Thursday, October 11, 2012
Litli-Manu
Nando De Colo, nýliði San Antonio Spurs, hefur fengið viðurnefnið Litli-Manu.
De Colo er ekki alveg þessi dæmigerði nýliði, enda 25 ára gamall og franskur landsliðsmaður. Það sýndi hann líka í gær þegar hann skoraði 11 stig, gaf 9 stoðsendingar og skoraði sigurkörfuna í sigri San Antonio á Atlanta í æfingaleik.
Það var félagi hans í franska landsliðinu, Tony Parker, sem teiknaði upp kerfið sem færði Spurs sigurinn.
De Colo þykir minna dálítið á Manu Ginobili, annan leikmann Spurs, þegar sá síðarnefndi kom fyrst til San Antonio. Var þá dálítið villtur. Annars eru það helst sendingafræðin hjá De Colo sem þykja minna á Argentínumanninn, sem fyrir löngu er orðin goðsögn.
"Ég er með einn Manu fyrir - ég þarf ekki annan," tautaði Gregg Popovich einhverju sinni þegar De Colo kastaði boltanum út af.
Nú erum við ekki að eyða þessu plássi í De Colo af því við teljum að hér sé komin næsta stórstjarna í NBA. Það er bara svo gaman að sjá hvernig menn gera hlutina þarna í San Antonio.
Óvíst er að Frakkinn fái mínútur hjá liðinu í vetur, enda er nóg af fínum leikmönnum í þeirra röðum. Það er bara svo skondið að sjá hvað San Antonio virðist alltaf vera skrefinu á undan öllum öðrum þegar kemur að því að finna gimsteina í fjóshaugum - og gera úr þeim frábæra körfuboltamenn.
Það er ekki langt síðan Gary Neal skaust fram á sjónarsviðið með svipuðum hætti hjá Spurs. Hann skoraði sigurkörfu í æfingaleik á sínum tíma eftir að Manu Ginobili hafði teiknað upp fyrir hann flott kerfi og hann hefur reynst betri en enginn hjá Spurs.
Vonandi nær Nando De Colo að gera eitthvað svipað.
Efnisflokkar:
Fagmennska
,
Litli-Manu
,
Nýliðar
,
Spurs