Friday, March 29, 2013

Stjarnan og Snæfell áfram


Nú er ljóst að það verða Grindavík-KR og Snæfell-Stjarnan sem mætast í undanúrslitum Domino´s deildarinnar. Við vorum með fókusinn á einvígi Stjörnunnar og Keflavíkur í fyrstu umferðinni, en þetta var frábær sería.

Það var gaman að sjá hvað leikmenn Stjörnunnar voru áræðnir á lokasprettinum í leiknum í kvöld. Keflavíkurliðið var yfir nánast allan leikinn en kjarkurinn var meiri hjá heimamönnum í lokin. Stjarnan tók þetta 82-77 og vann einvígið 2-1.

Stjarnan saknaði Jovans klárlega en náði samt að loka þessu án hans. Jovan er frábær skytta og hefur séð þetta allt saman áður, en það voru ekki bara skotin og stigin sem Stjarnan saknaði. Jovan togar líka varnir andstæðinganna til með nærveru sinni einni. Hann fagnaði eins og óður maður eftir að flautað var af og var ekki öfundsverður af því að þurfa að horfa á leikinn úr stúkunni.

Það er sannarlega karakter í þessu Stjörnuliði og okkur sýnist það hafa alla burði til að fara langt í vor. Garðbæingar eru með sterkt byrjunarlið, þokkalegar skyttur, neyðarkarl og fína breidd. Við fórum fram á það hér fyrr í vetur að í raun væri ekkert annað í boði en titillinn fyrir Stjörnuna - liðið er ekkert krútt lengur og á alveg inni fyrir því að setja á sig slíkar kröfur.

Svo má ekki gleyma Endurskoðandanum í miðjunni. Menn eru að vanmeta Brian Mills, oft og mörgu sinnum í hverjum leik og fá fyrir vikið mynd af sér á veggspjald,  á youtube eða taka jafnvel slátur. Þetta er bara alvöru leikmaður, eins og 32 stigin og blokkeríngarnar hans þrjár í kvöld bera með sér.

Nú eru framundan tvö sannkölluð lúxuseinvígi. Undanúrslitin hefjast í Grindavík á annan í páskum (1.apríl) klukkan 19:15 þar sem heimamenn taka á móti KR. Þessi leikur verður einnig sýndur í beinni á Stöð 2 Sport fyrir þá sem ekki hafa tök á að skella sér til Grindavíkur.