Saturday, March 30, 2013

Nokkrir punktar um þróun sóknarleiksins í NBA:


Körfubolti gengur út á það sama hvort sem hann er spilaður í Detroit, Darfur eða á Dalvík. Forráðamenn NBA deildarinnar hafa samt verið nokkuð duglegir að jazza í reglunum og fyrir vikið höfum við séð nokkuð miklar sveiflur í spilamennsku og stíl.

Stærsta breytingin á síðari tímum var auðvitað tilkoma þriggja stiga línunnar, en það kemur eflaust einhverjum á óvart að hún varð ekki partur af NBA fyrr en árið 1979 - nýliðaárið þeirra Larry Bird og Magic Johnson. Segja má að þarna verði þáttaskil í sögu deildarinnar. Byssurnar hjá Knicks hérna fyrir ofan eru ýkt dæmi um þróun langskota í NBA að undanförnu.

NBA deildin hefur átt margar frábærar þriggja stiga skyttur síðan á dögum Larry og Magic, en það er ekki fyrr en núna á seinni árum sem menn fara almennilega að átta sig á gildi langskota í tölfræðinni.

Það er nefnilega þannig þó að séu meiri líkur á að þú hittir úr 2ja stiga skoti en 3ja stiga skoti, eru verðlaunin fyrir þristinn auðvitað hærri og geta því haft gríðarleg áhrif á útkomuna.

Til að einfalda þetta getum við ímyndað okkur að lið A og B taki 100 skot hvort á körfuna. Lið A tekur bara tveggja stiga skot og er með 50% nýtingu. Það skorar því 100 stig.

Lið B tekur hinsvegar bara þriggja stiga skot og er því með töluvert lakari skotnýtingu en lið A, eða 40%. Það þýðir að liðið setti aðeins 40 skot niður, en af því þau voru þristar, skila þau 120 stigum í hús.

Þetta er kjánalega einföld stærðfræði, en hún hefur bara ekki verið uppi á borði í NBA deildinni fyrr en á allra síðustu árum með innrás tölfræðinördanna.

Gott dæmi um þetta er Daryl Morey, framkvæmdastjóri Houston Rockets, en hann er tölfræði- og tölvumenntaður njörður sem notar menntun sína með beinum hætti í vinnunni.
Áhrif framkvæmdastjórans endurspeglast svo í spilamennsku Rockets, því lið Houston hefur nánast útrýmt Versta Skotinu. Versta skotið - eða raunar óhagkvæmasta skotið í boltanum - er tveggja stiga skot rétt innan við þriggja stiga línu.

Þetta er svokallaður langur tvistur. Þar eru minni líkur á að þú setjir hann niður en úr skot af styttra færi og minni verðlaun en fyrir að setja þrist. Bættu svo við þetta þeirri staðreynd að þorri leikmanna í NBA deildinni er bara ekkert góður að skjóta af þessu millifæri og út að þriggja stiga línu, og við erum komin með versta skotið í körfuboltanum.

Eins og þið sjáið á töflunni hér til hliðar tekur Houston aðeins 8,8% skota sinna af millifærinu alræmda, meðan helmingur liðanna í deildinni tekur þaðan 20% skota sinna eða meira.

En ætli sé einhver fótur fyrir þessum kenningum í tölfræði?

Við skulum bara segja eins og er að NBA Ísland er ekki rétti staðurinn til að fara ítarlega ofan í tölfræði, en við höfum samt gaman af því að glugga aðeins í hana. Mjög gaman, reyndar.

Við sögðum ykkur að 15 lið í NBA tækju 20% eða meira af skotum sínum af millifærinu og út að þriggja stiga línu. Árangurinn? Aðeins fimm þessara liða færu í úrslitakeppnina ef hún byrjaði í dag.

Það er orðin staðreynd að bestu sóknarliðin - og reyndar bestu liðin yfir höfuð - nota þriggja stiga skotið sífellt meira í sínum aðgerðum. New York Knicks og Houston Rockets eru þarna í nokkrum sérflokki og taka 35% af skotum sínum fyrir utan. Þú getur séð skotglöðustu liðin fyrir utan í rauða dálknum í töflunni (sjá mynd).

Ekki eru allir sammála um áreiðanleika og skemmtanagildi þessarar auknu áherslu á langskotin í NBA, en það er ljóst að þessi skothefð er orðin miklu meira en bara blautur draumur hjá tölfræðinördum.

Líklegt má telja að þessi þróun sé komin til að vera í NBA miðað við þær reglur sem eru í gildi og mannskapinn sem þarf að fara eftir þeim. Við verðum líka að hafa það í huga þegar við skoðum þróunina sem orðið hefur í NBA á síðustu tveimur áratugum að miðherjastaðan er allt nema dauð í NBA.

Á þessum tíma fyrir sléttum tuttugu árum, vorið 1993, var Michael Jordan að gíra sig upp í að vinna þriðja titilinn í röð með Chicago Bulls áður en hann fór í hafnaboltaruglið.

Eftir það má segja að tími stóru mannanna hafi runnið aftur upp í NBA.

Auðvitað kom Jordan aftur og vann titilinn ´96-´98 en þar fyrir utan skiptust titlarnir sem í boði voru nánast eingöngu á þá Hakeem Olajuwon, Tim Duncan og Shaquille O´Neal.

Þú tekur eftir því að þetta eru allt stórir menn, tveir miðherjar og einn kraftframherji sem spilar eins og miðherji (Duncan).

Liðnir eru þeir tímar sem við vorum með menn eins og O´Neal, Ewing, Robinson og Olajuwon í deildinni - sanna stóra menn. Í dag eru ofurstjörnur NBA deildarinnar oftar en ekki innan við tveir metrar á hæð og úrval miðherja nánast ekkert.

Staðan er bara næstum því dauð.

Allt þetta miðherjaleysi breytir auðvitað gangi mála og spilamennsku í deildinni - þó það nú væri - og í staðinn fyrir miðjuhnoð og iðnaðartroð koma þrifalegir þristar. Þú ræður hvað þér finnst um það, en boltinn á eftir að finna sér leið í gegn um þetta allt saman.