Wednesday, June 18, 2014

Luke Bonner er Matt Bonner



Fagmaðurinn Matt Bonner var að vinna sinn annan titil með San Antonio Spurs á dögunum.

Bonner varð líka meistari með Spurs á fyrsta árinu sínu með félaginu árið 2007, en hann var áður á mála hjá Toronto Raptors.

Bonner var í liði Toronto daginn sem Kobe Bryant sallaði 81 stigi á Raptors í janúar árið 2006 og ef hann hefði verið óheppinn, hefði það kannski verið atriðið sem hann hefði verið frægastur fyrir á NBA ferlinum.

En þá kom San Antonio til sögunnar. Bonner er 33 ára gamall en hefur aldrei spilað 24 mínútur í leik í NBA. Hlutverk hans hjá liðinu hefur verið mjög misjafnt og hann hefur t.a.m. aldrei skorað minna að meðaltali í leik en hann gerði í vetur (3 stig).

Bonner er samt alltaf klár í slaginn þegar kallið kemur og það er þess vegna sem Gregg Popovich kýs að hafa hann í liðinu sínu. Það þurfa allir að vera með menn eins og Bonner í hópnum.

Hann gengur ýmist undir gælunafninu Rauða eldflaugin eða Rauða Mamban, sem er bein vísun í Kobe Bryant (Svörtu mömbuna) og er með betri gælunöfnum í deildinni. Bonner hefur leitt NBA deildina í þriggja stiga nýtingu og hefur meira að segja náð öðru sæti í þriggja stiga keppninni um Stjörnuleikshelgina.

Bonner á lítinn bróðir sem heitir Luke Bonner og er þremur árum yngri. Það er kannski ekki sanngjarnt að kalla hann lítinn, enda er hann langt yfir tvo metra á hæð eins og bróðir hans.

Luke hefur ekki náð eins langt í boltanum og bróðir hans. Hann er búinn að spila í Evrópu sem atvinnumaður en hefur líka reynt fyrir sér hjá Austin Toros, D-deildarliðinu undir San Antonio Spurs.

Þegar Luke var spurður að því hvaða hlutverki hann gegndi í liði Toros, stóð ekki á svarinu.

"Ég er svona Matt Bonner-inn hjá Toros."

Þeir bræður eru duglegir við að láta gott af sér leiða og halda reglulega tónleika og körfuboltauppákomur til að safna fé til góðgerðarmála. Eru meira að segja með heimasíðu í kring um uppátækið sitt, sem kalla mætti Rokksjóðinn. Þú getur séð hana hér.