Friday, October 12, 2012

Af metnaðarleysi ÍR-inga


Við hérna á ristjórn NBA Ísland reynum yfirleitt að vera jákvæð í bragði þegar við fjöllum um körfuboltann hér heima, þó við eigum til að vera stríðin.

Suma hluti er bara ekki hægt að líta jákvæðum augum. Hluti eins og algjört metnaðarleysi ÍR-inga til að halda uppi lágmarks þjónustu fyrir deildina, stuðningsmennina og blaðamenn.

Það var leikur í Seljaskóla í kvöld og þegar klukkan er farin að ganga ellefu, veit enginn sem ekki fór á leikinn hvernig hann fór. Þetta er útvalsdeildarleikur.

Í desember árið 2010 vöktum við athygli á þessu asnalega máli í færslu hér á vefnum og skoruðum við þá á ÍR-inga og aðra sem væru með netmálin í ólagi hjá sér að laga þau. ÍR-ingar tóku þessi skilaboð ekki til sín þá og eru enn ekki búnir að því.

Hvernig dettur mönnum í hug að reka lið í efstu deild árið 2012 og vera ekki með skothelda nettengingu í húsinu? Þetta er bara fáránlegt. Það er ekki hægt að kalla það neitt annað.

Við höfum ekkert á móti ÍR og eigum ekki að þurfa að taka það fram, það vita allir sem lesa þessa síðu, en nú er komið nóg af þessu bulli. ÍR-ingar verða bara að fá að heyra það núna. Svona rugl gengur ekki.

Reynið að sýna smá metnað og fjósast til að koma þessu í lag. Það duga engar afsakanir lengur.

Mynd/ÍR