Friday, August 9, 2013

Bob Cousy er 85 ára í dag


Stórhöfðinginn Bob Cousy er 85 ára í dag.

Cousy lék með Boston Celtics á árunum 1950 til 1963 og varð sex sinnum NBA meistari með félaginu (1957 og 1959-63).

Hann var langbesti leikstjórnandi síns tíma í NBA og leiddi deildina m.a. í stoðsendingum átta ár í röð (1953-60).

Cousy var algjör brautryðjandi í leikstjórnandastöðunni og hlaut m.a. viðurnefnið "Houdini Harðviðarins" fyrir tilþrif sín.

Segja má að Cousy hafi verið fyrsti skemmtikrafturinn í NBA deildinni, en hann náði að sameina sirkustilþrif og sigurhefð, líkt og Magic Johnson gerði síðar með Los Angeles Lakers.

Meðan Bill Russell var allt í öllu í varnarleiknum hjá meisturum Celtics, var það Cousy sem var arkitektinn á bak við sóknarleikinn og baneitruð hraðaupphlaupin. Hann var kjörinn verðmætasti leikmaður deildarinnar árið 1957 og var valinn í stjörnuliðið öll árin sín með Boston.

NBA Ísland óskar þessum mikla snillingi til hamingju með daginn, en auk hans eiga þeir Derek Fisher, Vinny Del Negro og John "Hotrod" Williams líka afmæli þennan dag. Fisher er sem kunnugt er enn að spila með Oklahoma City og er nú að sigla inn á 40. aldursárið sitt.