Wednesday, September 26, 2012
NBA ætlar viljandi að rifja upp verstu tísku allra tíma
Flestum þykja þeir straumar og stefnur sem ríktu í klæðaburði og tísku á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar nokkuð svalir. Níundi áratugurinn var úthrópaður fyrir hallærislegheit, þó sú neikvæðni hafi reyndar minnkað mikkið með tímanum. Í dag þykir krúttlegt og retro að halda 80´s gleðskap.
Það sem er minna rætt um, er að tíundi áratugurinn var svo miklu miklu verri - raunar algjört einsdæmi og ekkert minna en svartur blettur á mannkynssögunni.
Hvorki fyrr né síðar höfum við séð annan eins hrylling og fatatískuna sem gekk yfir okkur á uppafsárum tíunda áratugarins. Þá var sem sýrutrippandi hippar sjötta og áttunda áratugarins hafi farið í partí með kókaínsniffandi geðsjúklingum níunda áratugarins og ákveðið að hanna nýja fatalínu í eftirpartíinu þegar allir voru gjörsamlega hellaðir á því.
Útkoman er eitthvað það skelfilegasta sem sést hefur og í vetur hafa nokkur af liðunum í NBA ákveðið að rífa upp þessi sár og láta blæða úr þeim á ný. Þetta er aðeins til marks um það hvað fólk í dag er orðið hugmyndasnautt. Það gerir það enginn af gamni sínu að klæðast svona hroðbjóði á ný.
Það er einfaldlega ekki nógu langt liðið frá tíunda áratugnum svo tímabært sé að menga umhverfið með þessum viðbjóði aftur. Þetta er bara allt of hrottalega ljótt - miklu verra en það var 1994.
Þú veist það að tískubylgjur eru ljótar og hallærislegar þegar þú áttar þig á því að þær séu það um leið og þær koma út. Búningarnir hérna fyrir neðan virka sumir 10 sinnum ógeðslegri en þeir voru á sínum tíma og það er nú ekkert smá afrek.
Auðvitað eru sumir af þeim klassík, en aðrir eru mannréttindabrot. Og það vantar meira að segja nokkra af þeim ljótustu í þetta safn.
Efnisflokkar:
Dreptu okkur ekki
,
Fatnaður
,
Fötin skapa manninn
,
Hroðbjóður
,
Tíska