Leikur KR og Stjörnunnar í kvöld var ljómandi skemmtilegur. Heimamenn í KR unnu sigur 88-82 og hafa því klárað alla fjóra leiki sína í mótinu. Stjörnumenn byrja 1-3 og eru hægt og bítandi að finna taktinn. Staða þeirra í töflunni er önnur en hún hefur verið undanfarin ár, en eins og Teitur þjálfari sagði í samtali við Vísi í kvöld, fer hann ekki á taugum þó hann tapi nokkrum haustleikjum.
Enn er ákvörðunin um að fækka útlendingum í deildinni að líta betur út og við erum farin að hallast að því að þetta sé það besta sem hefur komið fyrir deildina okkar á undanförnum árum. Gallinn við þetta er að einhverjum af félögunum úti á landi gengur víst illa að manna sig, en þar fyrir utan sjáum við bara ekkert sem mælir móti þessu fyrirkomulagi sem nú er komið á í úrvalsdeildinni.
Martin Hermannson nýtti sér útlendingaleysið til hins ítrasta í kvöld og sallaði 31 stigi og gaf 8 stoðsendingar hjá KR - hitti úr 13 af 15 skotum og bauð upp á 39 í framlag. Þetta er svo dásamlega falleg tölfræði - svo góð að Ruslinu á karfan.is þótti ástæða til að geta þess sérstaklega í kvöld. Þó það nú væri.. Frábær leikur hjá drengnum, sem hafði haft hægt um sig í upphafi móts vegna meiðsla.
Við höfðum það einhvern veginn að KR væri bara á krúskontról og langt yfir lengst af í leiknum í kvöld, en eins og þið vitið er Stjörnuliðið alltaf eins og hundur sem bítur í buxnaskálmina hjá þér og neitar að sleppa. Þeir eru alltaf þarna, þó þeir líti kannski ekkert sérstaklega út á köflum. Garðbæingarnir hefðu alveg getað tekið þennan leik með smá heppni, en hún var KR megin í kvöld.
Eins og áður sagði fór Martin Hermannsson á kostum í liði KR en auk hans var iðnaðar- og fagmaðurinn Darri Hilmarsson betri en enginn í síðari hálfleiknum.
Pavel okkar Ermolinski bauð upp á 13/15/5 leik en hitti skelfilega úr skotunum sínum (4-17).
Kannski að hann ætti að skipta aftur um númer við Martin, það er ekki sjón að sjá Pavel í treyju númer níu, þó guttinn beri númer fimmtán ágætlega.
Brynjar Þór Björnsson gegnir nú hlutverki súpersöbbs hjá KR og spilaði 22 mínútur af tréverkinu í kvöld. Lúxus að hafa svona mann á bekknum, en við veltum því fyrir okkur hvort hann er sáttur við þetta hlutverk. Á hann að fá fleiri mínútur - eða er hann kannski ekki búinn að vinna sér inn fyrir því í vetur? Ja, hvur veit.
Eins og venjulega var það Justin Shouse sem fór fyrir liði Stjörnunnar (26/5/9) og Matthew Hairston var sömuleiðis með 26/9.
Hairston þessi er nokkuð sérstakur leikmaður, gormur bæði og spóaleggur, en það á eftir að koma í ljós hvort hann er það sem Stjörnuna vantar í vetur.
Einu verðum við bara að koma frá okkur og það er gremjan yfir hlutverki Marvins Valdimarssonar hjá Stjörnunni.
Að okkar mati á hann að fá 70-80% af skotunum sem Jovan tók áður og vera grimmari í sókninni.
Marvin hefur alla burði til þess að skora miklu meira. Hann er alltaf að leita af félögum sínum og er það vel, en það er ergilegt að sjá hann hika við að taka skot sem hann á einfaldlega að taka sjálfur. Með fullri virðingu fyrir t.d. Fannari Helgasyni, á hann ekki að vera nálægt Marvin í skottilraunum undir neinum kringumstæðum. Marvin var stórskorari í 1. deildinni hérna fyrir nokkrum árum og þó við vitum að 1. deildin sé ekki úrvalsdeildin, er hann alveg búinn að sýna að hann veit hvar karfan er.
Látum Marvin skjóta meira.
Frelsum Marvin!
Myndir, jó! Smelltu.