Saturday, September 22, 2012

Af hægðaheilum og hvítu hyski á bandi SS Lazio


























Þegar við vöknuðum í morgun, reyndist vera kominn nýr dagur. Það kom okkur meira á óvart en að nokkrir af stuðningsmönnum SS Lazio sem fylgdu liðinu til London í leik gegn Tottenham hafi gerst sekir um kynþáttaníð.

Um það bil 1500 stuðningsmenn ítalska liðsins fóru á leikinn á White Hart Lane og einhver hluti þeirra bauð upp á apahljóð í áttina að Aaron Lennon og Jermain Defoe hjá enska liðinu.

Þetta er aðeins nýjasta atvikið á löngum og ógeðslegum rasismalista SS Lazio. Við héldum með Lazio hérna í gamla daga, en hættum því snarlega þegar við komumst að raun um hvað harðlínustuðningsmenn liðsins eru snældugeðveikir.

Þegar Lazio fékk fyrst til sín þeldökkan leikmann á sínum tíma, réðust þessir stuðningsmenn inn á lokað æfingasvæði liðsins og ætluðu að drepa hann. Ekki munaði miklu að það tækist.

Óeirðir eru daglegt brauð á leikjum Lazio og rasismi virðist vera þessum undirmálsmönnum í blóð borinn. Þetta er með öllum ólíkindum.

Knattspyrnusamband Evrópu á að láta Lazio spila restina af Evrópuleikjum sínum fyrir luktum dyrum vegna athæfis stuðningsmanna liðsins á White Hart Lane. Komi eitthvað svona fyrir aftur á umsvifalaust að vísa liðinu úr keppni.

Auðvitað væri hart að dæma liðið úr keppni vegna óláta stuðningsmanna þess, en svona hægðaheilar hafa bara ekkert inn á knattspyrnuvelli að gera og svona bulli verður bara að útrýma.

Það gengur ekki að þessir svokölluðu stuðningsmenn komist ítrekað upp með svona hegðun. Þetta er svo fjarri því að vera í fyrsta skipti sem þessir vitleysingar haga sér svona.