"Ég verð að gera meira. Þetta er svo einfalt. Ég verð bara að gera meira. Ég ætla ekki að vera með neinar afsakanir. Ég verð að vera betri."
Þetta sagði LeBron James á fjölmiðlafundinum í nótt, eftir að Miami-liðið hans var tætt í sundur í Texas eins og fórnarlömbin í keðjusagarmyndinni sem kennd er við ríkið risavaxna.

Þetta er alveg rétt sem þú segir, LeBron James. Þú verður að gera meira. Verður til dæmis að byrja á að skora yfir tuttugu stig í eins og einum leik. Þetta er ekki diss á LBJ, hann duglegur við að skapa fyrir félaga sína, en nú þarf hann að gera meira sjálfur.
Kaldhæðnislegt að sjá að San Antonio er að mörgu leyti að beita sömu varnartaktíkinni á LeBron James og það gerði þegar hann mætti til Texas með Cleveland-liðið sitt fyrir fimm árum og var slátrað.
Lokka hann til að skjóta, loka á keyrslu á körfuna, fara undir hindranir og sjá til þess að sá sem kemur í hljálpina sé svo rútíneraður að hann geti gert það með bundið fyrir augun.
Þó Kawhi Leonard sé kannski ekki alveg jafn góður varnarmaður, er hann með talsvert ferskari lappir, lengri handleggi og er miklu yngri en Bruce Bowen var þegar hann var að eltast við James árið 2007. Svo fær hann góða hjálp og James er með öllu meinaður aðgangur að körfunni þessa dagana.
Þvílík synd að svona fínn leikur hjá Mike Miller sé að fara í súginn. Aukaleikarar Miami komu ferskir inn með ágætis hluti, en Stjörnurnar voru bara ekki með þetta að þessu sinni.
Við reiknuðum ekki með því að San Antonio ætti eftir að rótbursta Miami á nokkrum tímapunkti í einvíginu, en það gerðist í nótt. Rétt eins og gerðist í leik tvö í Miami, hrökk heimaliðið í gang í síðari hálfleik og keyrði andstæðinginn gjörsamlega í kaf.

Það er svo gaman að sjá körfuboltasöguna skráða til bókar í beinni útsendingu og við fengum öll að verða vitni að slíku í nótt þegar Danny Green (27 stig, 7-9 í þristum) og Gary Neal (24 stig, 6 þristar) skutu Miami í kaf.
Hér er verið að spinna mjög skemmtilegan söguþráð.
Stórleikur beggja hefði ekki getað komið á mikið betri tíma, því Tony Parker teygði eitthvað á sér aftanvert lærið og gat ekki beitt sér að fullu í sóknarleiknum.

Við sögðum ykkur að Miami hefði unnið leikina á eftir tapi með um 22 stiga mun að meðaltali síðan um áramótin. Nú reynir á þennan fídus hjá þeim. Þeir verða að koma brjálaðir í næsta leik og taka við taumunum í einvígnu á ný.
Það var meiri kraftur í San Antonio í nótt og Miami verður að mæta honum. Þetta einvígi er vissulega galopið í báða enda en nú er það Spurs sem er komið með keflið. San Antonio hefur aldrei lent undir í lokaúrslitaeinvígi og virðist ekki ætla að gera það.
Magnað að Spurs hafi þarna bókstaflega hraunað yfir meistarana þrátt fyrir að fá aðeins 25 stig samtals frá þríeykinu sínu Duncan, Parker og Ginobili. Við eigum nú eftir að sjá það að Danny Green haldi áfram í svona lygilegu stuði (12 af 14 í þristum í síðustu tveimur leikjum) og það eru góðar líkur á að Spurs muni þurfa á toppleik að halda frá a.m.k. tveimur aðalleikurum sínum til að klára næsta leik.

LeBron skoraði tuttugu stig eða meira í yfir þrjátíu leikjum í röð í vetur, svo þið sjáið glöggt að þrír leikir í röð undir tuttugu stigunum er ekki eitthvað sem gerist á hverjum degi hjá honum.
James er í vanda, Bosh kemur og fer eins og sagði í laginu, en mikilvægasta atriðið hjá Miami - og breytan sem bókstaflega ræður úrslitum í þessu einvígi að okkar mati - er spilamennska Dwyane Wade. Hann er aðeins hálfur maður og við ætlum nú bara að slá því föstu hér og nú að Miami getur ekkert varið titil sinn með Wade svona slappan (á hans mælikvarða).

LeBron James hefði feginn þegið hjálp frá manni eins og Dwyane Wade þegar San Antonio var að lúskra á honum í lokaúrslitunum fyrir fimm árum.
Hann þæði hana líka núna.
Mike Miller, Ray Allen, Mario Chalmers - þessir gaurar geta skotið eins og englar í næstu leikjum en það hefur ekkert að segja ef stóru byssurnar eru ekki að dansa.

Að því sögðu, getur Miami lent í bullandi vandræðum í þessari rimmu ef eitthvað fer úrskeiðis í næsta leik. Þá verða engir sénsar, þá þýðir ekkert fyrir stjörnurnar að vera í ruglinu.
Hugsið ykkur. Tim Duncan og San Antonio liðið hans þarf ekki annað en að halda sér í 50% vinningshlutfalli í næstu leikjum, þá verður það meistari í fimmta sinn. Tveir heimaleikir og tveir útileikir, ef þetta fer alla leið. Magnaður fjandi.
Við svitnum þegar við hugsum um pistilinn sem við þurfum að skrifa ef Spurs vinnur enn eina fjandans ferðina, ekki að við höfum eitthvað á móti því, þannig séð.
Þið munið að við afskrifuðum San Antonio sem meistarakandídat fyrir löngu síðan hér á vefsvæðinu og því verður það ansi stór biti að kyngja ef Spurs klárar þetta.
Sennilega eins og að éta svefnpoka.