Friday, October 12, 2012
Tími Stjörnunnar er kominn
Það er haustbragur á nokkrum liðum í Úrvalsdeildinni í körfuknattleik. Ekkert óeðlilegt við það. Liðin eru að fá til sín nýja leikmenn og sum þeirra, eins og til dæmis KR, þurftu að vera án lykilmanna í undirbúningnum vegna verkefna þeirra með landsliðinu.
Þetta á ekki við um Stjörnuna.
Garðbæingar hafa unnið tvo fyrstu leiki sína örugglega í deildinni og við sáum þá vinna auðveldan sigur á Keflavík í gærkvöld 101-83.
Nú ætlum við ekki að fara að vera með yfirlýsingar um Domino´s deildina í byrjun október, en það eru ansi góðir hlutir að gerast í Garðabænum.
Þó Stjarnan sé tæknilega aðeins með einn Bandaríkjamann í sínum röðum, hefur breiddin aldrei verið meiri hjá liðinu.
Það er ekki auðvelt fyrir þá Teit og Snorra að útdeila þessum 200 mínútum sem í boði eru og sjálfsagt þarf einhver að fara í fýlu annað slagið.
Þessi samkeppni er lúxusvandamál en að lokum er það liðið sem græðir á þessu. Þjálfararnir geta með góðri samvisku keyrt á tíu mönnum án þess að liðið slái feilpúst. Þetta er staðan hjá Stjörnunni í dag.
Stjörnuliðið var sterkt á síðustu leiktíð og hefur auðvitað verið það lengi. Það vantaði ekki mikið upp á hjá þeim þegar þeir féllu úr leik gegn Íslandsmeisturum Grindavíkur í vor, en það hafðist ekki. Það hlýtur því að vera komið ansi mikið hungur í leikmannakjarna Stjörnunnar.
Þessi kjarni hefur nú leikið saman í nokkur ár og það er sannarlega styrkleiki. Meðan flest liðin í deildinni eru að skipta um leikmenn eins og nærbuxur, eru þessi sömu kunnuglegu andlit alltaf á sínum stað í Garðabænum.
Það leynir sér heldur ekki í spilamennsku liðsins að þeir þekkjast orðið ansi vel þeir Justin Shouse, Jovan, Marvin og Fannar. Í okkar bókum er svona rútína mjög mikilvæg og það leiðir okkur að rótum þessarar hugleiðingar.
Tími Stjörnunnar er núna.
Liðið er nú búið að vera að míga utan í toppinn í nokkur ár, hefur farið í úrslit og unnið bikar, en alltaf vantað herslumuninn. Það er kominn tími til að brúa þetta bil og klára dæmið.
Eins og áður sagði er breiddin orðin frábær hjá Stjörnunni, þú finnur ekki lið með sterkari hóp - amk á pappírunum góðu. Leikmenn þekkjast vel, þjálfarinn þekkir þá, allir þekkja sína rullu og vita hvað þeir eiga að gera.
Nú er bara að ná sér í annan bandarískan leikmann og loka þessu. Annað hvort stóran skotblokkara/ frákastara í teiginn eða neyðarkarl í sóknarleikinn, mann sem getur skapað og skorað upp á sitt einsdæmi. Líklega er síðari kosturinn vænlegri í þessu tilviki.
Þá er bara að sjá úr hverju Garðbæingar eru gerðir, hvort þeir hafa það sem til þarf til að loka þessu. Það er alveg bókað að leikmenn liðsins sætta sig ekki við neitt annað en að fara í úrslit næsta vor og þegar þangað er komið á annað borð - vill auðvitað enginn maður tapa.
Lítum á þetta sem létta haustáskorun fyrir Garðbæinga.
Engin pressa.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Stjarnan