dwyane Wade og Chris Bosh ákveða að eyða júnímánuði í að klóra sér í anusnum frekar en að spila heimsklassa körfubolta eins og í ár.

Við höfum miklu minni áhyggjur af meisturunum í San Antonio. Djöfull er skrítið að skrifa og segja aftur "meistarar San Antonio."

Það er bara eitthvað svo eðlilegt og það er engin ástæða til að ætla annað en að þeir verði þarna á sama stað að ári - alveg grínlaust.

Félagið þarf að ganga frá samningi við Tim Duncan og gott ef ekki Boris Diaw í leiðinni (kannski Patty Mills) og þá er það good to go eins og við segjum.

Eins og þið vitið er lið Spurs búið að vera allra liða duglegast við að láta alla ritstórnina á NBA Ísland líta út eins og slefandi fávita hvað eftir annað með því að rísa upp frá dauðum ár eftir ár. Þessi meistaratitill núna er svo algjörlega rúsínan í þeim afturenda. Við erum fífl og höfum ekkert vit á körfubolta, en þið hafið nú öll áttað ykkur á því fyrir mörgum árum síðan.

Já, hugsið ykkur, pungurinn hann Tim Duncan er bara búinn að vinna fimm meistaratitla! Það er eins og ein dolla á hverja háskólagráðu hjá Georg Bjarnfreðarsyni ef þú ert að telja og jafn margir titlar og Kobe Bryant hefur í sínu safni.

Duncan og Bryant eru enda sigursælustu stjörnur NBA deildarinnar á öldinni en næstu menn eru menn eins og Shaquille O´Neal (4) og Dwyane Wade með þrjár dollur. Það er talsverður munur.

Þá er körfuboltavertíðinni formlega lokið hvað spilamennsku varðar, en það er náttúrulega alltaf eitthvað að gerast í NBA og nú eru t.d. ekki nema um tíu dagar í nýliðavalið 2014.

Þið skulið ekki láta ykkur detta það í hug að við ætlum að leggja árar í bát hér á ritstjórninni þó boltinn sé hættur að skoppa í bili. Ekki aldeilis.

Við eigum eftir að gera nýafstaðna leiktíð upp í ræðu (hlaðvarpi) og riti og glíma við margvísleg verkefni sem okkur dettur í hug að taka upp. Það er sem sagt enginn að kveðja hér, þó búið sé að lyfta bikar í NBA deildinni.

Svona af því það er orðið mjög langt síðan síðast, langar okkur nú að að vekja aftur athygli á því að þau ykkar sem eruð ánægð með skrifin og hlaðvarpið í vetur, eigið möguleika á að styðja við bakið á ritstjórn NBA Ísland með frjálsum fjárframlögum ef þið eigið kost á því.

Síðast þegar við vældum í ykkur um stuðning, náðum við inn ágætis framlögum sem dugðu fyrir kaffi og klósettpappír. Þetta gerði bláfátæka ritstjórnina alveg óskaplega hamingjusama.

Það eina sem þú þarft að gera ef þú vilt láta gott af þér leiða, er að smella á gula hnappinn á hægri spássíu síðunnar sem á stendur "Þitt Framlag."

Þaðan er þér vippað í samband við paypal-þjónustuna og þar getur þú valið að styrkja NBA Ísland um upphæð sem hentar þér.

Ef einhver ykkar hafa hug á að koma til móts við okkur en ráðið ekki við paypal-batteríið, getið prófað að hafa samband við okkur á nbaisland@gmail.com og finna farsæla lausn á málinu.

Okkur þætti afar vænt um ef einhver ykkar væru aflögufær og langaði að bakka okkur upp. Svo er það nú auðvitað þannig að það er opið fyrir það ef einhver fyrirtæki þarna úti hafa hug á að fara í auglýsingasamvinnu við okkur. Þá er bara að senda póst á nbaisland@gmail.com.

Að lokum er svo rétt að þakka þeim ykkar sem hafa verið svo hugguleg að senda okkur fallega tölvupósta. Það þarf ekki að taka það fram að við á ritstjórninni verðum ekki bara hamingjusöm við að sjá peninga, við höfum líka óstjórnlega gaman af því þegar fólk segir fallega hluti um okkur.

Því skulið þið ekki hika við að hafa samband ef ykkur liggur eitthvað á hjarta, hvað sem það nú er.

Leikurinn er fallegur og lífið eftir því.

Ristjórn NBA Ísland