Wednesday, November 6, 2013
Einar Bollason er sjötugur í dag
Eftir því sem við komumst næst, er stórhöfðinginn Einar Bollason sjötugur í dag. Af því tilefni þótti okkur ekki annað hægt en að segja um það nokkur fátækleg orð.
Einar er auðvitað goðsögn í körfuboltaheiminum hér á landi og saga hans bæði sem leikmanns og þjálfara er rík og merkileg. En við ætlum að láta öðrum eftir að segja þá sögu og skrifa um það bækur, enda fengum við ekki að fylgjast með afrekum Einars á vellinum og á hliðarlínunni.
Nei, það er sjónvarpsmaðurinn Einar Bollason sem við fengum að fylgjast með og það er sú hlið á Einari sem okkur langar að hampa við þetta tækifæri. Hvort sem hann veit af því eða ekki, ól Einar nefnilega upp heila kynslóð af körfuboltaaðdáendum um allt land þegar hann lýsti NBA körfuboltanum á Stöð 2 á tíunda áratug síðustu aldar.
Eins og flestir vita var tíundi áratugurinn gullöld körfuboltans á Íslandi hvað vinsældir snertir. Michael Jordan og körfuboltamyndir voru það eina sem komst að á landinu og allir frá smábörnum til ellilífeyrisþega söfnuðu körfuboltamyndum og vissu hver Muggsy Bogues, Spud Webb, Manute Bol og auðvitað Michael Jordan voru.
Og maðurinn sem batt þetta saman var Einar Bollason.
Þeim sem fylgdust spenntir með NBA boltanum á þessum árum er líklega enn í fersku minni líflegar lýsingar Einars í beinni útsendingu, hvort sem var með Heimi Karlssyni,Valtý Birni Valtýssyni eða Snorra Sturlusyni.
En í þá daga voru leikir mun sjaldnar í beinni útsendingu en nú tíðkast og þá var NBA leikur vikunnar á Stöð 2 oftast nokkurra daga eða jafnvel viku gamall. Þá var fyrri hálfleikurinn sýndur klipptur og svo var farið yfir í "beina" í síðari hálfleiknum og leiknum fylgt til enda.
Það góða við leik vikunnar var að hann var valinn eftir á og því fengu áhorfendur jafnan að sjá góðan og gjarnan mjög spennandi leik. Eftirminnilegir leikir sem við munum eftir voru til dæmis óvæntur sigur Minnesota Timberwolves þegar liðið var á sokkabandsárunum, spennandi leikir með Spútnikliði Cleveland undir forystu Mark Price, ævintýralegur leikur milli Boston og Portland þar sem Larry Bird sýndi af hverju hann er einn af þeim bestu og svo nokkrir skemmtilegir Stjörnuleikir - ekki síst leikurinn frá árinu 1989 sem var m.a. síðasti Stjörnuleikur Kareem Abdul-Jabbar.
Alltaf náði Einar að glæða þessa leiki lífi þó hann hafi nær örugglega vitað úrslit þeirra allra þegar hann settist inn í mynd/hljóðverið.
Það er ekki víst að allir áhorfendur þá hafi gert sér grein fyrir því að úrslit leiksins sem sýndur var hverju sinni voru löngu ráðin.
Lýsingar Einars gerðu það hinsvegar að verkum að fólk upplifið þetta allt eins og í þráðbeinni um leið og það kveikti á sjónvarpinu.
Einari var svo mikið í mun að gera leikina spennandi og skemmtilega að hann átti það oft til að lýsa því yfir að nú væri sigurinn allt nema í höfn hjá liðinu sem væri yfir - sagði þá gjarnan þessa klassísku setningu "þett´er búið!" - en auðvitað sneri þá liðið sem var undir við blaðinu, kom til baka og vann.
Það má vel vera að það hafi ekki verið erfitt að selja vöruna körfubolta á öndverðum tíunda áratugnum, en við erum óendanlega þakklát fyrir að það hafi verið Einar Bollason sem færði okkur NBA deildina heim í stofu með þekkingu sinni, mælsku og umfram allt ástríðu fyrir leiknum.
Allir sem vettlingi gátu valdið spiluðu körfubolta á blómaskeiði íþróttarinnar (hjá almenningi) á árunum um og eftir 1990 og úti á leikvelli var ekki óalgengt að heyra unga iðkendur fara með frasa úr smiðju Einars eftir leik vikunnar helgina áður. Það er alveg öruggt að margir af frösunum sem við notum í kring um NBA boltann í dag koma beint úr smiðju Einars.
NBA Ísland óskar Einari Bollasyni hjartanlega til hamingju með stórafmælið og óskar honum alls hins besta í framtíðinni. Hafi hann okkar einlægu þakkir fyrir að kynna okkur fyrir skemmtilegustu deild í heimi og um leið fallegasta leik veraldar.
Ritstjórnin
(Myndin með færslunni kemur frá Körfuknattleikssambandinu og er af þeim Heimi Karlssyni, Michael Jordan og Einari Bollasyni).
Efnisflokkar:
Afmæli
,
Frá ritstjórn
,
Goðsagnir