Saturday, September 22, 2012

Blake Griffin byrjar ansi vel


Fyrstu þrjú árin hans Blake Griffin í NBA deildinni hafa verið nokkuð sérstök. Eins og flestir vita þurfti hann að sitja á bekknum allt fyrsta árið sitt vegna meiðsla, en kom svo eins og fellibylur inn í deildina á þarsíðustu leiktíð.

Griffin varð fljótlega einn vinsælasti leikmaður deildarinnar og var það mikið að þakka tilþrifum hans í sóknarleiknum. Troðslur hans hafa verið með því besta sem sést hefur og Clippers-liðið hans hefur verið á stöðugri uppleið.

Á einhverjum tímapunkti fór Griffin svo að verða óvinsæll líka. Það fór í taugarnar á fólki að hann sigraði í troðkeppninni, tuðið í honum og tendensar hans til að fara í fýlu fór líka í fólk.

Í framhaldi af þessu fór þessi nokkuð stóri hópur "hatursmanna" að gagnrýna Griffin sem leikmann og benda t.d. á að hann væri ekki sérstakur skotmaður og ætti alveg eftir að læra að spila niðri á blokkinni.

Eitthvað af þessari neikvæðni á reyndar alveg rétt á sér, en við megum ekki fara að hatast út í Blake Griffin. Það er fullt af mönnum í NBA deildinni sem eiga frekar skilið að þú sért með leiðindi út í þá.

Pilturinn er duglegur og vonandi heldur hann heilsu og heldur áfram að bæta sig á næstu árum. Þá verður óhemju gaman að fylgjast með Clippers.

Að lokum er gaman að geta þess að Blake Griffin er aðeins 7. maðurinn frá árinu 1990 og sá fyrsti síðan 2001 sem er með 20 stig og 10 fráköst að meðaltali eftir tvö fyrstu árin sín í deildinni. Þetta þykir okkur nú bara ansi vel af sér vikið hjá Griffin.

Það var síðast Elton Brand (Chicago Bulls) sem náði þessum tölum en auk hans og Griffin hafa þeir David Robinson (San Antonio), Shaquille O´Neal (Orlando Magic), Alonzo Mourning (Charlotte Hornets, Larry Johnson (Charlotte Hornets) og Tim Duncan (San Antonio) náð því að vera með 20/10 að meðaltali á fyrstu tveimur árunum sínum í deildinni.

Hér fyrir neðan sérðu námundaða tölfræði þessara leikmanna fyrstu tvö árin sín í deildinni (nýliðaárið fyrir ofan) - stig og fráköst.