Thursday, August 8, 2013

Larry Bird gaf körfubolta



Larry Bird var einstakur leikmaður. Þetta vita flestir sem á annað borð hafa fylgst eitthvað með körfubolta. Það er reyndar hálf fáránlegt að hugsa til þess að nú séu komin yfir 20 ár síðan Larry hætti að spila, mikið til vegna þrálátra meiðsla.

Það er nokkuð langt mál að telja upp hvað Larry Bird gerði vel sem leikmaður. Hann var auðvitað skorari af Guðs náð og frábær skytta hvaðan sem var á vellinum, en hann var svo miklu meira en bara skorari.

Bird var líka úrvalsfrákastari, útsjónasamur, baráttuhundur, leiðtogi og síðast en ekki síst sigurvegari sem naut sín aldrei betur en þegar allt var undir.

Larry Bird trúði á einfalda speki þegar átti að koma hlutunum í verk á lokamínútunum í spennandi leikjum. Hann vildi alltaf taka lokaskotið sjálfur.

Ekki af því hann var hrokafullur, heldur af því hann vissi að hann væri búinn að æfa sig (miklu) meira en allir aðrir í liðinu. Einföld lógík þegar nánar er að gáð.

Og af því hann vissi að það væri ekki nokkur hætta á því að skotið hans færi ekki ofan í. O.k. - kannski var hann dálítið hrokafullur, en hann hafði fullt efni á því.

En hvað vantar inn í upptalninguna okkar á bestu hæfileikum Larry Bird?

Jú, sendingarnar. Viljann og getuna til að senda boltann.

Kannski eru einhverjir ósammála okkur með það, en að okkar mati voru það líklega helst útsjónasemin og sendingagetan sem gerðu Larry Bird að þeim einstaka leikmanni sem hann var.

Bird skoraði mikið af stigum, en þú sást hann sjaldan skjóta eins og vitleysing. Hann var alltaf að hugsa um samherja sína í leiðinni.

Þess vegna elskuðu þeir að spila með honum, þó hann ætti það til að láta þá heyra það ef þeir lögðu ekki (næstum því) jafn hart að sér og hann.

Það er ekki algengt að framherjar séu heimsklassa sendingamenn, en það var Larry Bird svo sannarlega. Hann var með yfir sex stoðsendingar að meðaltali í leik á ferlinum og bauð m.a. upp á meðaltöl upp á 28 stig, 9 fráköst og nærri 8 stoðsendingar í leik árið 1987.

Enginn nema LeBron James er fær um að skila tölum einhvers staðar nálægt þessu.

LeBron James er frábær sendingamaður og er trúlega sá framherji sem hefur komist næst Bird á í greininni á þessum tveimur áratugum síðan hann hætti. En ef James er sendingamaður upp á 9, var Larry upp á 10.

Við skorum á ykkur að skoða myndbrotið hérna fyrir neðan, sem er syrpa af stórkostlegum sendingum frá Larry Bird. Svona tilþrif sýna bara Heiðurshallarmeðlimir. Allir vilja spila með svona mönnum.